Um 90% íbúa Aserbaídsjan eru Aserar og hefur hlutfall þeirra hækkað nokkuð síðasta einn og hálfan áratug. Ástæðu þess má meðal annars rekja til deilna við Armeníu um héraðið Nagorno-Karabakh í suðurhluta Aserbaídsjan. Nagorno-Karabakh er svokallað innskotssvæði eða hólmlenda (e. enclave). Það heiti er notað yfir land eða landsvæði umlukt svæðum sem tilheyra öðru ríki eða eru frábrugðin að tungu eða menningu en nánast allir íbúar Nagorno-Karabakh eru af armenskum uppruna og svæðið er þess vegna hólmlenda. Í lok 9. áratugar síðustu aldar braust út stríð á milli Armeníu og Aserbaídsjan í kjölfar þess að armenskir íbúar Nagorno-Karabakh kröfðust aðskilnaðar frá Aserbaídsjan og sameiningar við Armeníu. Stjórnvöld í Armeníu studdu málstað þeirra þrátt fyrir andstöðu Sovétstjórnarinnar sem sendi hersveitir á staðinn til þess að skakka leikinn. Frá því að Armenía og Aserbaídsjan lýstu yfir sjálfstæði sínu árið 1991 hefur verið tekist á um yfirráð yfir Nagorno-Karabakh og er sú deila enn óleyst. Vegna átakanna um Nagorno-Karabakh flúði mikill meirihluti þeirra Asera sem bjuggu í Armeníu til Aserbaídsjan og Íran á árunum 1990-1994 en á sama tíma flúðu margir Armenar sem búsettir voru í Aserbaídsjan yfir til Armeníu. Fyrir þann tíma voru Armenar um 6% íbúa í Aserbaídsjan en hlutfall þeirra er nú komið niður í 2% og búa þeir nánast eingöngu í Nagorno-Karabakh héraði. Rúmlega 3% íbúa Aserbaídsjan eru frá rússneska sjálfsstjórnarlýðveldinu Dagestan, um 2,5% eru Rússar auk annarra fámennari þjóðarbrota.
Aseríska, sem er náskyld tyrknesku, er opinbert tungumál í Aserbaídsjan og móðurmál um 89% íbúanna. Önnur helstu tungumál eru rússneska og armenska. Yfir 90% Asera eru múslimar en lítill hluti landsmanna tilheyrir rússnesku eða armensku rétttrúnaðarkirkjunni. Rétt um helmingur Asera býr í þéttbýli. Þéttust er byggðin á Abseronskaga í austurhluta landsins við Kaspíahaf, en þar er meðal annars höfuðborgin Bakú með tæplega 2 milljónir íbúa. Bakú er helsta iðnaðarborg í suðurhluta Kákasus og helgast það fyrst og fremst af olíu- og gasvinnslu. Einnig er Bakú mikil hafnarborg. Önnur stærsta borg Aserbaídjsan er Gäncä í vesturhluta landsins með rúmlega 300.000 íbúa. Olíuiðnaður er undirstaða efnahagslífsins í Aserbaídsjan og stendur á gömlum merg. Í upphafi 20. aldarinnar var meira en helmingur allrar olíu í heiminum flutt út frá Bakú. Í dag eru Bakú og nágrenni aðaliðnaðarsvæði landsins eins og áður sagði, en auk olíu- og gasvinnslu má nefna annan þungaiðnað eins og stálframleiðslu, framleiðslu á tækjum og tólum til olíuvinnslu og efnaframleiðslu. Á síðari árum hefur verið lögð aukin áhersla á annars konar iðnframleiðslu svo sem vefnaðarvöru (textíl), búsáhöld, skó og annan neysluvarning. Landbúnaður er einnig mikilvæg atvinnugrein. Bómullar- og kornrækt eru þar fremst í flokki en auk þess er mikið ræktað af vínberjum og öðrum ávöxtum og grænmeti.
og eitt helsta iðnaðarsvæði landsins." border=0>
Eins og í svo mörgum öðrum fyrrverandi Sovétlýðveldum hafði upplausn Sovétríkjanna og breytt viðskiptaumhverfi sem því fylgdi, neikvæð áhrif á efnahag í Aserbaídsjan. Það sama má segja um deilurnar um Nagorno-Karabakh. Landið hefur þó verið að rétta úr kútnum síðustu ár, meðal annars með aðstoð Alþjóða gjaldeyrissjóðsins. Það er rétt að geta þess hér í lokinn að Aserbaídsjan á sér afar langa og flókna sögu þar sem minjar um búsetu á svæðinu ná allt aftur til steinaldar. Engin leið er að gera grein fyrir þeirri sögu í þessu svari enda er því frekar ætlað að gefa mynd af Aserbaídsjan í upphafi 21. aldar. Áhugasömum er bent á að í mörgum þeirra heimilda sem getið er hér að neðan má finna yfirlit yfir sögu svæðisins. Heimildir og myndir:
- The World Factbook
- The State Statistical Committee of the Azerbaijan Republic
- Britannica Online
- U.S. Department of State - Bureau of European and Eurasian Affairs
- "Azerbaijan," Microsoft® Encarta® Online Encyclopedia 2004
- United Nations Population Division
- Institute for War & Peace Reporting
- The World Gazetteer
- WomenAid International
- Media-az.com
- Íslensk málstöð