Sólin Sólin Rís 09:06 • sest 17:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 06:24 • Sest 16:46 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:17 • Síðdegis: 17:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:24 • Síðdegis: 23:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 09:06 • sest 17:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 06:24 • Sest 16:46 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:17 • Síðdegis: 17:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:24 • Síðdegis: 23:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvernig er hægt að túlka goðsöguna um Evrópu?

Sverrir Jakobsson

Þegar á 5. öld hafði sagnaritarinn Heródótos skýrt söguna um brottnám Evrópu frá Fönikíu sem táknsögu. Kríteyingar hefðu rænt Evrópu sem lið í verslunardeilu. Taldi Heródótos að Trójumenn hefðu rænt Helenu, eiginkonu Menelásar konungs í Spörtu, í hefndarskyni og tengdi þannig söguna um brottnám Evrópu við goðsögnina um Trójustríðið. Að sögn hans var þetta upphaf andstöðu Asíumanna við Evrópumenn.1 Þessi skýring var svo síðar tekin upp af kristnum fræðimönnum sem vildu túlka grísku goðsögurnar sem helgisögur af mönnum.2

Merking táknsögunnar er margræð. Táknar hún færslu menntunar frá Fönikíu til Grikklands, í ljósi þess að Grikkir tóku upp stafrófið að fordæmi Fönikíumanna? 3 Eða vísar hún til útþenslu grískra borgríkja á 6. og 7. öld þegar grískir landnemar stofnuðu borgir víða um Miðjarðarhafið, einnig að fyrirmynd Fönikíumanna sem voru fyrri til með slíkar borgarstofnanir? 4 Að minnsta kosti er ljóst að grísk menning sótti margt til menningar Fönikíumanna. Ekki er það heldur tilviljun að Evrópa er flutt til Krítar því að Krít er elsta ríkið sem staðsett er í Evrópu og sögur fara af. Þar ríkti blómleg hámenning frá því um 3000 f.Kr. allt til 1200 f.Kr.; hin mínóska eyjamenning sem leið undir lok nokkru áður en grísk menning hófst til vegs og virðingar. Ef hægt er að staðsetja vöggu evrópskrar menningar einhvers staðar þá er það á Krít og er það ein möguleg merking táknsögunnar: Evrópa verður til á Krít; Kríteyingar eru hinir fyrstu Evrópumenn. Sögulega séð er þó hin mínóíska menning mun eldri en bæði verslunarveldi og stafróf Fönikíumanna, en heimur grísku goðsögunnar virti ekki slík söguleg tímamörk frekar en heimar goðsagna gera almennt.

Höll Mínosar konungs í Knossos á Krít. Mínos var fyrsti sonur Evrópu.

Í grískri menningu hafði nafn Evrópu gildishlaðna merkingu og snerist um færslu á milli heimshluta. Evrópa kom frá Fönikíu líkt og margt annað sem auðkenndi hinn gríska menningarheim. Dögun evrópskrar menningar var á Krít og Mínos konungur var fyrsti sonur Evrópu. Og táknsagan er líka til marks um meting Evrópu við aðra heimshluta, fyrst og fremst Asíu. Þannig verður sjálfsmynd til; með samanburði við eitthvað annað og í tilviki Evrópu var það álfan handan við Eyjahafið.

Tilvísanir:

1 Herodoti Historiae. Books I-IV, ritstj. Karl Hude, Oxford: Clarendon Press, 1963 [1926], I. 2-4.

2 Sjá t.d. Hauksbók udgiven efter de arnamagnæanske håndskrifter no. 371, 544 og 675, 4o samt forskellige papirshåndskrifter, ritstj. Eiríkur Jónsson og Finnur Jónsson, Kaupmannahöfn: Thieles Bogtrykkeri, 1892-1896, bls. 196-197. Í formála Hauksbókar að Trójumanna sögu eru goðsagnir Grikkja endursagðar sem sögur af fornkonungum. Evrópa er hér ekki frá Fönikíu heldur dóttir Agenors konungs á „Girklandi“ og er bróðir hennar Kaðmus er „fann stafróf Girkja“. Sonur þeirra Júpíters (þ.e. Seifs) og Evrópu var „Apollo sólar guð“. Á hinn bóginn hefur vísun sögunnar í skiptingu heimsins haldist þar sem Júpíter gefur Agenor „þriðjung heims“ í sárabætur.

3 Yfirtaka stafrófsins átti sér stað um 800 f.Kr., en til er eldra grískt letur, Linear [línuletur] B, sem er allsendis óskylt því stafrófi sem er grundvöllur hins evrópska stafrófs síðari alda. Sjá M.I. Finley, The Ancient Greeks, Harmondsworth, Middlesex: Penguin Books, 1966 [1963], bls. 18.

4 Sjá M.I. Finley, The Ancient Greeks, bls. 36-40. Denys Hay telur að hugmynd um heimsálfurnar þrjár hafi breiðst út í samhengi við stofnun grískra nýlendna við Miðjarðarhafið; sjá Denys Hay, Europe. The Emergence of an Idea, bls. 2.

Mynd:


Þetta svar er fengið úr greininni „Hugmyndin um Evrópu fyrir 1800“, Ritið 3/2011, bls. 9-23 og birt með góðfúslegu leyfi höfundar.

