Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvenær og af hverju var byrjað að halda upp á áramótin á Íslandi?

Árni Björnsson

Mjög breytilegt er og hefur verið um heim allan hvenær haldið er upp á áramót. Sem dæmi má nefna að Kínverjar hafa eigin áramót sem lúta allt öðrum reglum en hér á Vesturlöndum.

Í Evrópu var byrjun ársins lengi vel einnig mjög á reiki. Rómverjar höfðu í öndverðu látið árið hefjast 1. mars og mánaðarheitin bera þess enn merki; október þýðir í raun 8. mánuður ársins, nóvember 9. og desember 10. mánuður ársins. Frá fyrstu öld fyrir upphaf tímatals okkar létu Rómverjar svo árið byrja 1. janúar. Fyrstu páfarnir héldu sér við þá dagsetningu enda var ekki enn búið að ákvarða hinn opinbera fæðingardag Jesú Krists (sjá Af hverju höldum við jólin í desember ef sagt er að Jesú hafi fæðst í júlí? eftir Sigurjón Árna Eyjólfsson). Í Austrómverska ríkinu ákvað Konstantínus mikli hins vegar að árið skyldi hefjast 1. september, og sumir páfar fylgdu þeim sið.

Um 800 fyrirskipaði Karl mikli að í ríki sínu skyldi árið hefjast á boðunardegi Maríu meyjar 25. mars. Englendingar tóku snemma upp jóladag sem nýársdag og héldu sér við hann fram á 12. öld, en þá færðu þeir hann einnig yfir á 25. mars. Á næstu öldum gat opinber byrjun ársins verið ólík eftir ríkjum, héröðum og jafnvel hertogadæmum.


Alllengi hefur tíðkast hér á landi að halda upp á áramót. Til að mynda eru þekkt dæmi um áramótabrennur á Íslandi allt frá því á 18. öld.

Íslendingar tóku jóladag sem nýársdag eftir ensku kirkjunni eins og fleira, og héldu sér við hann fram til siðaskipta. Dæmi um þetta er í Réttarbót Hákonar konungs Magnússonar frá 1314:

Sá maður skal eigi mega játa arfi undan sér sem hann er yngri en tvítugur, en sá er tvítugur sem hefir tuttugu jólanætur.

Árið 1582 fyrirskipaði Gregoríus páfi 13. að upphaf ársins skyldi aftur fært á 1. janúar. Innocentius páfi 12. ítrekaði þetta boð rúmri öld seinna, árið 1691. Lengi vel sinntu mótmælendur að sjálfsögðu ekki boðum páfa. Þeim mun samt um síðir hafa þótt óhentugt að hafa ekki sömu tímaviðmiðun í suður- og norðurhluta álfunnar. Í norðurhluta Þýskalands, Danmörku og Noregi var því 1. janúar tekinn upp sem nýársdagur árið 1700. Englendingar fylgdu ekki í kjölfarið fyrr en árið 1752, en Svíar reyndust allra þjóða fastheldnastir og gerðu 1. janúar ekki að nýársdegi fyrr en árið 1783.

Íslendingar virðast í þessu efni hafa verið langt á undan öðrum þjóðum hins lúterska rétttrúnaðar og reyndar á undan sjálfum páfanum. Í Nýja testamenti Odds Gottskálkssonar frá 1540 stendur nýársdagur við 1. janúar. Sama er að segja um þýðingu Gissurar Einarssonar Skálholtsbiskups á kirkjuskipan Kristjáns konungs 3. árið 1537. Guðbrandur Þorláksson Hólabiskup gerði slíkt hið sama í nokkrum bóka sinna kringum 1600.

