Í langvarandi miklum frostum tekur jarðklakinn að dragast saman, enda fer ísinn þá að hegða sér eins og önnur föst efni [dragast saman við kólnun]. Við þetta rifnar jarðvegur oft með háum hvelli (frostbrestir), og nefnast þetta frostsprungur. Hér á landi verða þeir einungis til á láglendi á frostavetrum eins og t.d. 1918. Á hálendinu er hins vegar allmikið um frostsprungur, og raða þær sér tíðum í stóra tígla sem svipar til melatígla, en þvermál þeirra er miklu stærra eða 10–30 m. Frostsprungurnar víkka síðan smám saman við endurtekin frost, er ís myndast í þeim (ísfleygar), og nefnast þá fleygsprungur. Eru víða heil kerfi af þeim á hálendinu, eins og t.d. við Hvítárvatn, í Sóleyjarhöfða, á Sprengisandi og á Mývatnsöræfum.[2]Í Alaska hefur verið lýst stórgerðu frostmynstri frá ísöld, 25–46 m í þvermál og með 1–2 m bili á milli.[3] Og á reikistjörnunni Mars finnast melatíglar á vissum svæðum, 10–15 m í þvermál; þeir eru taldir hafa myndast við þurrgufun (uppgufun íss) og benda til þess að ís sé að finna undir yfirborðinu—þar kunni að vera vatns von fyrir framtíðar landnema. Tilvísanir:
- ^ RO van Erdingen 2005. Multi-language glossary of permafrost and related ground-ice terms. International Permafrost Association. The University of Calgary.
- ^ Þorleifur Einarsson 1968. Jarðfræði. Saga bergs og lands. Mál og menning. bls. 134.
- ^ TL Péwé, RE Church, MJ Andresen 1969. Origin and paleoclimatic significance of large-scale patterned ground in the Donnelly Dome area, Alaska. Special Paper 103. The Geological Society of America, Boulder, Colorado.
- Mynd af melatíglum: Guðbjartur Kristófersson. Jarðfræðiglósur. (Sótt 4.3.2021).
- Mynd af melahringjum: Permafrost stone-rings hg.jpg - Wikimedia Commons. Höfundur myndar: Hannes Grobe. Birt undir Creative Commons Attribution-Share Alike 2.5 Generic leyfi. (Sótt 3.3.2021).