Guð væri ekki Guð ef hann hefði einhvern tímann orðið til líkt og ég eða þú... Það felst einfaldlega í eðli Guðs að hann hefur alltaf verið til og verður alltaf til og er alltaf eins.Benda má á að hliðstæðu við spurninguna um hver skapaði Guð má finna í vísindum. Flestir stjörnufræðingar aðhyllast til að mynda kenninguna um að alheimurinn hafi myndast við Miklahvell. Margir hafa þá spurt hvað orsakaði Miklahvell, hver sé orsök þess sem orsakaði Miklahvell og svo framvegis. En ef til vill verða menn að sætta sig við að merkingarlaust sé að tala um það sem var á undan Miklahvelli eða að um það verði aldrei neitt vitað. Tryggvi Þorgeirsson fjallar nánar um upphaf alheimsins í svari við spurningunni Hvernig varð alheimurinn til?
Lesendur mættu að lokum gjarnan kynna sér svarið við spurningunni Er guð til?
Þetta svar er í flokknum "bekkirnir spyrja" þar sem starfsfólk vefsins svarar spurningum frá grunnskólabekk í kennslustund, samkvæmt samningi. Lögð er áhersla á skjót svör, stutt og aðgengileg. Oft er byggt á öðrum svörum sem kunna að nýtast almennum lesendum betur.