Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Sú tilraun að setja mentosnammi ofan í flösku af kóki hefur öðlast töluverða frægð með tilkomu netsins. Nægir að nota leitarorðin 'mentos' og 'coke' eða 'soda' í leitarvél eins og Google og fær maður þá fjöldann allan af myndskeiðum sem sýna gosið sprautast upp úr flöskunni. Til að mynda má sjá eitt slíkt á vefsíðunni EepyBird.com. Reyndar er ekki víst að eitt mentos nægi, en heill staukur (10-13 stykki) ætti að duga.
En hvað er þarna á seyði? Ekki eru allir vísindamenn á eitt sáttir um það, en hér verður greint frá þeirri skýringu sem nú á mestu fylgi að fagna.
Eins og flestir vita innihalda gosdrykkir töluvert af kolsýru sem sleppur út sem koltvísýra við venjulegar herbergisaðstæður. Til að tryggja að kolsýran haldist í drykknum er hann geymdur í lokuðu íláti, til dæmis flösku, undir þrýstingi.
Um leið og þrýstingnum er hleypt af byrjar kolsýran að streyma úr gosdrykknum en venjulegast tekur þetta ferli nokkurn tíma. Ein ástæða þess að kolsýran rýkur ekki úr drykknum í einu vetfangi er að yfirborð ílátsins er slétt. Þessi sléttleiki gerir það að verkum að gasið sem myndast í drykknum á erfitt með að safnast saman í loftbólur sem síðan næðu að brjóta sér leið upp úr vökvanum. Áhrif slétts yfirborðs eru samt að engu gerð ef flaskan er hrist, eins og flestum ætti að vera kunnugt. Önnur aðferð til að flýta fyrir loftbólumyndun er að bæta einhverju hrufóttu út í gosdrykkinn. Hrjúfa yfirborðið verður þá að nokkurs konar útungunarstöð fyrir loftbólur og gasið á mun auðveldara með að sleppa.
Þetta gerist þegar mentos er sett ofan í kók!
Fyrst þegar þessi tilraun var gerð var ekki notað mentos heldur piparmyntubrjóstsykur. Tilraunin vakti litla athygli á sínum tíma, en um það bil sjö til átta árum síðar var hún endurtekin og þá var notað mentos. Þetta var allt saman tekið upp á myndband og myndskeiðinu komið fyrir á netinu. Uppátækið hlaut mikinn hljómgrunn hjá netverjum og margir hlupu til að prófa þetta og settu sínar eigin útgáfur á netið líka.
En af hverju mentos? Mentos er tiltölulega hrjúft og þungt. Það sekkur því til botns í gosflöskunni og ungar þar út loftbólum tiltölulega hratt. Sumir hafa bent á að hægt sé að ná fram sömu áhrifum með til dæmis matarsalti eða sandi. Matarsaltstilraunin hefur verið gerð og virkar vel, en ekki hefur neinn prófað sand svo vitað sé.
Og af hverju kók? Ekki virðist nein sérstök ástæða fyrir því að sú gostegund sé notuð umfram aðrar; allt gos hegðar sér eins að þessu leyti. Sumir segja að sykur hægi á loftbólumyndun og því sé betra að nota sykurlaust gos, en aðrir mæla með því að nota sódavatn.
Kók og mentos hafa samt á einhvern hátt náð að skapa sér sérstöðu í vitund fólks þó svo að hægt sé að skipta þeim báðum út fyrir eitthvað annað. Sennilega eru það hin óvæntu áhrif af samsetningunni sem gerir tilraunina svo áhugaverða og eftirminnilega.
Öllum er ráðlagt að prófa þessa tilraun. Hún er einföld í framkvæmd og skemmtanagildið ótvírætt. Upplagt er prófa hana heima hjá sér úti í garði á sólríkum sumardegi. Enn á margt eftir að athuga, til dæmis sandinn, og tilvalið er að rannsaka hvort það sé satt að sykurlaust gos sé betra en gos með sykri.
Frekara lesefni á Vísindavefnum og mynd
Sigurður V. Smárason. „Hvað gerist ef maður lætur eitt mentos ofan í stóra kók?“ Vísindavefurinn, 19. október 2006, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=6322.
Sigurður V. Smárason. (2006, 19. október). Hvað gerist ef maður lætur eitt mentos ofan í stóra kók? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=6322
Sigurður V. Smárason. „Hvað gerist ef maður lætur eitt mentos ofan í stóra kók?“ Vísindavefurinn. 19. okt. 2006. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=6322>.