Þær greinar straumsins sem ná lengst norður, inn í Norðurhöf, eru hluti svokallaðrar hita-seltuhringrásar. Hita-seltuhringrásin felst í því að þegar tiltölulega saltur sjór miðlar varma til andrúmsloftsins og kólnar, eykur kælingin svo eðlismassann að sjórinn sekkur að lokum og myndar djúpsjó, til dæmis í Grænlandshafi (milli Jan Mayen og Svalbarða). Djúpsjórinn flæðir svo yfir neðansjávarhryggina milli Grænlands og Skotlands og síðan suður eftir djúpi Atlantshafsins en við yfirborðið flæðir hlýr og saltur sjór norður í stað þess sem sökk við kælingu. Þessu ferli er stundum líkt við færiband sem flytur hlýsjó norður sem miðlar varma til lofts. Sunnarlega á færibandinu er sjór hlýr og með háa seltu vegna uppgufunar úr hafinu við upphaf Golfstraumsins í Mexíkóflóa og Atlantshafi sunnan miðbaugs. Nyrst á færibandinu er kæling og djúpsjávarmyndun. Þetta kerfi er háð því að seltan sé há svo eðlismassinn aukist nægilega við kælingu til að djúpsjór geti myndast. Bent hefur verið á það að við hlýnandi veðurfar og bráðnun jökla kunni aukið ferskvatnsflæði til sjávar að lækka seltu í Atlantshafi og því muni draga úr djúpsjávarmyndun, eða hún jafnvel stöðvast, með tilsvarandi breytingum á færibandinu. Fyrirspyrjandinn er að velta fyrir sér mögulegum mótvægisaðgerðum. Hugsum okkur að við séum í Norðurhöfum utan við myndunarsvæði djúpsjávar þar sem er kaldur og seltulágur sjór. Takist okkur að auka seltuna svo að sjórinn sökkvi þá vantar tenginguna við færibandið sem dregur hlýsjóinn norður. Reyndar gerist það bæði í Suður- og Norður-Íshafi hvern vetur þegar sjórinn frýs, að salt sjávarins hripar sem pækill niður úr nýmynduðum ís og það er talið stuðla að djúpsjávarmyndun á sumum svæðum. Hugmyndin er því ekki fráleit en vekur aðra spurningu; hversu mikið salt fylgir hita- seltuhringrásinni? Djúpsjávarmyndun í Norðurhöfum er talin vera um 6 Sv. Sv, Sverdrup, er eining notuð um flæði hafstrauma og er 1 Sv = 1000000 m3/s. Ef við hugsum okkur að auka seltu kalds sjávar úr 34 í 35 svo sjórinn sökkvi samsvarar aukningin um 1 kg/m3 af salti og fyrir 6 Sv þarf því 6000 tonn hverja sekúndu. Til samanburðar er heimsframleiðsla á matarsalti um 210 milljón tonn/ár, en það samsvarar 6,7 tonnum hverja sekúndu. Það eitt sýnir að verefnið er ekki árennilegt. Önnur svör um hafstrauma eftir sama höfund:
- Hvað eru hafstraumar?
- Hvað mundi gerast ef Norður-Atlantshafsstraumurinn stöðvaðist eða breytti um stefnu?
- Unnsteinn Stefánsson (1994). Haffræði II. Reykjavík: Háskólaútgáfan.