Ýmsir ókostir fylgja því að vera landlukt ríki og þá sérstaklega þegar kemur að inn- og útflutningi og aðgangi að mörkuðum. Stór hluti vöruflutninga á milli landa fer fram á sjó og það segir sig því sjálft að ríki sem ekki hafa beinan aðgang að höfnum eru verr sett en önnur þar sem þau eru háð nágrönnum sínum hvað sjóflutninga varðar. Slíkt getur haft í för með sér hærri flutningskostnað og gjöld sem strandríkin geta krafist. Það getur verið óhagræði af því að þurfa að fara yfir landamæri og í gegnum annað ríki til þess að komast að flutningshöfn, sérstaklega ef stjórnmálaástand er viðkvæmt. Landlukt ríki eru háð samgöngukerfum í landinu eða löndunum sem fara þarf í gegnum til þess að komast að sjó. Þau geta því ekki haft fulla stjórn á hversu hratt og vel flutningar til eða frá höfn ganga. Það er almennt talið að takmarkaður aðgangur að sjó geti haft neikvæðar afleiðingar fyrir efnahag og þróun ríkja. Staðreyndin er að um helmingur af 30 fátækustu ríkjum heims eru landlukt. Þessi ríki eru öll í Afríku og Asíu. Það gerir málið jafnvel enn verra að ríkin sem fara þarf í gegnum til að komast að strönd eru oft í slæmri stöðu sjálf, bæði efnahagslega og stjórnmálalega. Það þarf því ekki aðeins að yfirvinna þá erfiðleika sem lélegt samgöngukerfi og viðkvæmt stjórnmálaástand í eigin landi geta skapað heldur hefur ástandið í grannríkinu einnig áhrif. Landlukt ríki í Evrópu eru í allt annarri stöðu. Á það hefur verið bent að helstu markaðir þeirra eru önnur Evrópulönd og eins að landsamgöngur eru betri og öruggari í Evrópu en víðast annars staðar. Því er takmarkaður aðgangur að sjó ekki eins mikið óhagræði fyrir lönd í Evrópu og fyrir mörg önnur lönd. Einnig er stjórnmálaástand stöðugra og því ekki jafn mikil hætta á að óeirðir eða deilur geti haft áhrif á flutninga í gegnum strandríkið. Hér hefur aðeins verið tæpt lítillega á þeim vandkvæðum sem landlukt ríki standa frammi fyrir en málið er mjög flókið og skiptir þessi ríki miklu. Þeir sem vilja kynna sér efnið nánar geta smellt á heimildirnar hér að neðan eða notað leitarvélar á netinu og til dæmis leitarorðin “landlocked countries”. Heimildir og mynd:
- United Nations Conference on Trade and Development: Landlocked Developing Countries, Facts and Figures 2006
- UN Office of the High Representative for the Least Developed Countries, Landlocked Developing Countries and Small Island Developing States:
- Landis MacKellar, Andreas Wörgötter og Julia Wörz. 2000. Economic Development Problems of Landlocked Countries. Reihe Transformationsökonomie, no 14. Institut für Höhere Studien (IHS), Wien
- Jerome Fellmann, Arthur Getis og Judith Getis. 1990. Human Geography. Wm. C. Brown Publishers.
- Landlocked á Wikipedia, the free encyclopedia