Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Austurrísk-bandaríski líffræðingurinn og læknirinn Karl Landsteiner (1868-1943) er þekktastur fyrir að hafa uppgötvað blóðflokkana, það er að hafa þróað ABO-blóðflokkakerfið árið 1901 og Rhesus-kerfið árið 1940 og gerði uppgötvun hans mönnum kleift að framkvæma blóðinngjafir á öruggari og árangursríkari hátt. Fyrir þessa uppgötvun voru honum veitt Nóbelsverðlaun árið 1930 í lífeðlisfræði eða læknisfræði.
Landsteiner gerði fjölda annarra mikilvægra uppgötvana, þar á meðal árið 1909 er honum tókst að einangra mænusóttarveiruna (e. polio virus) ásamt austurríska lækninum Erwin Popper (1879-1955). Honum voru veitt Lasker-verðlaunin eftir andlát sitt árið 1945. Lasker-verðlaunin eru meðal virtustu verðlauna sem veitt eru fyrir vísindi og eru stundum kölluð „bandarísku Nóbelsverðlaunin“. Landsteiner birti um 346 ritverk um ævina og bókina The Specificity of Serological Reactions árið 1936, þar sem hann fjallaði meðal annars um ofnæmi, ónæmi gegn sýkingum og ofurnæmni. Landsteiner er viðurkenndur sem faðir blóðgjafafræðinnar.
Karl Landsteiner (1868-1943).
Karl Landsteiner fæddist 14. júní 1868 í Vínarborg í Austurríki. Faðir hans Leopold (1818-1875) var mjög virtur austurrískur blaðamaður og hefur verið talinn frumkvöðull austurrískrar nútímablaðamennsku. Landsteiner var aðeins 7 ára gamall þegar faðir hans lést og hefur það án efa átt sinn þátt í hversu tengdur hann varð móður sinni Fanny (1837-1908). Samband þeirra varð svo náið að það hvarflaði ekki að honum að giftast á meðan hún lifði. Þau voru gyðingar en snerust bæði til kaþólskrar trúar þegar Landsteiner var 21 árs gamall. Þegar móðir hans lést árið 1908 varð dauði hennar Landsteiner mikið áfall. Svo mikla tryggð sýndi hann móður sinni að hann geymdi dauðagrímu hennar á vegg í svefnherbergi sínu allt þar til hann lést.1 Landsteiner var mikill vinnuþjarkur og hafði lítinn tíma fyrir nokkuð félagslíf. Hann starfaði við herspítala árið 1916 er hann kynnist Helene Wlasto, þá 48 ára gamall. Þau giftust og eignuðust einn son, Ernst Karl, sem varð skurðlæknir á Rhode Island í Bandaríkjunum.
Landsteiner stundaði nám í lækningum og meinafræði við háskólann í Vínarborg. Meðan hann var enn í námi hóf hann lífefnafræðilegar rannsóknir og birti ritgerð um áhrif fæðu á samsetningu blóðsins. Hann útskrifaðist með doktorsgráðu árið 1891. Næstu fimm árin lagði hann stund á efnafræði hjá mörgum af virtustu efnafræðingum þess tíma; hjá þýska Nóbelsverðlaunahafanum Hermann Emil Fischer (1852-1919) í Würzburg; hjá Arthur Hantzsch (1857-1935) í Zürich og Eugen von Bamberger (1858-1921) í München. Hann birti auk þess margar greinar með þessum þekktu vísindamönnum.
Landsteiner sneri aftur til Vínarborgar og árið 1896 varð hann aðstoðarmaður austurríska bakteríufræðingsins Max von Gruber (1853-1927) í Hygiene-stofnuninni í Vínarborg en þar fékk hann áhuga á eðli mótefna. Einnig birti hann þar sína fyrstu grein um bakteríufræði og blóðflokkamótefni (e. serology). Frá 1897 til 1908 var hann aðstoðarmaður við meinafræðideild Vínarborgarháskóla, þar sem hann stundaði einnig rannsóknir á ónæmisfræði og blóði. Þar var hann hvattur áfram af yfirmanni deildarinnar, prófessor A. Weichselbaum (1845-1920), sem hafði uppgötvað bakteríuorsök heilahimnubólgu og þar vann hann einnig við hlið Alberts Fraenkel (1864-1938), sem hafði uppgötvað lungnabólgubakteríuna (lat. pneumococcus). 2
Árið 1900 skrifaði Landsteiner ritgerð þar sem hann lýsti kekkjun (e. agglutination) blóðsins sem gat átt sér stað þegar að blóði tveggja einstaklinga er blandað. Árið 1901 birti hann uppgötvanir sínar á ABO-blóðflokkakerfinu. Nánar er fjallað um þetta merka framlag hans, og aðrar vísindalegar uppgötvanir sem hann átti þátt í, í svari sama höfundar við spurningunni Hvert var framlag Karls Landsteiner til vísindanna?
Landsteiner var sýndur ýmiss konar virðingarvottur bæði í lifanda lífi og eftir dauða sinn. Hann prýddi meðal annars 1000 skildinga (Schilling) seðil í Austurríki fyrir upptöku evrunnar.
Frá 1908 til 1919 vann Landsteiner sem meinafræðingur á Wilhelmina-sjúkrahúsinu í Vínarborg ásamt því að vera prófessor í meinafræði við Vínarborgarháskóla. Ástandið í Austurríki á árunum eftir fyrri heimsstyrjöldina var í mikilli upplausn, mikill skortur var á matvælum og eldsneyti. Því var rannsóknarvinna mjög erfið og Landsteiner flutti til Haag þar sem hann vann sem meinafræðingur við lítið kaþólskt sjúkrahús. Honum var boðin staða við Rockefeller-stofnunina í New York árið 1922, sem hann þáði. Þangað flutti hann með fjölskyldu sína og gerðist bandarískur ríkisborgari nokkrum árum síðar eða um 1929.
Landsteiner var fremur einrænn maður og kaus að lifa fjarri fólki. Hann varði einkalíf sitt og fjölskyldu gegn athygli umheimsins. Hann er sagður hafa óttast mjög að nasistar ynnu stríðið og myndu sigra heiminn og má vera að ótti hans hafi grundvallast af því að hann var gyðingur. Landsteiner fór á eftirlaun 1939, þá 71 árs gamall, sem virkur meðlimur Rockefeller-stofnunarinnar. Honum var leyft að halda áfram starfi sínu á lítilli rannsóknarstofu með fáeina aðstoðarmenn. Þann 26. júní 1943 fékk Landsteiner hjartaáfall í rannsóknarstofu sinni og lést tveimur dögum síðar. Eiginkona hans Helene lést 6 mánuðum seinna. Eftir dauða hans var honum sýndur virðingavottur víða um heim en ekkert var birt um lát hans í Austurríki eða Þýskalandi þar til árið 1947, eftir sigur á nasistum.
Framlag Landsteiners til vísindanna var mjög fjölbreytt, meðal annars á sviðum meinafræði, vefjafræði, blóðvatnsfræði, ónæmis- og bakteríufræði og uppgötvanir átti hann fjölmargar eins og fjallað er um í áðurnefndu svari um rannsóknir hans. Af öllum hans afrekum á sviði vísindanna mun þó Landsteiners helst verða minnst fyrir uppgötvun hans á blóðflokkunum, sem færði honum Nóbelsverðlaun árið 1930.
Tilvísanir
1M. Gottlieb, Karl Landsteiner, the Melancholy Genius; His time and colleagues, 1868-1943, Transfusion Medicine Reviews, tbl. 12., nr. 1, 1998, bls. 18.
Rúna Hjaltested Guðmundsdóttir. „Hver var Karl Landsteiner?“ Vísindavefurinn, 5. júlí 2012, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=62842.
Rúna Hjaltested Guðmundsdóttir. (2012, 5. júlí). Hver var Karl Landsteiner? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=62842
Rúna Hjaltested Guðmundsdóttir. „Hver var Karl Landsteiner?“ Vísindavefurinn. 5. júl. 2012. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=62842>.