Hefð er fyrir því að kalla norðurhluta Kákasus, það er að segja norðurhlið stærri fjallgarðsins og láglendið við rætur hans, Ciscaucasia en sunnanmegin fjallgarðsins er Transcaucasia. Í dag skiptist Kákasussvæðið á milli fjögurra sjálfstæðra ríkja. Í suðurhlutanum eða Transcaucasia eru fyrrum Sovétlýðveldin Georgía, Aserbaídsjan og Armenía sem öll hlutu sjálfstæði árið 1991, en norðurhlutinn Ciscaucasia, tilheyrir Rússlandi. Íbúar Kákasus eru líklega eitthvað á milli 21 og 22 milljónir talsins en erfitt er að finna nýlegar samhljóða tölfræðiupplýsingar um rússneska hluta Kákasus. Aserbaídsjan er fjölmennast Kákasusríkjanna með um 8,3 milljónir íbúa, þá kemur rússneski hluti Kákasus með eitthvað í kringum 5,5 milljónir, í Georgíu búa um 4,7 milljónir og tæpar 3 milljónir manna búa í Armeníu. Meirihluti Kákasusbúa eru múslimar, þar sem íslam er ríkjandi í tveimur fjölmennustu löndunum, Aserbaídsjan og Kákasushluta Rússlands. Langflestir íbúar Armeníu eru kristnir og meirihluti íbúa Georgíu aðhyllist kristna trú. Kákasussvæðið á sér afar langa og flókna sögu. Svæðið kemur meðal annars við sögu í grísku goðafræðinni því þar var Prómeþeifur látinn dúsa bundinn við klett í refsingarskyni fyrir að færa mannkyninu eldinn. Ýmsar þjóðir og hópar hafa sett mark sitt á svæðið og í dag er þar að finna um 50 þjóðarbrot (e. ethnic groups). Líklega eru hvergi í heiminum töluð jafn mörg tungumál á svæði af þessari stærð.
Þar sem svo mörg ólík þjóðarbrot koma saman með mismunandi viðhorf, menningu, siði og trúarbrögð getur komið til stimpinga á milli hópa. Kákasus hefur líka í gegnum tíðina verið vettvangur átaka. Reglulega berast fréttir um ófrið á þessu svæði og er skemmst að minnast gíslatökunnar í barnaskóla í Beslan í Norður-Ossetíu, en Norður-Ossetía tilheyrir rússneska hluta Kákasus. Gíslatakan í Beslan tengist ófriðnum á milli Rússa og Tsjetsjeníu sem, eins og Norður-Ossetía, tilheyrir rússneska hluta Kákasus. Nánar má lesa um þau átök í svari Guðmundar Ólafssonar við spurningunni Hvernig og hvers vegna hófst stríðið milli Tsjetsjena og Rússa? Átök hafa verið á fleiri svæðum, til dæmis á milli Asera og Armena um héraðið Nagorno-Karabakh í suður hluta Aserbaídsjan, á milli Georgíu og sjálfsstjórnarsvæðanna Suður-Ossetíu og Ajaríu innan Georgíu og á milli Norður-Ossetíu og Ingúsetíu sem tilheyra rússneska hluta Kákasus. Nánar er fjallað um Kákasussvæðið í eftirfarandi svörum sama höfundar:
- Hvað getur þú sagt mér um Armeníu?
- Hvað getur þú sagt mér um Aserbaídsjan?
- Hvað getur þú sagt mér um Georgíu?
- Hvaða hluti Rússlands tilheyrir Kákasus?
- Geturðu sagt mér eitthvað um Norður-Ossetíu og þau Kákasuslönd sem liggja þar fyrir austan?
- Hvernig og hvers vegna hófst stríðið milli Tsjetsjena og Rússa?
- Af hverju eru Tsjetsjenar svona harðir bardagamenn?