Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvernig er hægt að finna lengdar- og breiddargráðu staða?

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir

Það hefur lengi tíðkast að gefa upp staðsetningu á yfirborði jarðar með því að nota bauganet sem eins konar ímyndað hnitakerfi lagt yfir jarðarkúluna. Í þessu kerfi myndar miðbaugur hring sem skiptir jörðinni í tvo jafn stóra hluta, norðurhvel og suðurhvel. Samhliða miðbaug eru 90 breiddarbaugar til norðurs og 90 til suðurs og er bilið á milli bauganna jafnt í gráðum. Lengdarbaugar, hálfhringir sem dregnir eru á milli norður- og suðurpóls hornrétt á miðbaug, eru notaðir til að ákvarða staðsetningu til austurs eða vesturs. Þeir eru alls 360 talsins, 180 í vestur og 180 í austur frá núllbaug sem liggur um staðinn þar sem áður var stjörnuathugunarstöðin í Greenwich við London. Bilið á milli lengdarbauga er mest við miðbaug, en minnkar eftir því sem nær dregur pólunum og er ekkert við pólana sjálfa þar sem þeir koma allir saman.

Til þess að auka nákvæmni í staðarákvörðunum er hverri gráðu (bilinu á milli bauganna, táknað með °) skipt í 60 mínútur (táknað með ′) og hverri mínútu í 60 sekúndur (táknað með ″). Lengd og breidd staða er þannig gefin upp í gráðum, mínútum og sekúndum. Nánar er fjallað um bauganetið í svari sama höfundar við spurningunni Hvernig er bauganet jarðar uppbyggt og hver eru hnit Íslands á hnettinum? Fyrir þá sem skilja ensku má einnig benda á ágætt skýringarmyndband á Youtube.

Til þess að ákvarða staðsetningu er hægt að beita gamalgróinni aðferð og skoða landakort. Á flestum landakortum eru lengdar- og breiddarbaugar merktir inn. Þá er fyrsta skrefið að finna staðinn sem á að skoða. Næsta skref er að finna út hvaða lengdar- og breiddarbaugar eru næstir staðnum og áætla svo staðsetninguna út frá þeim. Þetta gefur ekki hárnákvæma hnattstöðu upp á sekúndur en nálgunin getur verið nokkuð góð og því betri sem kortið er í stærri mælikvarða og þéttara bauganet merkt inn.

Sem dæmi má taka hnattstöðu Sauðárkróks sem Vísindavefurinn var spurður um. Nú er höfundur þessa svars með Íslandskort fyrir framan sig í mælikvarðanum 1:500 000 þar sem 20 mínútur eru á milli lína sem sýna breidd og 30 mínútur á milli lína sem sýna lengd. Á kortinu má sjá að Sauðárkrókur er staðsettur aðeins norðan við línuna sem markar 65 gráður 40 mínútur norðlægrar breiddar en nokkru sunnar en 66 gráður. Staðsetningin er því um það bil 65°45′N. Sauðárkrókur lendir aðeins vestan við 19°30′ en nokkru austar en 20° þannig að áætla má að lengdin sé um það bil 19°40′V.

Fljótvirkari og fyrir marga aðgengilegri aðferð er að nota Netið. Þá má fyrst nefna að með því að setja í leitarvélar orð eins og “find longitude latitude” koma upp margar síður sem ýmist bjóða upp á að heiti á stað, til dæmis götuheiti, bæ eða borg sé slegið inn eða músin notuð til að merkja staðinn á korti og vefurinn finnur staðsetninguna. Vísindavefurinn bendir notendum sínum meðal annars á síðurnar Latitude and Longitude Finder - Lat Long Lookup og Find Latitude and Longitude.com.

Svo má líka fara bara beint inn á Google maps (maps.google.com) og leita þar, en margar síður sem finna staðsetningu styðjast einmitt við kortagrunn Google. Þá er byrjað í því að finna staðinn sem skoða á, annað hvort með því að smella á kortið eða slá heiti hans inn í leitarvélina. Síðan er hægrismellt með músinni á staðinn og valið „hvað er hér“ eða“ What‘s here?“ í valmyndinni sem kemur upp. Þá birtist græn ör á kortinu og þegar smellt er á hana má sjá hnitin fyrir viðkomandi stað.

Mynd:

Upplýsingarnar í þessu svari má nota til að svara öðrum spurningum um lengd og breidd sem Vísindavefnum hefur borist:
  • Á hvaða breiddargráðu er Sauðárkrókur?
  • Hvar eru helstu borgir Portúgals staðsett í bauganetinu?
  • Hver er landfræðileg lengd og breidd austasta, vestasta, nyrsta og syðsta odda Rússlands?
  • Hver er algild lega Rómar (Ítalía) og London (England)?

Höfundur

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir

landfræðingur og starfsmaður Vísindavefsins

Útgáfudagur

31.10.2013

Síðast uppfært

11.3.2021

Spyrjandi

Kristín Hrefna Ragnheiðardóttir, Halla Magnúsardóttir, Brynhildur Helgadóttir, Kjartan Ingi Þórisson, Eyþór Gunnarsson, Arnar Ingólfsson, Andrea Rut Birgisdóttir, Harpa Lind, Hulda Björg Arnarsdóttir

Tilvísun

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. „Hvernig er hægt að finna lengdar- og breiddargráðu staða?“ Vísindavefurinn, 31. október 2013, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=64288.

