Svifryksagnir eru ekki aðeins ólíkar að stærð heldur er efnasamsetning þeirra einnig mjög ólík og eiginleikar þeirra mjög breytilegir eftir uppruna. Nægir í því sambandi að nefna sót, steinryk, málmryk, súlföt, kalk, salt og fleira. Stærri agnir geta verið frjókorn, sandur og silt. Fínasta rykið sem myndast í andrúmsloftinu eru loftmengunarefni, til dæmis brennisteinsdíoxíð (SO2). Aukinn styrkur ryks í andrúmsloftinu getur leitt til kólnandi veðurfars þar sem rykið dregur úr því sólarljósi sem nær til jarðar. Áhrifin eru þannig öfug við aukinn styrk koltvíoxíðs (CO2) sem ásamt öðrum efnum viðheldur gróðurhúsaáhrifum. Gróft ryk veldur sjónmengun og óþægindum. Fínasta rykið dregur úr skyggni. Sótagnir í andrúmsloftinu auka skaðsemi brennisteinsdíoxíðs (SO2) og brennisteinssýru (H2SO4), þar sem þessi efni bindast sótögnunum. Áhrif svifryks á heilsu fólks eru að mjög miklu leyti háð stærð agnanna, fínar agnir eru mun hættulegri heilsunni en þær grófu. Agnir minni en 10 µm eiga auðveldara með að ná djúpt niður í lungun og geta safnast þar fyrir. Þegar svo langt er komið fara áhrifin alfarið eftir því hversu lengi og hversu oft manneskjan andar að sér menguðu lofti og hvort hættuleg efni eru í rykinu eða loða við það, til dæmis þungmálmar eða PAH (fjölarómatísk vetniskolefni). Þeir einstaklingar sem glíma við lungna- og astmasjúkdóma geta orðið fyrir miklum óþægindum þá daga sem svifryksmengun er í hámarki og langtímaáhrifin á heilsufar annarra geta einnig verið alvarleg. Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:
- Hvað veldur gróðurhúsaáhrifum? eftir Jón Má Halldórsson
- Hvað mengar eitt álver mikið í samanburði við bíl? eftir Auði H. Ingólfsdóttur og Ragnhildi Helgu Jónsdóttur
- Hvernig verður ryk til? eftir EDS
Þetta svar er lítillega breyttur texti af heimasíðu Umhverfisstofnunnar og birtur með góðfúslegu leyfi hennar.