Alllengi hefur tíðkast hér á landi að halda upp á áramót. Til að mynda eru þekkt dæmi um áramótabrennur á Íslandi allt frá því á 18. öld.
Sá maður skal eigi mega játa arfi undan sér sem hann er yngri en tvítugur, en sá er tvítugur sem hefir tuttugu jólanætur.Árið 1582 fyrirskipaði Gregoríus páfi 13. að upphaf ársins skyldi aftur fært á 1. janúar. Innocentius páfi 12. ítrekaði þetta boð rúmri öld seinna, árið 1691. Lengi vel sinntu mótmælendur að sjálfsögðu ekki boðum páfa. Þeim mun samt um síðir hafa þótt óhentugt að hafa ekki sömu tímaviðmiðun í suður- og norðurhluta álfunnar. Í norðurhluta Þýskalands, Danmörku og Noregi var því 1. janúar tekinn upp sem nýársdagur árið 1700. Englendingar fylgdu ekki í kjölfarið fyrr en árið 1752, en Svíar reyndust allra þjóða fastheldnastir og gerðu 1. janúar ekki að nýársdegi fyrr en árið 1783. Íslendingar virðast í þessu efni hafa verið langt á undan öðrum þjóðum hins lúterska rétttrúnaðar og reyndar á undan sjálfum páfanum. Í Nýja testamenti Odds Gottskálkssonar frá 1540 stendur nýársdagur við 1. janúar. Sama er að segja um þýðingu Gissurar Einarssonar Skálholtsbiskups á kirkjuskipan Kristjáns konungs 3. árið 1537. Guðbrandur Þorláksson Hólabiskup gerði slíkt hið sama í nokkrum bóka sinna kringum 1600. Meðan Íslendingar héldu áramótin á sama tíma og jólin hét 1. janúar ekki annað en áttundi eða átti dagur jóla. Greinilegt er þó að hann hefur verið meiriháttar veisludagur. Um Gissur Þorvaldsson segir til dæmis árið 1241 að „hann hafði fjölmennt jólaboð og bauð vinum sínum að hinum átta degi. Þar var mjöður blandinn og mungát heitt.“ Um Guðbrand biskup Þorláksson á Hólum er sagt að hann hafi verið vanur að hafa mannfagnað á nýári og bjóða til helstu mönnum nærsveitis. Seinna á 17. öld er þess getið að síra Þórður Jónsson í Hítardal og Helga kona hans hafi jafnan haldið nýársveislu. Frá því um 1740 er til gamankvæði eftir síra Gunnar Pálsson um Jón Hjaltalín sýslumann í Reykjavík sem Gunnari þótti ærið veisluglaður. Eitt erindið er svona:
Nóttina fyrir nýársdaginn nokkuð trúi ég haft sé við fellur mönnum flest í haginn fullum upp með gamanið. Þá er á ferðum enginn aginn allir ráða gjörðum sín - hjá honum Jóni Hjaltalín -. Fagur kyrtill, fullur maginn fallega þeir sér ansa. Allan veturinn eru þeir að dansa.Árið 1791 segir Sveinn Pálsson læknir þannig frá skólapiltum í Hólavallaskóla í Reykjavík:
Á gamlárskvöld halda þeir brennu á hæð einni skammt frá skólanum sem þeir kalla Vulkan. Er brennan svo stór að hún sést úr margra mílna fjarlægð.Þorvaldur Thoroddsen segir einnig frá því um 1870 að á gamlárskvöldi hafi skólapiltar blysfarir með álfadansi og skrípabúningum á Tjörninni eða Hólavelli. Af öllu þessu má ráða að ærið lengi hafi verið haldið upp á áramótin á Íslandi. Frekara lesefni á Vísindavefnum
- Af hverju eru bara tólf mánuðir í árinu? eftir Þorstein Vilhjálmsson.
- Hvenær eru aldamót, og af hverju hélt fólk að þau væru um áramótin 1999/2000? eftir Þorstein Vilhjálmsson.
- Árni Björnsson. Jól á Íslandi. Rv. 1963, 88-96, 110, og heimildir sem þar er vísað til.
- Jónsbók. Már Jónsson tók saman. Rv. 2004, 316.
- Mynd: Áramótin á Hornafirði. Hornafjörður: Samfélagsvefur.
Hvenær og af hverju var byrjað að halda upp á áramótin á Íslandi? Hvernig var það gert fyrst?