Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Langreyður (Balaenoptera physalus) telst vera algengust stórhvela hér við land. Hún heldur sig á djúpslóð eins og aðrir risavaxnir reyðahvalir og kann best við sig í kaldtempruðum sjó á sumrin.
Langreyðurin er fardýr líkt og flestir aðrir hvalir hér við land. Hún kemur hingað snemma á vorin og fer seint á haustin suður í höf þar sem þær makast og bera. Langreyðurin er venjulega horfin úr íslenskri efnahagslögsögu í nóvember.
Farleiðir langreyða hafa eitthvað verið rannsakaðar, til dæmis með því að festa gervihnattasendi á bak dýranna. Niðurstöður slíkra rannsókna hafa til dæmis sýnt að Kyrrahafsstofninn, sem á sumrin heldur til í Chuckhi-hafi við Aleuta-eyjar og allt vestur til Kamtchatka, færi sig upp að ströndum Hawaii yfir vetrartímann. Langreyðarstofninn sem heldur til við Labrador og Nýfundnaland yfir sumarmánuðina er hins vegar talinn færa sig til svæða suður af Bermúda og til Vestur-Indía yfir köldustu mánuði ársins.
Langreyður á sundi.
Vísindamenn hafa mun minni vitneskju um far langreyðanna í norðaustur Atlantshafi, þar á meðal þeirra sem halda sig við Íslandsstrendur. Farhegðunin virðist vera mun óreglulegri en hjá langreyðastofnum á öðrum hafsvæðum og hafa ýmsar tilgátur verið settar fram því til skýringar.
Ein kenningin er sú að vegna Golfstraumsins sé sjávarhiti við Ísland og sunnar á hnettinum ekki eins mikill og á öðrum hafsvæðum þar sem langreyður heldur sig. Þetta kann að hafa áhrif á fartilhneigingu hennar. Önnur skýring kann að vera að talsvert fæðuframboð er á norðurslóðum yfir veturinn, sem kann að draga úr þörf hvalanna til að leggja í langferðir til suðlægari slóða. Einnig er hugsanlegt að í stað þess að halda suður á bóginn fari langreyðar lengra út á djúpslóð þar sem erfiðara er að sjá þær og fylgjast með ferðum þeirra.
Hvað sem verður um langreyðina á veturna og hver skýringin á hegðun hennar kann að vera, er ljóst að hún hverfur alla vega sjónum manna yfir köldustu mánuði ársins.
Frekara lesefni á Vísindavefnum eftir sama höfund:
Jón Már Halldórsson. „Hvert fara langreyðar sem eru við Ísland á sumrin á veturna?“ Vísindavefurinn, 13. nóvember 2006, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=6376.
Jón Már Halldórsson. (2006, 13. nóvember). Hvert fara langreyðar sem eru við Ísland á sumrin á veturna? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=6376
Jón Már Halldórsson. „Hvert fara langreyðar sem eru við Ísland á sumrin á veturna?“ Vísindavefurinn. 13. nóv. 2006. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=6376>.