Mótefnavakarnir sem ABO-blóðflokkakerfið byggir á eru fjölsykrur sem eru fastar í frumuhimnu rauðra blóðkorna en mótefnin myndast í ónæmiskerfinu. Á hverju rauðu blóðkorni eru sæti fyrir tvær tegundir mótefnavaka úr þessu kerfi og erfist önnur tegundin frá föður og hin frá móður. Mögulegir mótefnavakar í kerfinu eru tveir og eru þeir kallaðir A og B. Ekki er nauðsynlegt að hafa mótefnavaka á rauðu blóðkornunum og ef hvorug tegundin er til staðar (arfgerð OO) er um blóðflokk O að ræða. Slíkt getur einungis gerst ef báðir foreldrar hafa haft að minnsta kosti annað sætið á rauðum blóðkornum sínum autt. Til þess að um blóðflokk A sé að ræða þarf arfgerð einstaklings að vera ein af þremur, OA, AO eða AA. Ef um OA eða AO arfgerð er að ræða hefur einstaklingurinn erft mótefnavaka A frá annað hvort móður eða föður en engan mótefnavaka frá hinu foreldrinu. Um blóðflokk B gildir á sama hátt að arfgerðir geta verið OB, BO eða BB. AB-blóðflokkurinn er sjaldgæfastur og er einungis til staðar í þeim sem hafa arfgerðina AB.Í þessu felst til dæmis að foreldrar sem eru bæði í flokki O geta einungis eignast börn í þeim flokki. Ef foreldrar eru bæði í flokki AB getur barnið orðið hvort sem er í flokki AB, A (arfgerð AA) eða B (BB), en það getur ekki orðið í flokki O. Ef foreldrar eru bæði í flokki A eins og dæmið í spurningunni miðast við, verður barnið oftast í þeim flokki en getur þó einmitt lent í flokki O. Möguleikarnir í arfgerðum eru þá þessir:
AA + AA -> AA, flokkur A AA + AO -> AA eða AO, flokkur A AO + AO -> AA, AO eða OA, flokkur A; OO, flokkur OHliðstæðar niðurstöður fást ef foreldrar eru bæði í flokki B; barnið getur þá verið í flokki O. Ef annað foreldri er í flokki A og hitt í B-flokki geta ýmsir kostir komið upp:
AA + BB -> AB, flokkur AB AA + BO -> AO, flokkur A; eða AB, flokkur AB AO + BB -> OB, flokkur B ; eða AB, flokkur AB AO + BO -> AO, flokkur A; OB, flokkur B; AB, flokkur AB; eða OO, flokkur OEf annað foreldri er í flokki A eða B og hitt í flokki O verður barnið í sama flokki og annaðhvort foreldrið. Ef annað foreldrið er í flokki AB og hitt í O verður barnið í flokki A eða B, með öðrum orðum alls ekki í sama flokki og annaðhvort foreldrið! Hér að neðan má líta mynd, sem þó er ekki tæmandi, um erfðir blóðflokkanna. Smellið til að fá stærri útgáfu. Hún er fengin á vef blóðbankans
Mynd: HB