Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Ýmislegt getur orsakað mænuskaða, svo sem áverkar á andliti, hálsi, höfði, brjóstkassa eða baki. Slíkt getur hent eftir bílslys, lendingu á höfði, árekstur í íþróttum, fall úr mikilli hæð, eftir dýfingaslys, rafstuð eða mikinn snúning um miðju líkamans. Auk þess mætti nefna áverka eftir byssukúlu eða hnífsstungu.
Ef komið er að slysi eru nokkur einkenni sem geta bent til þess að sá slasaði hafi orðið fyrir mænuskaða: Ef höfuð er í skringilegri stöðu, meðvitund viðkomandi er skert, ef merki er um þróttleysi, erfiðleikar eru við gang, eða merki um lömun, doða eða nálardofa, sjokk (föl, þvöl húð, bláleitar varir og neglur, rugl), stífan háls, höfuðverk, eymsli í hálsi eða þvag- eða hægðamissi.
Leikarinn Christopher Reeve (1952-2004) öðlaðist heimsfrægð sem ofurhetjan Superman í kvikmyndum á áttunda og níunda áratug síðustu aldar. Hann skaddaðist á mænu og lamaðist frá hálsi þegar hann féll af hestbaki árið 1995. Eftir það var hann ötull talsmaður rannsókna á hrygg- og mænuskaða og vakti mikla athygli á þeim málefnum.
Það er mjög mikilvægt að bregðast rétt við ef hætta er á að slys á borð við bílslys hafi valdið einhverjum mænuskaða. Þá á að hringja strax í neyðarlínuna og sjá til þess að hinn slasaði liggi alveg kyrr og hreyfi alls ekki höfuð eða háls. Skorða ber háls og höfuð, með til dæmis handklæðum, ef mögulegt er. Enn fremur er mikilvægt að huga að öndun, hjartslætti og blæðingum. Ef einhverjar blæðingar eru fyrir hendi ber að stöðva þær, en beita hjartahnoði og blástursaðferð sé þörf á því.
Á síðustu árum hafa orðið framfarir í bráðalækningum á fólki með mænuskaða og geta þær, ásamt endurhæfingu, lágmarkað skaðann á taugakerfinu þannig að jafnvel megi endurheimta fyrri getu. Metýlprednísólon og önnur steralyf virðast draga úr skaða á taugafrumum ef þau eru gefin innan við átta klukkustundum frá því áverki hlaust. Þau draga úr bólgum sem fylgja í kjölfar áverka. Þegar bólga hefur hjaðnað er sjúklingur sendur í sneiðmyndatöku eða segulómun á hrygg. Stundum þarf að grípa til skurðaðgerðar til að fjarlægja beinbrot og aðra vefi eða aðskotahluti sem þrýsta á mænuna. Í nýlegri rannsókn á tímasetningu slíkrar aðgerðar kemur fram að ef hún er framkvæmd innan sólarhrings frá því að slysið átti sér stað verður útkoman betri.
Endurhæfingaráætlanir fela í sér sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun og ráðgjöf til að veita félagslegan og tilfinningalegan stuðning. Raförvun tauga með sérstökum tækjum getur endurheimt ýmsa starfsemi sem snýr til dæmis að þvagblöðru, öndun, hósta og hreyfingu útlima. Árangur þessarar tækni fer þó eftir stigi skaðans og tegund. Algengt er að þeir sem hljóta mænuskaða sitji uppi með ýmsa fylgikvilla, eins og þráláta verki og vanvirkni blöðru og þarma, auk þess sem meiri líkur eru á nýrna-, öndunar- og hjartavandamálum. Ef sjúklingur endurheimtir skynjun eða hreyfigetu í fyrstu viku eftir slys eru góðar líkur á enn meiri framförum eftir því sem líður á endurhæfinguna, þó að það geti tekið hálft ár eða meira.
Miklar rannsóknir fara nú fram um allan heim með það að markmiði að endurnýja mænuvefi sem hafa skaddast, meðal annars með notkun stofnfruma. Einnig er sífellt verið að þróa og prófa nýja tækni við endurhæfingu sjúklinga til að auka hreyfigetu þeirra. Vísindamenn eru nokkuð bjartsýnir á framtíðina og vonandi líður ekki á löngu þangað til mænuskaðar verða læknanlegir.
Heimildir og mynd:
Þuríður Þorbjarnardóttir. „Hvað getur orsakað mænuskaða og er hægt að lækna hann?“ Vísindavefurinn, 12. júlí 2013, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=65446.
Þuríður Þorbjarnardóttir. (2013, 12. júlí). Hvað getur orsakað mænuskaða og er hægt að lækna hann? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=65446
Þuríður Þorbjarnardóttir. „Hvað getur orsakað mænuskaða og er hægt að lækna hann?“ Vísindavefurinn. 12. júl. 2013. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=65446>.