Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hver var staða Íslands gagnvart Danmörku meðan landið var hluti af Danmörku? Var Ísland nýlenda, hjálenda eða eitthvað annað?
Staða Íslands gagnvart Danmörku var alla tíð frekar óljós og umdeild, og breyttist verulega í tímans rás. Upphaflega komst landið undir Danakonung við samruna norsku og dönsku krúnanna seint á 14. öld og taldist þá ekki hluti Danmerkur heldur norskt skattland undir stjórn sameiginlegs konungs Danmerkur og Noregs.
Með vaxandi miðstýringu frá Kaupmannahöfn, einkum eftir siðaskiptin um miðja 16. öld og innleiðingu einveldis í konungdæminu á 7. áratug 17. aldar, styrktist vald Danakonungs yfir landinu. Staða einstakra hluta þessa flókna ríkis var þó aldrei mjög skýr, því að þótt markmið Danakonunga, eins og allra annarra evrópskra einvaldskonunga, væri að koma á samræmdri stjórn innan ríkisins alls, þar sem allt endanlegt vald væri í höndum hins fullvalda konungs, þá tókst það aldrei að fullu. Þannig voru fjarlægir hlutar ríkisins, eins og Ísland, alla tíð tiltölulega sjálfstæðir um eigin innri málefni og lagareglur voru aldrei algerlega samræmdar í ríkinu öllu.
Miklar breytingar urðu á danska konungsríkinu á 19. öld eftir að stórir hlutar þess töpuðust í kjölfar styrjalda. Noregur fluttist undir Svíakonung árið 1814 í lok Napóleonsstyrjalda og hálfri öld síðar hertóku Prússar og Austurríkismenn hertogadæmin Slésvík og Holtsetaland. Viðbrögð Dana við þessum landamissi var að treysta innbyrðis samstöðu dönsku þjóðarinnar, en danska skáldið H. P. Holst orðaði þá hugmynd þannig að það sem tapast hafði út á við yrði að vinnast inn á við („hvad udad tabtes, det må indad vindes“). Frá 1864 má því segja að hið fjölþjóðlega danska konungsríki hafi verið fyrir bí og við hafði tekið frekar einsleitt danskt þjóðríki.
Danmörk, Ísland og Færeyjar. Kort frá 1814.
Engin sátt ríkti um það hverju þetta breytti um stöðu Íslands innan ríkisins. Í fyrstu virðist stefnan hafa verið sú að landið yrði einfaldlega einn hluti hins danska þjóðríkis, eitthvað í líkingu við Borgundarhólm eða Jótland. Danski lögspekingurinn J. E. Larsen útskýrði þessa stefnu gagnvart Íslandi í riti sem hann gaf út árið 1855 og var niðurstaða hans þar sú að með fyrstu stjórnarskrá Danmerkur, sem samþykkt var 5. júní 1849, hafi ríkið endanlega orðið ein samræmd heild og allur aðskilnaður einstakra hluta þess hafi þar með verið úr sögunni.
Pólitískur forystumaður Íslendinga, Jón Sigurðsson, andmælti þessum hugmyndum Larsens að bragði með öðru riti. Viðurkenndi Jón að mikil óvissa hefði ávallt ríkt um stöðu Íslands í danska kongungsríkinu, sem kom fram í því að landið hefði ýmist verið kallað „ríkishluti“ (da. Provinds), „hjálenda“ (da. Biland) eða „nýlenda“ (da. Koloni) í opinberum skjölum. Allt þetta sagði Jón að væri þó byggt á misskilningi á rétti Íslendinga og vanþekkingu á íslenskri sögu. Ísland hefði gengið inn í norska ríkið sem frjálst sambandsland með Gamla sáttmála og með fall einveldis árið 1848 hafi það aftur náð þeirri stöðu gagnvart dönsku krúnunni. Þessir tveir menn komust þannig að mjög ólíkum niðurstöðum um hvaða stöðu Ísland hefði innan ríkisins eftir miðja 19. öld, en báðir voru þó sammála um að það væri hvorki hjálenda né nýlenda, heldur eitthvað annað, sem enginn var alveg viss hvað væri.
Fljótlega varð ljóst að hugmyndir J. E. Larsens og stuðningsmanna svokallaðs alríkis (da. helstat) voru ekki raunhæfar, því að flestir Danir og allir Íslendingar sem létu sig málið varða voru sammála um að Íslendingar væru sérstök þjóð sem ætti illa heima í dönsku þjóðríki. Um leið virtist næsta ómögulegt fyrir fátækt, fámennt og afskekkt land eins og Ísland að reka sitt eigið ríki, eitt og óstutt og því hlyti það að vera tengt danska ríkinu áfram. Málið leystu Danir og Íslendingar með samningum sín á milli þar sem völdin fluttust smám saman frá Kaupmannahöfn til Reykjavíkur eftir því sem íslensku þjóðinni óx fiskur um hrygg. Þeirri þróun lauk endanlega með stofnun lýðveldis á Þingvöllum árið 1944.
Jón Sigurðsson vildi meina að Ísland hefði verið frjálst sambandsland fram að Kópavogsfundi og aftur í kjölfar afnám einveldis Danakonungs.
Þótt Ísland hafi ekki verið dönsk nýlenda, að minnsta kost ekki formlega séð, þá var landið þó ekki ósnert af hinni svokölluðu „nýju heimsvaldastefnu“ (e. new imperialism) á 19. öld og fyrri hluta 20. aldar. Þessi stefna tengdist vaxandi hernaðaryfirburðum Evrópuríkja í kjölfar iðn- og tæknibyltingar á 19. öld, og því sjálfstrausti – eða ofdrambi – sem einkenndi viðhorf Evrópubúa gagnvart fólki í öðrum heimshlutum á þessum tíma. Jafnaðarmerki var gjarnan sett á milli hugtaksins „Evrópu“ og „siðmenningar“, og fullkomlega eðlilegt þótti að „þróaðar“ þjóðir fengju að ráðskast af vild með „vanþróaða villimenn“. Staða Íslands í þessari nýju heimsmynd var óviss frá upphafi.
Íslendingar sjálfir voru í litlum vafa um að þeir væru fullgildir Evrópubúar, og væru því engir „skrælingjar“. Ýmsir erlendir ferðamenn sem sóttu landið heim á 19. öld voru ekki sama sinnis, því að í lýsingum ferðabóka eru Íslendingar gjarnan settir á stall með nýlendubúum í Afríku og Asíu – og landið var þar með staðsett utan við „Evrópu“, eða með nýlendum. Slík viðhorf virðast þó ekki hafa sett mark sitt á afstöðu danskra ráðamanna til Íslendinga, þótt þau kunni að hafa haft áhrif á viðhorf til Íslendinga meðal dansks almennings. Íslendingar, ásamt Færeyingum, fengu þannig sama rétt og aðrir borgarar í ríkinu til að kjósa fulltrúa sína á danska þjóðþingið samkvæmt stjórnarskránni frá 1849, á meðan engum virðist hafa dottið í hug að Grænlendingum veittist sá heiður.
Myndir:
Guðmundur Hálfdanarson. „Hvort var Ísland nýlenda eða hjálenda Dana?“ Vísindavefurinn, 30. janúar 2015, sótt 3. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=66561.
Guðmundur Hálfdanarson. (2015, 30. janúar). Hvort var Ísland nýlenda eða hjálenda Dana? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=66561
Guðmundur Hálfdanarson. „Hvort var Ísland nýlenda eða hjálenda Dana?“ Vísindavefurinn. 30. jan. 2015. Vefsíða. 3. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=66561>.