Meginhlutverk rauðkornanna er að flytja súrefni frá lungum til vefja og koltvíoxíð frá vefjum til lungna. Rauðkorn eru disklaga með dæld báðum megin. Lögunin gerir það að verkum að yfirborð þeirra verður mikið, en það eykur upptöku súrefnis. Rauðkornin hafa ekki kjarna og geta því ekki fjölgað sér með skiptingu. Þau eru fyllt blóðrauða sem hefur það hlutverk að flytja súrefni en gefur blóðinu jafnframt rauðan lit. Aðalhlutverk hvítkorna er að vernda líkamann fyrir bakteríum og veirum. Ólíkt rauðkornunum eru hvítkornin með kjarna eins og flestar aðrar frumur. Hvítkornin eru mikið færri en rauðkornin, við eðlilegar aðstæður eru um 5.000-10.000 hvítkorn á hvern rúmmillimetra blóðs en við sýkingu fjölgar þeim verulega. Megingerðir hvítkorna eru átfrumur og ónæmisfrumur... ... Blóðflögur eru örsmáar agnir sem fljóta um í blóðvökvanum og gegna mikilvægu hlutverki við storknun blóðs. Blóðflögur verða til við það að agnir kvarnast úr umfrymi sérstakra frumna í beinmerg sem kallast megakaryocytar.Á Vísindavefnum er að finna fjölmörg önnur svör um blóð, til dæmis:
- Hvernig er hringrás blóðsins?
- Hvernig verkar blóðflokkakerfið? Hvað þýða stafirnir og plús- og mínusmerkin?
- Af hverju eru menn með jafnheitt blóð?
Þetta svar er í flokknum "bekkirnir spyrja" þar sem starfsfólk vefsins svarar spurningum frá grunnskólabekk í kennslustund, samkvæmt samningi. Lögð er áhersla á skjót svör, stutt og aðgengileg. Oft er byggt á öðrum svörum sem kunna að nýtast almennum lesendum betur.