Ef blóðþegi í blóðflokki A fær blóð með B-vaka á rauðu blóðkornunum ráðast B-mótefni hans á þau og aðkomublóðið hleypur í kekki. Kekkirnir virka sem blóðtappar og hindra streymi blóðs um æðarnar sem er að sjálfsögu miður gott. Hið sama getur gerst ef blóðþega í O-blóðflokki er gefið blóð sem tilheyrir A-, B-, eða AB-blóðflokki því eins og sést í töflunni hér fyrir ofan er einstaklingur í O-flokkunum með mótefni gegn bæði A- og B-vökum. Í blóði hans er hins vegar enginn vaki sem mótefni væntanlegs blóðþega gæti ráðist gegn og því getur hann gefið öllum blóð. Einstaklingur í AB-blóðflokki er með bæði A -og B-vaka en engin mótefni. Það hefur í för með sér að hann getur þegið blóð úr öllum flokkum en aðeins gefið blóð til einstaklings í sama blóðflokki. Þetta á þó að sjálfsögðu einungis við um ABO-blóðflokkakerfið en til eru margir aðrir flokkar sem eru algjörlega óháðir ABO-kerfinu, til dæmis Rhesus-kerfið. Nánar er fjallað um blóðflokkana í öðrum svörum á Vísindavefnum, til dæmis:
- Hvernig verkar blóðflokkakerfið? Hvað þýða stafirnir og plús- og mínusmerkin? eftir Bergþór Björnsson
- Hví hafa þróast með mannkyninu mismunandi blóðflokkar og hvaða tilgangi gegna þeir í dag? eftir Helgu Ögmundsdóttur
- Getur maður sem er í AB-blóðflokki átt barn í O-flokki? eftir EÖÞ og HMS
- Getur barn verið í öðrum blóðflokki en foreldrar þess, til dæmis í flokki O ef foreldrar eru bæði í flokki A? eftir Þorstein Vilhjálmsson