- Ættarnöfn kvenna, innlend sem erlend, eru að jafnaði ekki beygð: að sögn Sigríðar Snævarr, þáttur Guðrúnar Kvaran, stefna (Margrétar) Thatcher, hæfileikar (Hillary) Clinton. Ekki: hæfileikar „Hillarys Clintons“ og svo framvegis enda óeðlilegt að nota s-endingu með nöfnum kvenna því að s er ekki eignarfallsending í kvenkyni í neinum íslenskum beygingarflokki.
- Erlend nöfn og innlend ættarnöfn borin af körlum.
- Þau fá oftast s-endingu í eignarfalli: stjórn Tonys Blairs, ræða Görans Perssons, dóttir Alis Bhuttos, að sögn Árna Snævars, verk Einars Kvarans og svo framvegis.
- Endi nafnið sjálft á s-i eða öðru blísturshljóði þarf ekki sérstakt eignarfalls-s (stjórnir Landsbergis, Bush og Milosevic) en reyndar grípa sumir þá til endingarinnar -ar í eignarfalli: bók Örnólfs Thorlaciusar, stjórn Mitsotakisar.
- Þegar erlend nöfn karla enda á sérhljóðinu -a eru nöfnin hins vegar óbeygð og er það í samræmi við (agnarsmáan) íslenskan beygingarflokk karlkynsnafnorða sem enda á -a (Esra, herra, séra), til dæmis stjórn Gamsakurdia, mynd Kurosawa, útgerð Geirs Zoëga.
- Endi nafn á öðru sérhljóði en -a ætti að styðjast við aðalregluna og nota eignarfalls-s, til dæmis fylgismenn Benitos Mussolinis og svo framvegis (enda er það í samræmi við ýmis íslensk mannanöfn sem enda á öðrum sérhljóðum en -a, samanber til Leós, Ottós og fleiri).
- Rökrétt telst og í bestu samræmi við íslenska málhefð að beygja í eignarfalli bæði skírnarnafn og ættarnafn sem karl ber, samanber verk Einars Kvarans, fylgismenn Benitos Mussolinis, Stofnun Sigurðar Nordals. Þetta atriði hefur verið dálítið á reiki í málsamfélaginu og til eru þær málvenjur að beygja annaðhvort aðeins skírnarnafn eða aðeins ættarnafn (til að mynda ákvörðun Halldórs Blöndal, stjórn Bills Clinton, stjórn Bill Clintons). Hér er ekki mælt með þeirri aðferð sem meginreglu. Vissulega verður þó smekkur stundum að fá að ráða einhverju um hve langt skuli gengið í beygingu erlendra nafna, einkum um það hvort öll nöfn skuli beygð í sumum fleirnefnum á borð við Poul Nyrup Rasmussen.
- Hillary Rodham Clinton - Wikipedia, the free encyclopedia. (Sótt 3.7.2013).
Svar þetta eftir Ara Pál Kristinsson er að nokkru byggt á textum frá Ingólfi Pálmasyni (1987) og Árna Böðvarssyni (1992). Þessi texti Ara Páls hefur áður birst í Handbók um málfar í talmiðlum frá 1998, bls. 133-134, og í Málfarsbanka Árnastofnunar. Einnig er textinn nánast orðréttur tekinn upp í Handbók um íslensku frá 2011, bls. 313-314.