Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Frá fornu fari hafa straumvötn hér á landi verið greind í tvennt, bergvatnsár og jökulár. Skiptingunni ræður litur ánna, bergvatnið er blávatn en jökulvötnin eru lituð af aurnum, jökulsvarfi, sem þau bera með sér. Í Náttúrufræðingnum 19451 greindi Guðmundur Kjartansson bergvatnsár í lindár og dragár. Mest af því sem hér fer eftir er úr þeirri grein. Eins og nöfnin bera með sér spretta lindár upp í lindum, uppsprettum, en dragárnar verða til smám saman úr litlum lækjum á svæði sem kallast drög árinnar. Allur þorri íslenskra áa eru dragár.
Lindár eiga uppruna sinn í jarðvatninu en yfirborð þess, jarðvatnsflöturinn, fylgir nokkuð yfirborði jarðar (sjá mynd hér fyrir neðan). Þetta vissu þeir gömlu, eins og segir í Prologus Snorra-Eddu, og meðal annars af þeim sökum þótti mönnum jörðin með nokkrum hætti vera lifandi eins og dýr og fuglar: „Það var eitt eðli [af fleirum], að jörðin var grafin í háum fjallstindum, og spratt þar vatn upp, og þurfti þar eigi lengra að grafa til vatns en í djúpum dölum; svo er og dýr og fuglar, að jafnlangt er til blóðs í höfði og fótum.“ Það er að vísu ofsagt að jafndjúpt sé á jarðvatnsflötinn á fjallstindum og í dölum; hann fylgir landslaginu en sléttir það út að nokkru (samanber mynd hér fyrir neðan).
Jarðvatn (blátt) fyllir allar glufur og holrými neðan við jarðvatnsborðið (jl). Blápunktað er svæði sem ýmist er vatnsósa eða ekki – jh er hæsta staða jarðvatnsborðs, jl hin lægsta. Dökkgrátt lag til vinsti er ógagndræpt og veldur því að lind kemur fram þar sem yfirborð jarðvatns og jarðar skerast. Tvær borholur eru sýndar, ba er sígæf en bd þornar í þurrkatíð.
Regnvatn sígur að hluta niður í jörðina (sums staðar allt vatnið, annars staðar mjög lítill hluti) og sameinast jarðvatninu, miklum „geymi“ sem nær marga kílómetra niður í jörðina. Þar sem ekki gætir jarðhita er hitastig þess stöðugt og nærri meðal-lofthita upptakasvæðisins.
Jarðvatnið streymir jafnt og þétt undan halla, frá hærri stöðum til lægri í átt til sjávar. Þar sem jarðvatnsflöturinn sker yfirborð jarðar, streymir jarðvatnið fram í uppsprettum, lindum. Stærstu og eindregnustu lindár hér á landi eru Brúará í Árnessýslu og Ytri-Rangá í Rangárvallasýslu. Lítil en fullkomin lindá nálægt Reykjavík er Kaldá fyrir sunnan Hafnarfjörð. Allar eiga þær upptök í lindum og ná fullri stærð við efstu upptök eða skammt fyrir neðan þau. Vatnsmagn þeirra er mjög jafnt og stöðugt allt árið og hvernig sem viðrar, því að jafnvel í úrhelli og leysingum hafa þær einungis aðrennsli neðanjarðar og á þeirri seinfæru leið dreifist vatnið og jafnast.
Ytri-Rangá.
Lindavatnið er kaldavermsl, hefur sama hitastig vetur og sumar. Hitasveiflur ársins ná ekki til jarðvatnsins vegna þess hve djúpt er á því. Í uppsprettum margra lindáa er hitinn 3-4°C; stundum eru þó uppsprettur sem liggja hátt yfir sjó ívið kaldari, og uppsprettur sem liggja lágt hlýrri – til dæmis aðeins 2°C undan Hekluhraunum en 5-6°C undan Landbrotshrauni. Þótt hitastig lindáa aðlagist lofthita á leið sinni frá upptökunum gerist það furðu hægt; ofannefndar þrjár lindár leggur ýmist aldrei (Kaldá) eða einungis í aftaka frostum.
Tilvísun: 1 Guðmundur Kjartansson 1945. Íslenzkar vatnsfallategundir. Náttúrufræðingurinn 15: 113-128. Endurprentað í bók Guðmundar Kjartanssonar: Fold og vötn. Greinar um jarðfræðileg efni. Bls 43-55. Bókaútgáfa Menningarsjóðs, Rvk. 1980. Myndir:
Þorleifur Einarsson. Myndun og mótun lands — Jarðfræði. Mál og menning, Reykjavík 1991.
Sigurður Steinþórsson. „Af hverju er hitastig og vatnsmagn lindáa nærri því jafnt yfir allt árið?“ Vísindavefurinn, 7. mars 2014, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=66321.
Sigurður Steinþórsson. (2014, 7. mars). Af hverju er hitastig og vatnsmagn lindáa nærri því jafnt yfir allt árið? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=66321
Sigurður Steinþórsson. „Af hverju er hitastig og vatnsmagn lindáa nærri því jafnt yfir allt árið?“ Vísindavefurinn. 7. mar. 2014. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=66321>.