Höfundur

Sverrir Jakobsson

prófessor í miðaldasögu við HÍ

Útgáfudagur

30.10.2013

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Sverrir Jakobsson. „Hvernig er hægt að túlka goðsöguna um Evrópu?“ Vísindavefurinn, 30. október 2013, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=66132.

Sverrir Jakobsson. (2013, 30. október). Hvernig er hægt að túlka goðsöguna um Evrópu? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=66132

Sverrir Jakobsson. „Hvernig er hægt að túlka goðsöguna um Evrópu?“ Vísindavefurinn. 30. okt. 2013. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=66132>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvernig er hægt að túlka goðsöguna um Evrópu?
Þegar á 5. öld hafði sagnaritarinn Heródótos skýrt söguna um brottnám Evrópu frá Fönikíu sem táknsögu. Kríteyingar hefðu rænt Evrópu sem lið í verslunardeilu. Taldi Heródótos að Trójumenn hefðu rænt Helenu, eiginkonu Menelásar konungs í Spörtu, í hefndarskyni og tengdi þannig söguna um brottnám Evrópu við goðsögnina um Trójustríðið. Að sögn hans var þetta upphaf andstöðu Asíumanna við Evrópumenn.1 Þessi skýring var svo síðar tekin upp af kristnum fræðimönnum sem vildu túlka grísku goðsögurnar sem helgisögur af mönnum.2

Merking táknsögunnar er margræð. Táknar hún færslu menntunar frá Fönikíu til Grikklands, í ljósi þess að Grikkir tóku upp stafrófið að fordæmi Fönikíumanna? 3 Eða vísar hún til útþenslu grískra borgríkja á 6. og 7. öld þegar grískir landnemar stofnuðu borgir víða um Miðjarðarhafið, einnig að fyrirmynd Fönikíumanna sem voru fyrri til með slíkar borgarstofnanir? 4 Að minnsta kosti er ljóst að grísk menning sótti margt til menningar Fönikíumanna. Ekki er það heldur tilviljun að Evrópa er flutt til Krítar því að Krít er elsta ríkið sem staðsett er í Evrópu og sögur fara af. Þar ríkti blómleg hámenning frá því um 3000 f.Kr. allt til 1200 f.Kr.; hin mínóska eyjamenning sem leið undir lok nokkru áður en grísk menning hófst til vegs og virðingar. Ef hægt er að staðsetja vöggu evrópskrar menningar einhvers staðar þá er það á Krít og er það ein möguleg merking táknsögunnar: Evrópa verður til á Krít; Kríteyingar eru hinir fyrstu Evrópumenn. Sögulega séð er þó hin mínóíska menning mun eldri en bæði verslunarveldi og stafróf Fönikíumanna, en heimur grísku goðsögunnar virti ekki slík söguleg tímamörk frekar en heimar goðsagna gera almennt.

Höll Mínosar konungs í Knossos á Krít. Mínos var fyrsti sonur Evrópu.

Í grískri menningu hafði nafn Evrópu gildishlaðna merkingu og snerist um færslu á milli heimshluta. Evrópa kom frá Fönikíu líkt og margt annað sem auðkenndi hinn gríska menningarheim. Dögun evrópskrar menningar var á Krít og Mínos konungur var fyrsti sonur Evrópu. Og táknsagan er líka til marks um meting Evrópu við aðra heimshluta, fyrst og fremst Asíu. Þannig verður sjálfsmynd til; með samanburði við eitthvað annað og í tilviki Evrópu var það álfan handan við Eyjahafið.

Tilvísanir:

1 Herodoti Historiae. Books I-IV, ritstj. Karl Hude, Oxford: Clarendon Press, 1963 [1926], I. 2-4.

2 Sjá t.d. Hauksbók udgiven efter de arnamagnæanske håndskrifter no. 371, 544 og 675, 4o samt forskellige papirshåndskrifter, ritstj. Eiríkur Jónsson og Finnur Jónsson, Kaupmannahöfn: Thieles Bogtrykkeri, 1892-1896, bls. 196-197. Í formála Hauksbókar að Trójumanna sögu eru goðsagnir Grikkja endursagðar sem sögur af fornkonungum. Evrópa er hér ekki frá Fönikíu heldur dóttir Agenors konungs á „Girklandi“ og er bróðir hennar Kaðmus er „fann stafróf Girkja“. Sonur þeirra Júpíters (þ.e. Seifs) og Evrópu var „Apollo sólar guð“. Á hinn bóginn hefur vísun sögunnar í skiptingu heimsins haldist þar sem Júpíter gefur Agenor „þriðjung heims“ í sárabætur.

3 Yfirtaka stafrófsins átti sér stað um 800 f.Kr., en til er eldra grískt letur, Linear [línuletur] B, sem er allsendis óskylt því stafrófi sem er grundvöllur hins evrópska stafrófs síðari alda. Sjá M.I. Finley, The Ancient Greeks, Harmondsworth, Middlesex: Penguin Books, 1966 [1963], bls. 18.

4 Sjá M.I. Finley, The Ancient Greeks, bls. 36-40. Denys Hay telur að hugmynd um heimsálfurnar þrjár hafi breiðst út í samhengi við stofnun grískra nýlendna við Miðjarðarhafið; sjá Denys Hay, Europe. The Emergence of an Idea, bls. 2.

Mynd:


Þetta svar er fengið úr greininni „Hugmyndin um Evrópu fyrir 1800“, Ritið 3/2011, bls. 9-23 og birt með góðfúslegu leyfi höfundar.

...