Ég er leikskólakennari og fékk þessa spurningu, af hverju er mjólkin hvít?Ástæða þess að mjólk er hvít er að hún endurkastar öllu ljósi. Litir sem hlutir taka á sig fara eftir því hversu mikið ljós þeir draga í sig. Ef hlutur dregur allt ljós í sig og endurkastar engu þá er litur hans svartur. Stærsti einstaki efnisþáttur mjólkur er vatn sem er litlaus vökvi, en það eru aðrir þættir í mjólk sem eru þess valdandi að mjólkin tekur á sig hvítan lit. Hér er um að ræða prótín, fitu og kolvetni mjólkurinnar auk vítamína og steinefna. Í raun eru efnin öll litlaus en þegar þau eru uppleyst í mjólkinni í sviflausn (e. colloid) verður til þessi hvíti litur sem við þekkjum á mjólkinni. Af þessum efnum eru áhrif stærri efnisagnanna, það er fitu og prótína, ráðandi hvað varðar litinn sem mjólkin tekur á sig. Mjólkin er hvít þegar þessi efni eru í þeim hlutföllum sem er að finna í nýmjólk og léttmjólk, en undanrenna sem inniheldur litla fitu dregur aðeins í sig ljós og endurvarpar örlítið bláleitum lit, en rjómi sem inniheldur mikla fitu tekur á sig gulleitan blæ. Mynd:
- Milk splash | My entry to fotosöndag's weekly word challenge… | Flickr. (Sótt 7.11.2016). Myndin er birt undir leyfinu Creative Commons — Attribution 2.0 Generic — CC BY 2.0 .