Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Við föstu eða svelti þarf líkaminn að treysta á eigin birgðir af orkugefandi næringarefnum. Fyrst um sinn nýtir hann birgðir sínar af kolvetnum og fitu, en kolvetnabirgðirnar sem eru fyrst og fremst á formi glúkósa (þrúgusykurs) í glýkógensameindum klárast á aðeins nokkrum klukkustundum.
Þar sem heilinn, ásamt miðtaugakerfinu öllu, kýs að langmestu leyti glúkósa sem sinn "eldsneytisgjafa", er líkamanum vandi á höndum þegar glúkósabirgðirnar eru uppurnar. Heilinn er orkufrekur og nýtir um fimmtung heildarorkunnar í hvíld. Fituforði líkamans er oft nægur til að gefa flestum líkamsvefjum orku til lengri tíma en getur aðeins að litlu leyti umbreyst í glúkósa. Á hinn bóginn eru ákveðnar amínósýrur, en svo nefnast grunneiningar prótína, kjörið hráefni í glúkósaframleiðslu og byrjar líkaminn því að ganga á eigin prótín, til dæmis í vöðvum og lifur, til að framleiða glúkósa fyrir heilann.
Þar sem slíkt gæti aldrei gengið til lengdar, meðal annars vegna mikilvægis líkamsprótínanna, þá byrjar líkaminn fljótlega að framleiða svonefnda ketóna úr fitu, sem hluti heilans getur nýtt sér og er þetta ástand kallað ketósa. Sveltið sem leiðir til ketósunnar veldur einnig minnkandi matarlyst, og einnig hægist á efnaskiptum, það er líkaminn verður sparsamari á alla orku. Með þessu lagar líkaminn sig að ástandinu til að geta þraukað sem lengst.
Þeir sem fara í hungurverkfall leyfa sér yfirleitt að neyta vatns, jafnvel með örlitlu salti, því ekki er hægt að lifa nema örfáa daga án vatns. Það má segja að hungurverkfall með vatni gangi yfirleitt þokkalega fyrstu vikuna, hungurverkir og magakrampar ættu að hverfa eftir 2-3 daga. Eftir hálfan mánuð eða svo eru einkenni oft orðin töluverð, einstaklingar eru orðnir máttlitlir og svimagjarnir og eiga orðið erfitt með eða geta jafnvel alls ekki staðið uppréttir, meðal annars vegna réttstöðulágþrýstings (e. orthostatic hypotension).
Þegar líður á hungurverkfallið eykst hætta á ofþornun þar sem þorsta- og hungurviðbrögð dofna, en mikilvægt er að neyta eins og hálfs lítra af vatni daglega. Við lok fyrsta mánaðar hungurverkfalls eru einkenni hugsanlega orðin svo alvarleg að nauðsynlegt reynist að leggja viðkomandi á sjúkrahús.
Eftir fyrsta mánuðinn tekur við mjög óþægilegt tímabil með svokallaðri augnriðu (e. nystagmus), ógleði og uppköstum og þegar hér er komið við sögu á viðkomandi orðið mjög erfitt með að kyngja vatni. Þetta tímabil stendur yfir í um það bil viku, en eftir það er einstaklingurinn orðinn mjög veikburða og vart með sjálfum sér. Hann getur tapað heyrn og jafnvel sjón vegna blæðinga í augnhimnu, og öll líkamsstarfsemi og efnaskiptavirkni er nú í algjöru lágmarki.
Um það bil 60 dögum (getur verið frá 45-75 dögum) eftir að hungurverkfall hefst gefst líkaminn upp og viðkomandi deyr, til dæmis af völdum hjartaáfalls eða alvarlegra hjartsláttartruflana af völdum skorts á B1-vítamíni (þíamíni).
Sumir sem fara í hungurverkfall, leyfa sér að borða einföld kolvetni, eða jafnvel flóknari matvæli á borð við mjólk eða egg. Við þetta lengjast lífslíkurnar talsvert, jafnvel þó einungis fárra hitaeininga sé neytt.
Að lokum má benda á að þegar hungurverkfalli er hætt og taka á til við að borða aftur er afar mikilvægt er að fara varlega í sakirnar. Ef hunguverkfallið stóð yfir í 3 vikur eða lengur, þarf fæðugjöf að fara fram á sjúkrahúsi undir eftirliti í nokkra daga, annars er hætta á ferðum.
Heimildir:
Kerndt PR, Naughton JL, Driscoll CE, Loxterkamp DA. Fasting: The history, pathophysiology and complications. West J Med 1982;137:379-399.
Björn Sigurður Gunnarsson. „Hvaða áhrif hefur hungurverkfall á líkamann?“ Vísindavefurinn, 12. október 2006, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=6308.
Björn Sigurður Gunnarsson. (2006, 12. október). Hvaða áhrif hefur hungurverkfall á líkamann? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=6308
Björn Sigurður Gunnarsson. „Hvaða áhrif hefur hungurverkfall á líkamann?“ Vísindavefurinn. 12. okt. 2006. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=6308>.