Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
París var sonur Príamosar konungs í Tróju. Hann hafði numið á brott Helenu fögru, drottningu Menelásar konungs í Spörtu og af þeim sökum braust út Trójustríðið (sjá nánar í svari Geirs Þ. Þórarinssonar við spurningunni Hvernig og hvers vegna var Trójustríðið háð?).
Gríska hetjan Fíloktetes drap París Trójuprins með eitraðri ör á síðasta ári Trójustríðsins. Þetta gerðist eftir fall þeirra Hektors bróður hans og Akkillesar en áður en Trója féll. Þegar París var fallinn í valinn var Helena gefin Deífobosi, einum af sonum Príamosar, konungs Tróju.
Helena fagra og París. Myndin er eftir Jacques-Louis David.
Í söguljóðinu Fall Tróju (Iliou persis), sem nú er glatað, kom meðal annars fram að Menelás, konungur Spörtu, hafi endurheimt Helenu þegar Trója féll og haft hana aftur með sér heim. Þetta er í samræmi við frásögn Ódysseifskviðu þar sem þau Menelás og Helena eru komin aftur til heimahaganna.
Að vísu er til önnur útgáfa sögunnar en samkvæmt henni fór Helena aldrei til Tróju. Aftur á móti færði guðinn Hermes hana til Egyptalands þar sem hún dvaldi í tíu ár meðan draugur hennar var í Tróju. Menelás hafði drauginn með sér frá Tróju að stríðinu loknu en kom við á Egyptalandi þar sem hann hitti fyrir hina raunverulegu Helenu. Menelás bar um síðir kennsl á Helenu og hafði hana á brott með sér heim. Frá þessu segir meðal annars í leikriti Evripídesar Helena. Þessi útgáfa sögunnar er raunar eldri en leikritið og hana má rekja aftur til gríska skáldsins Stesikkórosar á 6. öld f. Kr.
Frekara lesefni á Vísindavefnum og mynd
Geir Þ. Þórarinsson. „Hvað varð um París og Helenu fögru?“ Vísindavefurinn, 29. maí 2007, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=6658.
Geir Þ. Þórarinsson. (2007, 29. maí). Hvað varð um París og Helenu fögru? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=6658
Geir Þ. Þórarinsson. „Hvað varð um París og Helenu fögru?“ Vísindavefurinn. 29. maí. 2007. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=6658>.