Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Venjulegir fólksbílar hafa oft massa kringum 1 tonn eða 1000 kg þegar þeir eru tómir, og geta tekið farþega og farangur sem nemur samtals um 400 kg. Svo eru bílarnir þyngri eftir því sem þeir eru stærri og geta tekið meiri farm.
Venjulegir vörubílar eru trúlega nokkur tonn á þyngd tómir og geta tekið álíka mikinn farm eða meira, en þyngstu vagnlestir sem leyfðar eru á íslenskum vegum eru tæp 50 tonn með farmi. Þá er um að ræða stóran vörubíl með álíka stórum tengivagni.
Þessi trukkur í Ástralíu dregur fjóra tengivagna og vegur trúlega á annað hundrað tonn.
Oft er í þessu samhengi talað um ásþunga eða öxulþunga í stað þess að ræða um heildarþunga ökutækis eða vagnlestar. Þetta er gert vegna þess að það er þunginn á hvern ás sem ræður mestu um áhrif bílsins eða lestarinnar á veginn. Slit á vegum af völdum þungrar vagnlestar getur hæglega verið mörg þúsund sinnum meira en af einum fólksbíl.
Vegna þess hvað vörubílar og vagnlestir geta verið þung getur líka orðið mikið tjón ef eitthvað ber út af. Þess konar ökutæki geta til dæmis skemmt hús og önnur mannvirki ef þau fara út af vegi eða götu og þau geta slitið niður brýr. Ef þau eru fullfermd þurfa þau að fara mun hægar í beygjur en önnur farartæki vegna þess að svokölluð massamiðja (áður kölluð þyngdarpunktur) liggur hátt og tækið í heild er valt; það er nánar tiltekið óstöðugt gagnvart því að velta á hliðina. Einnig eru þessi ökutæki næm fyrir hliðarvindi, einkum þó ef um er að ræða bíl eða tengivagn með farmgeymslu sem er tóm. Þá má geta þess að sérstök hætta getur skapast ef farmur færist til á palli eða í geymslu á svona ökutæki; það sem áður var stöðugt getur þá orðið valt.
Við sjáum af þessu að það er ekki að ástæðulausu sem ökutækjum af þessari gerð er alls staðar settur lægri hámarkshraði en öðrum. Einnig skiljum við kannski betur að gera þarf sérstakar kröfur til þeirra sem aka þessum stóru farartækjum. Þeir þurfa að ganga undir sérstök próf og kunna skil á ýmsu sem ekki reynir á í venjulegum akstri. En umfram allt þurfa þeir að vera gætnir, öruggir og glöggir.Þetta svar er í flokknum "bekkirnir spyrja" þar sem starfsfólk vefsins svarar spurningum frá grunnskólabekk í kennslustund, samkvæmt samningi. Lögð er áhersla á skjót svör, stutt og aðgengileg. Oft er byggt á öðrum svörum sem kunna að nýtast almennum lesendum betur.
Mynd: