Hér er einnig svarað spurningu Jóhanns Benjamínssonar, Er ekki hægt að finna upp leið til að framleiða óson?Til eru leiðir til að framleiða óson. Einfaldasta aðferðin felst í því að leiða rafstraum í gegnum venjulegt loft sem inniheldur súrefni og köfnunarefni. Það veldur því að súrefnissameindir (O2) rofna í súrefnisfrumeindir (O). Í kjölfar þess geta súrefnisfrumeindirnar því næst hvarfast við aðrar súrefnissameindir og myndað ósonsameindir sem samanstanda af þremur súrefnisfrumeindum (O3). Til eru sérstök tæki til slíkrar framleiðslu. Menn hafa vissulega íhugað möguleikann á að ráðast í slíka framleiðslu til að sporna gegn ósoneyðingu í háloftunum.
Hvort heldur sem ráðist væri í að framleiða óson í háloftunum (í um 20 km hæð yfir yfirborði jarðar þar sem styrkur ósonsins í ósonlaginu er mestur; sjá mynd) eða að framleiða það á jörðu niðri og flytja það upp í háloftin, þá er ljóst að slíkar aðgerðir væru mjög erfiðar og kostnaðarfrekar. Því hafa menn frekar kosið að ráðast að rótum vandans sem býr að að baki hættunni á ósoneyðingunni með því að útiloka eða minnka myndun skaðlegra efna sem henni geta valdið. Sjá nánar svör við spurningunum Hvernig myndast ósonlagið og er talið að það muni einhvern tímann eyðast? og Sólin er heit en af hverju gerir hún ekki gat á ósónlagið?