Hvað geturðu sagt mér um fléttur? Hver er stofn þeirra, er einhver samkeppni og hvert er kjörbýli þeirra?
Fléttur eru sambýli sveppa og ljóstillífandi lífveru, ýmist blábaktería (e. cyanobacteria) eða grænþörungs. Sveppurinn er oftast ráðandi aðilinn í sambandinu og er nafn fléttunnar dregið af heiti sveppsins, enda má oft finna sömu ljóstillífandi tegundina í mismunandi fléttum. Samjálp þessara lífvera felst í því að sveppurinn leggur þörunginum eða gerlinum til hagstæð búsetuskilyrði, meðal annars raka og vörn gegn geislum sólarinnar, en nýtir sér í staðinn frumframleiðslu þeirra. Þetta sambýlisform gerir þessum lífverum kleyft að lifa við mjög bágar aðstæður og oft vaxa þær og dafna á stöðum þar sem aðrar lífverur eiga erfitt uppdráttar. Fléttur eru auk þess venjulega meðal fyrstu lífvera til að nema ný landsvæði, svo sem á nýju hrauni, og eru því áberandi í frumframvindu svæða. Hér á landi hefur meira en 700 tegundum flétta verið lýst og finnast með reglulegu millibili nýjar tegundir. Til dæmis fundust þrjár nýjar blaðfléttur hér á landi á árið 2006. Í heild hefur rúmlega 15 þúsund tegundum flétta verið lýst í heiminum, en geri má ráð fyrir að þær séu langt um fleiri. Fléttur eru í samkeppni við aðrar plöntur um bæði raka og sólarljós. Þær eiga oft erfitt uppdráttar í slíkri samkeppni, sökum þess hversu lágvaxnar þær eru. Þær eru því sérstaklega áberandi á stöðum þar sem pöntur þrífast ekki eins vel, svo sem hátt til fjalla og á klettum og steinum. Fléttum hefur verið skipt upp í í þrjá hópa eftir vaxtarformi. Þetta eru runnfléttur, sem eru greinóttar og vaxa lítillega upp frá undirlaginu. Dæmi um runnafléttu er hreindýramosi. Blaðfléttur eru hins vegar eins og nafnið gefur til kynna blaðkenndar. Dæmi um blaðfléttur eru fjallagrös. Hrúðurfléttur mynda hrúður á klettum og trjáberki og eru þær einnig kallaðar skófir. Nánar má lesa um þetta í svari Harðar Kristinssonar við spurningunni: Hver er munurinn á fléttum og skófum? Eru skófir fléttur? Langflestar tegundir flétta hér á landi tilheyra þessum hópi eða um 400 tegundir sem er rétt tæplega 60% af öllum fléttutegundum sem fundist hafa hérlendis. Fjölmargar dýrategundir hagnýta sér fléttur á ýmsan hátt. Hreindýramosi dregur til dæmis nafn sitt af því að vera í töluverðu uppáhaldi hjá hreindýrum. Þar sem fléttur eru ríkar af kolvetnum en innihalda hins vegar lítið af prótínum, henta þær ekki sem fæða handa öllum dýrum. Þróun
Fléttur eru ekki náttúrulegur hópur í sama skilningi og til dæmis spendýr eða skordýr, það er hópar sem eiga sér einn sameiginlegan forföður. Líklegra þykir að nokkrir hópar sveppa hafi tekið upp sambýli við þörunga og blábakteríur nokkrum sinnum í lífssögunni. Sveppurinn fjölgar sér oft með kynæxlun og myndar þá gró í svokölluðum öskum, en langflestir fléttumyndandi sveppir tilheyra ætt asksveppa (Euascomycetidae). Spírandi sveppgróið verður að finna hentugan sambýling (grænþörung eða blábakteríu) til að ná að þroskast sem flétta. Ýmsar fléttutegundir fjölga sér hins vegar á kynlausan hátt. Þær mynda þá sérstök líffæri, svokallað snepa eða hraufukorn, sem í eru bæði sveppþræðir og þörungafrumur. Þau losna svo frá fléttunni og dreifast til dæmis með vindi eða dýrum. Fléttusýrur
Sumar fléttur mynda efnasambönd sem hafa ekki fundist annars staðar í lífríkinu og kallast fléttusýrur. Sumar fléttusýrur hafa menn hagnýtt sér frá alda öðli, til dæmis til litunar. Aðrar hafa bakteríudrepandi eiginleika og hafa því verið notaðar til lækninga. Fléttur nota hins vegar þessi efnasambönd til dæmis í samkeppninni við aðrar lífveru. Það er meðal annars þekkt að hreindýramosi seytir efnasamböndum í jarðveginn sem hafa vaxtahindrandi áhrif á þær plöntur sem vaxa í nágrenni við hann. Þetta getur verið öflugt vopn í samkeppni við plöntur um pláss og sólarljós. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hvað er samlífi, gistilífi, samhjálp og sníkjulíf dýra? eftir Jón Má Halldórsson
- Á hverju og hvernig lifa sveppir? eftir Jón Má Halldórsson
- Hvað eru kólfsveppir og hvernig er lífsferill þeirra? eftir Guðríði Gyðu Eyjólfsdóttur
- Ahmadjian, V. 1993. The Lichen Symbiosis. New York: John Wiley & Sons.
- Náttúrufræðistofnun Íslands