Meðan Íslendingar héldu áramótin á sama tíma og jólin hét 1. janúar ekki annað en áttundi eða átti dagur jóla. Greinilegt er þó að hann hefur verið meiriháttar veisludagur. Um Gissur Þorvaldsson segir til dæmis árið 1241 að „hann hafði fjölmennt jólaboð og bauð vinum sínum að hinum átta degi. Þar var mjöður blandinn og mungát heitt.“

Um Guðbrand biskup Þorláksson á Hólum er sagt að hann hafi verið vanur að hafa mannfagnað á nýári og bjóða til helstu mönnum nærsveitis. Seinna á 17. öld er þess getið að síra Þórður Jónsson í Hítardal og Helga kona hans hafi jafnan haldið nýársveislu. Frá því um 1740 er til gamankvæði eftir síra Gunnar Pálsson um Jón Hjaltalín sýslumann í Reykjavík sem Gunnari þótti ærið veisluglaður. Eitt erindið er svona:

Nóttina fyrir nýársdaginn

nokkuð trúi ég haft sé við

fellur mönnum flest í haginn

fullum upp með gamanið.

Þá er á ferðum enginn aginn

allir ráða gjörðum sín

- hjá honum Jóni Hjaltalín -.

Fagur kyrtill, fullur maginn

fallega þeir sér ansa.

Allan veturinn eru þeir að dansa.

Árið 1791 segir Sveinn Pálsson læknir þannig frá skólapiltum í Hólavallaskóla í Reykjavík:

Á gamlárskvöld halda þeir brennu á hæð einni skammt frá skólanum sem þeir kalla Vulkan. Er brennan svo stór að hún sést úr margra mílna fjarlægð.

Þorvaldur Thoroddsen segir einnig frá því um 1870 að á gamlárskvöldi hafi skólapiltar blysfarir með álfadansi og skrípabúningum á Tjörninni eða Hólavelli.

Af öllu þessu má ráða að ærið lengi hafi verið haldið upp á áramótin á Íslandi.

Frekara lesefni á Vísindavefnum

Heimildir og mynd

Spurningin í heild sinni hljóðaði svona:
Hvenær og af hverju var byrjað að halda upp á áramótin á Íslandi? Hvernig var það gert fyrst?

Höfundur

Árni Björnsson

dr. phil. í menningarsögu

Útgáfudagur

22.3.2007

Spyrjandi

Sigrún Þórleifsdóttir

Tilvísun

Árni Björnsson. „Hvenær og af hverju var byrjað að halda upp á áramótin á Íslandi?“ Vísindavefurinn, 22. mars 2007, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=6550.

Árni Björnsson. (2007, 22. mars). Hvenær og af hverju var byrjað að halda upp á áramótin á Íslandi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=6550

Árni Björnsson. „Hvenær og af hverju var byrjað að halda upp á áramótin á Íslandi?“ Vísindavefurinn. 22. mar. 2007. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=6550>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvenær og af hverju var byrjað að halda upp á áramótin á Íslandi?
Mjög breytilegt er og hefur verið um heim allan hvenær haldið er upp á áramót. Sem dæmi má nefna að Kínverjar hafa eigin áramót sem lúta allt öðrum reglum en hér á Vesturlöndum.

Í Evrópu var byrjun ársins lengi vel einnig mjög á reiki. Rómverjar höfðu í öndverðu látið árið hefjast 1. mars og mánaðarheitin bera þess enn merki; október þýðir í raun 8. mánuður ársins, nóvember 9. og desember 10. mánuður ársins. Frá fyrstu öld fyrir upphaf tímatals okkar létu Rómverjar svo árið byrja 1. janúar. Fyrstu páfarnir héldu sér við þá dagsetningu enda var ekki enn búið að ákvarða hinn opinbera fæðingardag Jesú Krists (sjá Af hverju höldum við jólin í desember ef sagt er að Jesú hafi fæðst í júlí? eftir Sigurjón Árna Eyjólfsson). Í Austrómverska ríkinu ákvað Konstantínus mikli hins vegar að árið skyldi hefjast 1. september, og sumir páfar fylgdu þeim sið.

Um 800 fyrirskipaði Karl mikli að í ríki sínu skyldi árið hefjast á boðunardegi Maríu meyjar 25. mars. Englendingar tóku snemma upp jóladag sem nýársdag og héldu sér við hann fram á 12. öld, en þá færðu þeir hann einnig yfir á 25. mars. Á næstu öldum gat opinber byrjun ársins verið ólík eftir ríkjum, héröðum og jafnvel hertogadæmum.


Alllengi hefur tíðkast hér á landi að halda upp á áramót. Til að mynda eru þekkt dæmi um áramótabrennur á Íslandi allt frá því á 18. öld.

Íslendingar tóku jóladag sem nýársdag eftir ensku kirkjunni eins og fleira, og héldu sér við hann fram til siðaskipta. Dæmi um þetta er í Réttarbót Hákonar konungs Magnússonar frá 1314:

Sá maður skal eigi mega játa arfi undan sér sem hann er yngri en tvítugur, en sá er tvítugur sem hefir tuttugu jólanætur.

Árið 1582 fyrirskipaði Gregoríus páfi 13. að upphaf ársins skyldi aftur fært á 1. janúar. Innocentius páfi 12. ítrekaði þetta boð rúmri öld seinna, árið 1691. Lengi vel sinntu mótmælendur að sjálfsögðu ekki boðum páfa. Þeim mun samt um síðir hafa þótt óhentugt að hafa ekki sömu tímaviðmiðun í suður- og norðurhluta álfunnar. Í norðurhluta Þýskalands, Danmörku og Noregi var því 1. janúar tekinn upp sem nýársdagur árið 1700. Englendingar fylgdu ekki í kjölfarið fyrr en árið 1752, en Svíar reyndust allra þjóða fastheldnastir og gerðu 1. janúar ekki að nýársdegi fyrr en árið 1783.

Íslendingar virðast í þessu efni hafa verið langt á undan öðrum þjóðum hins lúterska rétttrúnaðar og reyndar á undan sjálfum páfanum. Í Nýja testamenti Odds Gottskálkssonar frá 1540 stendur nýársdagur við 1. janúar. Sama er að segja um þýðingu Gissurar Einarssonar Skálholtsbiskups á kirkjuskipan Kristjáns konungs 3. árið 1537. Guðbrandur Þorláksson Hólabiskup gerði slíkt hið sama í nokkrum bóka sinna kringum 1600.

Meðan Íslendingar héldu áramótin á sama tíma og jólin hét 1. janúar ekki annað en áttundi eða átti dagur jóla. Greinilegt er þó að hann hefur verið meiriháttar veisludagur. Um Gissur Þorvaldsson segir til dæmis árið 1241 að „hann hafði fjölmennt jólaboð og bauð vinum sínum að hinum átta degi. Þar var mjöður blandinn og mungát heitt.“

Um Guðbrand biskup Þorláksson á Hólum er sagt að hann hafi verið vanur að hafa mannfagnað á nýári og bjóða til helstu mönnum nærsveitis. Seinna á 17. öld er þess getið að síra Þórður Jónsson í Hítardal og Helga kona hans hafi jafnan haldið nýársveislu. Frá því um 1740 er til gamankvæði eftir síra Gunnar Pálsson um Jón Hjaltalín sýslumann í Reykjavík sem Gunnari þótti ærið veisluglaður. Eitt erindið er svona:

Nóttina fyrir nýársdaginn

nokkuð trúi ég haft sé við

fellur mönnum flest í haginn

fullum upp með gamanið.

Þá er á ferðum enginn aginn

allir ráða gjörðum sín

- hjá honum Jóni Hjaltalín -.

Fagur kyrtill, fullur maginn

fallega þeir sér ansa.

Allan veturinn eru þeir að dansa.

Árið 1791 segir Sveinn Pálsson læknir þannig frá skólapiltum í Hólavallaskóla í Reykjavík:

Á gamlárskvöld halda þeir brennu á hæð einni skammt frá skólanum sem þeir kalla Vulkan. Er brennan svo stór að hún sést úr margra mílna fjarlægð.

Þorvaldur Thoroddsen segir einnig frá því um 1870 að á gamlárskvöldi hafi skólapiltar blysfarir með álfadansi og skrípabúningum á Tjörninni eða Hólavelli.

Af öllu þessu má ráða að ærið lengi hafi verið haldið upp á áramótin á Íslandi.

Frekara lesefni á Vísindavefnum

Heimildir og mynd

Spurningin í heild sinni hljóðaði svona:
Hvenær og af hverju var byrjað að halda upp á áramótin á Íslandi? Hvernig var það gert fyrst?
...