Hversu mikið má kæla bjór áður en hann byrjar að frjósa? Er einhver formúla fyrir því (sem tekur tillit til hitastigs og vínanda)?
Einfalda svarið er að bjór er að miklu leyti vatn (um 90-93%) og því hegðar hann sér að mestu eins og það. Við venjulegar aðstæður frýs vatn við 0°C og bjór frýs því rétt undir 0°C, en öll efni sem blandað er í vatn lækka bræðslumark þess. Eftirfarandi jafna lýsir því hversu mikil lækkunin verður:
1) dT = c * K * iHér er dT lækkun bræðslumarks í gráðum á Celsíus og c er mólalstyrkur (e. molality, mól/kg) eða mólfjöldi† íblöndunarefnis fyrir hvert kg efnis. K er fasti sem fer eftir því í hvaða efni er blandað (hér vatn), og i er fjöldi einda sem myndast í blöndunni fyrir hverja sameind af íblöndunarefni. Taka verður fram að þessi jafna gildir einungis í þeim tilvikum þegar íblöndunarefnið er í miklu minni styrk en efnið sem því er blandað út í. Það er þó ekki hægt að lækka bræðslumarkið endalaust. Við ákveðinn styrk íblöndunarefnisins hægist á lækkuninni uns bræðslumarkið lækkar ekki frekar, jafnvel þó meira efni sé bætt út í.
Bjór er að mestum hluta vatn og frýs því við svipað hitastig.
2) P * V = n * R * TÍ jöfnunni táknar P þrýsting, V er rúmmál, n er mólfjöldi†, R er fasti og T er hitastig. Út frá þessari jöfnu má sjá að ef þrýstingur fellur en rúmmál vökvans helst það sama, þá fellur hitastigið þar sem það er eina breytilega stærðin hægra megin jöfnunnar. Því getur bjór sem er heitari en bræðslumark hans segir til um frosið snögglega þegar hann er opnaður. Þetta er hægt að sannreyna með því að setja bjór (helst í glerflösku eða öðrum tærum umbúðum) í frysti í um það bil hálftíma. Þegar flaskan er tekin út úr frystinum aftur er bjórinn ennþá fljótandi, en um leið og hann er opnaður frýs hann.
Þegar bjór frýs þenst vökvinn út og getur sprengt flöskuna utan af sér.
† Eitt mól er tiltekinn fjöldi einda af ákveðnu efni, nánar tiltekið 6,02•1023 eindir. Mólfjöldi efnis er fundinn með því að deila í massa efnis með mólmassa efnisins (hvað eitt mól efnisins vegur mikið). Á vefsíðu efna- og eðlisfræði við Menntaskólann í Reykjavík má finna ágætis upplýsingar tengdar þessu. Þar er einnig reiknivél sem hægt er að nota til að reikna út hvað tiltekið magn efnis er þungt.
Þessi skemmtilega viðbót við svarið barst okkur frá Guðmundi Mar Magnússyni, ölgerðarmeistara hjá Ölgerðinni Agli Skallagrímssyni: Frostmark bjórs er mikilvæg stærð við bjórframeiðslu. Til að tryggja geymsluþol bjórs er bjórinn kældur eins mikið og hann þolir, en það er mismikið eftir tegundum. Þetta er gert til að tryggja að prótín og fjölfenól falli sem best út fyrir síun, en þessi efni geta í sameiningu valdið því að grugg myndist við geymslu. Formúlan er (sambærileg við jöfnu 1):
TF = -(0,04*OE+0,42*A+0,2)Þar sem TF er frostmarkið, OE stendur fyrir upprunalegur extrakt sem er mælikvarði á þurrefnisinnihald mælt í %Plato (%plato er þyngdarprósenta sykurs (wt/wt). Upprunalegur extrakt er yfirleitt gefinn upp á umbúðum þar sem hann er oft grundvöllur skattlagningar. A er magn alkóhóls af þyngd. Það er yfirleitt gefið upp í %Vol á umbúðum og er oftast nægilega góð nálgun að reikna Avol=1,27*Awt. Algengast er að frostmark bjórsins sé á bilinu -1,8 °C til -2,5°C, en getur þó farið upp í -1,0°C og niður í -3,0 °C.
Myndir
- Fyrri myndin er af síðunni Frozen beer. Flickr.com. Höfundur myndar er without you. Myndin er birt undir Creative Commons leyfi.
- Seinni myndin er af síðunni DSC_2021.JPG. Flickr.com. Höfundur myndar er Drift Words. Myndin er birt undir Creative Commons leyfi.