Óson er sameind gerð úr þremur súrefnisfrumeindum (O3) og myndast í andrúmsloftinu við samruna súrefnisfrumeinda (O) og súrefnissameinda (O2). Við yfirborð jarðar er gnægð súrefnissameinda (O2) en mjög lítið af súrefnisfrumeindum (O). Því myndast lítið af ósoni með þessum hætti niðri við jörðu. Hátt uppi í andrúmsloftinu, þar sem orkuríkrar sólargeislunar gætir í ríkum mæli, rofna súrefnissameindir (O2) fyrir tilstuðlan geislunarinnar og súrefnisfrumeindir (O) myndast. Þar er loftið hins vegar mjög þunnt og heildarmagn sameinda og frumeinda mjög lítið sem veldur því að þar myndast einnig lítið óson. Í miðlungshæð yfir jörðu, nánar tiltekið í heiðhvolfinu, í um 20 km hæð frá jörðu, er hins vegar umtalsvert magn bæði af súrefnissameindum og súrefnisfrumeindum. Þess vegna myndast verulegt magn af ósoni þar.Ósonlagið gegnir mjög mikilvægu hlutverki fyrir lífríki jarðarinnar. Ósonsameindirnar gleypa nefnilega í sig skaðlega útfjólubláa geislun frá sólu. Mynd:
- Atmosphere - Wikipedia, the free encyclopedia. (Sótt 11.3.2013).