Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Örnefnið Nollur er þekkt sem nafn á þremur stöðum í Þingeyjarsýslu:
Bæjarnafn í Grýtubakkahreppi í Suður-Þingeyjarsýslu. Nafnið er ritað Gnollur („af gnoll“) í Auðunarmáldögum 1318 (Íslenskt fornbréfasafn II:447).
Eyðikot við Mývatn, einnig Nollsel (Þorvaldur Thoroddsen, Ferðabók I:288). Hvorttveggja segir hann að sé í heiðinni nærri Gautlöndum.
Lítið klapparholt nokkurn spöl norður af Ytri-Vörðhól í landi Víkingavatns í Kelduhverfi (Örnefnaskrá).
Nafnið Nollur er líklega komið af orðinu hnollur (eldra knollr ‘fjallshnúkur’) ‘smáhæð, hóll’ (Ásgeir Bl. Magnússon, Íslensk orðsifjabók, 351), samanber færeyska knolli ‘hnúskur, klettasnös’ (= kneysi), nýnorska knoll(e) ‘klettur, höfði, bjargsnös’, danska knold ‘hnúður, æxli á tré; smástrákur’ og enska knoll ‘þúfa, hnjúkur’ (Ásgeir Bl. Magnússon, Íslensk orðsifjabók, 485). Nollur í Grýtubakkahreppi stendur á allháum klettakambi undir allbröttu fjalli örskammt frá sjó (Byggðir og bú Suður-Þingeyinga 1985, 58).
Nollur í Grýtubakkahreppi.
Líklegt er að bæjarnafnið Nollarsstaðir í Fellum í Norður-Múlasýslu, samkvæmt Fljótsdæla sögu (Íslensk fornrit XI:248), sé af sama uppruna. Nafnið er óþekkt nú, en á líklega við bæinn Hrafnsgerði (Hrappsgerði). Í örnefnaskrá í Örnefnastofnun sem Stefán Einarsson prófessor skráði eftir Hannesi Sigurðssyni (f. 1909), er nefndur Nollarshaugur, kringlótt hæð, yst á svonefndum Feta, en nú í túni nýbýlisins Teigabóls. Í Fljótsdæla sögu er maður sá sem bjó á Nollarsstöðum nefndur Nollar, en líklega er hann tilbúningur söguhöfundar. Sigurður Gunnarsson á Hallormsstað nefnir Nollarshaug í ritgerð sinni, Örnefni frá Jökulsá í Axarfirði austan að Skeiðará, og segir að hann sé „dys, ekki mikil ... og sér garðs merki umhverfis“ (Safn til sögu Íslands II:486 (1886)). Helgi Hallgrímsson hefur skrifað um Nollarshaug í greininni Fornhaugar og féstaðir í Fellum (Múlaþing 16:183-186 (1988)) þar sem hann segir að haugurinn sé „að líkindum gamalt heystæði, sem ef til vill var hlaðið á ofurlitlum melkolli, er þarna hefur verið” (185).
Þessi kringlótta hæð eða melkollur hefur að líkindum heitið Nollur, í eignarfalli Nollar, samanber beygingu bæjarnafnsins í Grýtubakkahreppi, til dæmis í Nollarvík. (Í örnefnaskrá er þó fjallið ofan við bæ nefnt Nollurfjall.) Nafnið Nollur hefur fengið viðaukann '-haugur' til nánari skýringar og þá orðið Nollarhaugur. Bærinn í sögunni hefur þá einnig verið nefndur eftir hæðinni, Nollarstaðir. Helgi Hallgrímsson segir réttilega í grein sinni að nollur sé sömu merkingar og hóll „og enn notað þannig í örnefnum á Suðurlandi“ (185), en ekki hefur það fengist staðfest.
Mynd:
Svavar Sigmundsson. „Hvað getið þið sagt mér um örnefnið Nollur?“ Vísindavefurinn, 19. september 2012, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=62955.
Svavar Sigmundsson. (2012, 19. september). Hvað getið þið sagt mér um örnefnið Nollur? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=62955
Svavar Sigmundsson. „Hvað getið þið sagt mér um örnefnið Nollur?“ Vísindavefurinn. 19. sep. 2012. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=62955>.