Hvað mengar eitt álver mikið í samanburði við bíl. Til dæmis þegar eitt álver bætist við, hvað jafnast það á við mikla fjölgun í bílaflotanum?Álver og bílar eiga það sameiginlegt að valda bæði staðbundinni og hnattrænni mengun. Með staðbundinni mengun er átt við efni sem fara út í andrúmsloftið og geta valdið mengun í nánasta umhverfi ef styrkur þeirra fer yfir ákveðin mörk. Þessi efni geta haft neikvæð áhrif á lífríki og heilsu manna. Þegar talað er um hnattræna mengun er oftast vísað til svokallaðra gróðurhúsalofttegunda, en aukinn styrkur þessara lofttegunda í andrúmslofti getur leitt til loftslagsbreytinga. Ekki skiptir máli hvar á hnettinum uppsprettur slíkrar losunar eru, heldur er það heildarmagnið sem er losað út í andrúmsloftið á allri jörðinni sem skiptir máli.
Ef við skoðum fyrst hvað eitt álver losar mikið af gróðurhúsalofttegundum miðað við bíla kemur í ljós að það þarf mjög marga bíla til að menga jafnmikið og eitt álver. Á Íslandi nota álver rafmagn frá endurnýjanlegum orkugjöfum og því losa þau ekki gróðurhúsalofttegundir út í andrúmsloftið vegna bruna kola og olíu eins og bílarnir. Hinsvegar verða til koldíoxíð (CO2) og svokölluð PFC-efni í efnaferlum við sjálfa framleiðsluna. Ef við tökum Fjarðaál sem dæmi, sem er álverið sem Alcoa er að byggja á Reyðarfirði, þá er gert ráð fyrir að á hverju ári losi álverið 530 þúsund tonn af CO2. Þá mun álverið losa sem samsvarar 34.000 tonnum PFC-efna, þegar búið er að umreikna magn PFC yfir í svokölluð CO2-ígildi (e. CO2 equivalent). Ástæða þess að það þarf að umreikna magn PFC yfir í CO2-ígildi er sú að PFC er margfalt virkari gróðurhúsalofttegund en koldíoxíð. Þess vegna þarf að margfalda magn PFC-efna með ákveðnum stuðli til að fá tölu sem er samanburðarhæf við losun koldíoxíðs. Samtals má því búast við að Fjarðaál losi 564.000 tonn CO2-ígilda á ári, þegar búið er að leggja saman losun CO2 og PFC-efna.
Smellið til að skoða stærri útgáfu.
- Umhverfisstofnun. Umhverfisvísar. UST-2004:11.
- Alcoa, Hönnun og VST. Aluminum Plant in Reydarfjodur. Fjardabyggd. Nóvember 2002. Skjalið má nálgast hér.
- Bílar: Íranska fréttasíðan Iran Daily
- Fjarðaál: Heimasíða Alcoa