Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Í Íslendingasögu sem hefur verið kennd við föður Leifs og kölluð Eiríks saga rauða er sagt frá því að Leifur hafi verið í Noregi hjá Ólafi konungi Tryggvasyni og konungur sent hann til Grænlands til að boða landsmönnum kristni. Leifur lætur í haf
og er lengi úti og hitti á lönd þau er hann vissi áður enga von til. Voru þar hveitiakrar sjálfsánir og vínviður vaxinn. … Leifur fann menn á skipflaki og flutti heim með sér. Sýndi hann í því hina mestu stórmennsku og drengskap, sem mörgu öðru, er hann kom kristni á landið, og var jafnan síðan kallaður Leifur hinn heppni.
Í þessari frásögn er ekki alveg ljóst hvort heppni Leifs fólst fremur í því að bjarga skipbrotsmönnunum eða kristna Grænlendinga. En í Grænlendinga sögu er greinilegt að heppnin var sú að taka við mönnunum. Þar segir að Leifur hafi farið frá Grænlandi í leiðangur til að kanna lönd sem annar maður, Bjarni Herjólfsson, hafði séð í vestri. Á leiðinni til baka til Grænlands fann hann skipbrotsmenn í skeri, 15 talsins, tók þá alla í skip sitt og hélt þeim uppi eða kom fyrir hjá öðrum veturinn eftir. Síðan segir: „Hann var síðan kallaður Leifur hinn heppni.“
Í þessum sögum finnst manni óhjákvæmilega að það hafi fremur verið skipbrots-mennirnir en Leifur sem voru heppnir. Leifur virðist fremur verðskulda viðurnefnið hinn örvi eins og Brandur Vermundarson sem gaf Noregskonungi skikkju sína, öxi og kyrtil og var þá loks nóg boðið. Það er greinilega kallað sérstaklega lofsvert af Leifi að taka mennina að sér, enda ekkert smáræði að bæta heilli skipshöfn við í fæði meðan enn var verið úti á rúmsjó og aldrei að vita hvenær landi yrði náð. Eða að vera á vissan hátt ábyrgur fyrir framfærslu þeirra veturinn eftir í harðbýlu landi. En þetta er það sem sögurnar segja.
Sumum hefur þótt Hallgrímskirkja ljót, og var stundum haft á orði að Leifur væri kallaður heppni því hann væri eini Reykvíkingurinn sem þyrfti aldrei að sjá hana, enda stæði hann með bakið í kirkjuna.
Þá má spyrja hvort lýsingarorðið heppinn kunni að hafa haft aðra merkingu að fornu en nú, að það hafi vísað til þess sem flutti öðrum höpp, líkt og hlýðinn maður hlýðir öðrum. Um þá merkingu finn ég tvö nokkurn veginn ótvíræð dæmi. Í kristnu helgikvæði, Leiðarvísan, sem er talið frá 12. öld, er Guð kallaður heppinn heimsstýrir, og hlýtur að vera dregið af því að hann færi mönnum höpp. Í riddarasögu, Mágus sögu jarls, segir frá manni í stafkarlsgervi sem svæfir Hermóð varðmann með víni og mat, kyrkir hann, skiptir á fötum við hann, hittir varðmenn við borgarhlið, segist hafa drepið stafkarlinn og vísar þeim á hann. Þeir láta blekkjast ásamt Sigurði nokkrum konungssyni sem „þakkar Hermóði [þ.e. þeim sem hann heldur vera Hermóð] og sagði að hann var jafnan heppnastur.“ Sigurður hlýtur að eiga við að Hermóður hafi flutt sér happ. Líklega hefur Leifur talist heppinn í þeirri merkingu orðsins.
Heimildir og mynd
Fritzner, Johan: Ordbog over Det gamle norske Sprog. Omarbeidet, forøget og forbedret Udgave I–III. Kristiania, Den norske Forlagsforening, 1886–96.
Íslenzk fornrit IV. Eyrbyggja saga. Brands þáttr örva. Eiríks saga rauða. Grænlendinga saga. Grænlendinga þáttr. Einar Ól. Sveinsson og Matthías Þórðarson gáfu út. Reykjavík, Hið íslenzka fornritafélag, 1935.
Den norsk-islandske Skjaldedigtning ved Finnur Jónsson. A. Tekst efter Håndskrifterne I. B. Rettet Tekst I. København, 1912.
Riddarasögur II. Bjarni Vilhjálmsson bjó til prentunar. Reykjavík, Íslendingasagnaútgáfan, 1949.
Sveinbjörn Egilsson: Lexicon poeticum antiquæ linguæ septentrionalis. Ordbog over det norsk-islandske Skjaldesprog. Forøget og påny udgivet for Det kongelige nordiske Oldskriftselskab ved Finnur Jónsson. København, S.L. Møllers Bogtrykkeri, 1913–16.
Gunnar Karlsson (1939-2019). „Af hverju er Leifur Eiríksson kallaður Leifur heppni?“ Vísindavefurinn, 31. október 2014, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=63603.
Gunnar Karlsson (1939-2019). (2014, 31. október). Af hverju er Leifur Eiríksson kallaður Leifur heppni? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=63603
Gunnar Karlsson (1939-2019). „Af hverju er Leifur Eiríksson kallaður Leifur heppni?“ Vísindavefurinn. 31. okt. 2014. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=63603>.