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. (2013, 31. október). Hvernig er hægt að finna lengdar- og breiddargráðu staða? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=64288

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. „Hvernig er hægt að finna lengdar- og breiddargráðu staða?“ Vísindavefurinn. 31. okt. 2013. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=64288>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvernig er hægt að finna lengdar- og breiddargráðu staða?
Það hefur lengi tíðkast að gefa upp staðsetningu á yfirborði jarðar með því að nota bauganet sem eins konar ímyndað hnitakerfi lagt yfir jarðarkúluna. Í þessu kerfi myndar miðbaugur hring sem skiptir jörðinni í tvo jafn stóra hluta, norðurhvel og suðurhvel. Samhliða miðbaug eru 90 breiddarbaugar til norðurs og 90 til suðurs og er bilið á milli bauganna jafnt í gráðum. Lengdarbaugar, hálfhringir sem dregnir eru á milli norður- og suðurpóls hornrétt á miðbaug, eru notaðir til að ákvarða staðsetningu til austurs eða vesturs. Þeir eru alls 360 talsins, 180 í vestur og 180 í austur frá núllbaug sem liggur um staðinn þar sem áður var stjörnuathugunarstöðin í Greenwich við London. Bilið á milli lengdarbauga er mest við miðbaug, en minnkar eftir því sem nær dregur pólunum og er ekkert við pólana sjálfa þar sem þeir koma allir saman.

Til þess að auka nákvæmni í staðarákvörðunum er hverri gráðu (bilinu á milli bauganna, táknað með °) skipt í 60 mínútur (táknað með ′) og hverri mínútu í 60 sekúndur (táknað með ″). Lengd og breidd staða er þannig gefin upp í gráðum, mínútum og sekúndum. Nánar er fjallað um bauganetið í svari sama höfundar við spurningunni Hvernig er bauganet jarðar uppbyggt og hver eru hnit Íslands á hnettinum? Fyrir þá sem skilja ensku má einnig benda á ágætt skýringarmyndband á Youtube.

Til þess að ákvarða staðsetningu er hægt að beita gamalgróinni aðferð og skoða landakort. Á flestum landakortum eru lengdar- og breiddarbaugar merktir inn. Þá er fyrsta skrefið að finna staðinn sem á að skoða. Næsta skref er að finna út hvaða lengdar- og breiddarbaugar eru næstir staðnum og áætla svo staðsetninguna út frá þeim. Þetta gefur ekki hárnákvæma hnattstöðu upp á sekúndur en nálgunin getur verið nokkuð góð og því betri sem kortið er í stærri mælikvarða og þéttara bauganet merkt inn.

Sem dæmi má taka hnattstöðu Sauðárkróks sem Vísindavefurinn var spurður um. Nú er höfundur þessa svars með Íslandskort fyrir framan sig í mælikvarðanum 1:500 000 þar sem 20 mínútur eru á milli lína sem sýna breidd og 30 mínútur á milli lína sem sýna lengd. Á kortinu má sjá að Sauðárkrókur er staðsettur aðeins norðan við línuna sem markar 65 gráður 40 mínútur norðlægrar breiddar en nokkru sunnar en 66 gráður. Staðsetningin er því um það bil 65°45′N. Sauðárkrókur lendir aðeins vestan við 19°30′ en nokkru austar en 20° þannig að áætla má að lengdin sé um það bil 19°40′V.

Fljótvirkari og fyrir marga aðgengilegri aðferð er að nota Netið. Þá má fyrst nefna að með því að setja í leitarvélar orð eins og “find longitude latitude” koma upp margar síður sem ýmist bjóða upp á að heiti á stað, til dæmis götuheiti, bæ eða borg sé slegið inn eða músin notuð til að merkja staðinn á korti og vefurinn finnur staðsetninguna. Vísindavefurinn bendir notendum sínum meðal annars á síðurnar Latitude and Longitude Finder - Lat Long Lookup og Find Latitude and Longitude.com.

Svo má líka fara bara beint inn á Google maps (maps.google.com) og leita þar, en margar síður sem finna staðsetningu styðjast einmitt við kortagrunn Google. Þá er byrjað í því að finna staðinn sem skoða á, annað hvort með því að smella á kortið eða slá heiti hans inn í leitarvélina. Síðan er hægrismellt með músinni á staðinn og valið „hvað er hér“ eða“ What‘s here?“ í valmyndinni sem kemur upp. Þá birtist græn ör á kortinu og þegar smellt er á hana má sjá hnitin fyrir viðkomandi stað.

Mynd:

Upplýsingarnar í þessu svari má nota til að svara öðrum spurningum um lengd og breidd sem Vísindavefnum hefur borist:
  • Á hvaða breiddargráðu er Sauðárkrókur?
  • Hvar eru helstu borgir Portúgals staðsett í bauganetinu?
  • Hver er landfræðileg lengd og breidd austasta, vestasta, nyrsta og syðsta odda Rússlands?
  • Hver er algild lega Rómar (Ítalía) og London (England)?
...