Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Leðurblökur tilheyra ættbálknum Chiroptera sem skiptist í tvo undirættbálka; annars vegar svokallaða flugrefi eða stórblökur (Megachiroptera) og hins vegar smáblökur (Microchiroptera). Í þessu svari verður einungis fjallað um smáblökurnar, æxlun og þroska ungviðis þeirra en sumir vilja meina að smáblökurnar séu hinar eiginlegu leðurblökur.
Fengitíminn hjá smáblökum er æði mismunandi en hann fer eftir því hvort tegundirnar lifa í hitabeltinu eða í tempraða beltinu. Í hitabeltinu getur hann verið hvenær sem er ársins en í tempraða beltinu er hann venjulega bæði á vorin og haustin. Á haustin beiða kvendýrin og makast og leggjast þá í dvala. Sæðið helst óskemmt í legi kvendýrsins á meðan á dvalanum stendur. Eggin þroskast því sem næst þegar vorið gengur í garð og það tekur að hlýna en þá á sér stað frjóvgun. Meðgöngutíminn er óvenjulangur miðað við stærð þeirra. Frá 50 dögum hjá dvergleðurblökum upp í 7 mánuði hjá blóðsugublökum eða vampíruleðurblökum.
Sérkennilegt er að flest kvendýr af sömu tegund og í sömu byggð eða helli gjóta ungum á sama deginum. Á þetta einnig við í stærstu byggðunum sem telja þúsundur kvendýra. Algengast er að kvendýr ali einn unga en þó þekkjast tvíburafæðingar hjá nokkrum tegundum, til dæmis hjá dvergleðurblökum (Pipistrellus pipistrellus) og farblökum, af Lasiurus-ættkvísl, í álfum Ameríku, sem geta alið allt upp í 4 unga.
Unginn fæðist kviknakinn með lokuð augu, mjög hjálparvana og heldur dauðahaldi í feld móðurinnar. Klær ungans eru þó óvenju þroskaðar, bæði á þumalfingri og afturfótum. Fljótlega skilur móðirin ungan eftir og aflar sér fæðu til að geta haldið áfram að mjólka af sama krafti og strax eftir got. Ungar flestra smáblökutegunda opna augun eftir 7-10 daga og á sama tíma stífna eyrun sem voru lin og formlaus við fæðingu. Mjólkurtennur unganna eru beittar og sveigjast aðeins inn á við svo ungarnir geti beitt þeim á öruggan hátt á spena móðurinnar. Við tveggja vikna aldur missir unginn mjólkurtennurnar og fær fullorðinstennur. Við þriggja vikna aldur er unginn orðinn fleygur þó hann sé smágerður og með litla vængi.
Strax frá fæðingu gefur unginn frá sér hljóð og skræki. Mannseyrað getur fyrst í stað numið þessi hljóð en eftir því sem hann eldist breytist tónninn, hann færist inn á hærra tíðnisvið sem mannseyrað getur ekki numið. Smáleðurblökur verða ekki kynþroska fyrr en vel er komið inn á annað ár.
Eftir kynþroska halda þær til nærri móður sinni en taka upp sjálfstætt líf og stunda veiðar með hópnum. Eins og vel er þekkt veiða smáleðurblökur helst skordýr og nota svokallaða bergmálsmiðun við að veiða þau. Leðurblökur veiða að næturlagi sem er sennilega aðlögun að því að forðast afrán að degi til og því hafa þær þróað hina stórmerkilegu aðferð við bergmálsmiðun.
Leðurblökur verða langlífari en önnur spendýr af sömu stærð. Stórblökur geta orðið allt að 30 ára gamlar og minni frænkur þeirra smáblökurnar verða í kringum 15-20 ára gamlar þó það sé eitthvað breytilegt eftir tegundum. Það þykir merkilegt því að tegundir af svipaðri stærð í ættbálki nagdýra (Rodentia) verða margfalt skammlífari. Rannsóknir á þessu hafa leitt í ljós að prótín sem leðurblökur framleiða hefur ákveðið viðnám og vinnur gegn áhrifum streitu. En slík prótín, eða öllu heldur gen sem framleiða prótínin, finnast ekki hjá nagdýrum.
Mynd:
Jón Már Halldórsson. „Getið þið sagt mér allt sem þið vitið um afkvæmi leðurblaka og lífsferil þeirra?“ Vísindavefurinn, 16. október 2012, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=62436.
Jón Már Halldórsson. (2012, 16. október). Getið þið sagt mér allt sem þið vitið um afkvæmi leðurblaka og lífsferil þeirra? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=62436
Jón Már Halldórsson. „Getið þið sagt mér allt sem þið vitið um afkvæmi leðurblaka og lífsferil þeirra?“ Vísindavefurinn. 16. okt. 2012. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=62436>.