Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Það geta verið fjölmargar ástæður fyrir því að fólk pissar blóði, sumar alvarlegar og aðrar ekki.
Blóðmiga (e. hematuria) er það kallað þegar blóð finnst í þvagi. Blóðmigu er skipt í bersæja (e. macroscopic) og smásæja (e. microscopic) blóðmigu eftir því hvort blóð litar þvag svo það sjáist með berum augum eða ekki. Lítið blóð þarf til þess að lita þvag, eða um og yfir 1 ml af rauðum blóðkornum á hvern lítra þvags. Þar sem smásæ blóðmiga litar ekki þvag þarf að gera strimilpróf eða aðra þvagrannsókn til greiningar þess.
Blóðmigu er skipt í bersæja og smásæja eftir því hvort blóð litar þvag svo það sjáist með berum augum eða ekki.
Hafa ber í huga að rauðleitt þvag er ekki alltaf vegna blóðs. Matarlitur, fæðutegundir á borð við rauðrófur og ber, sum lyf, svo sem aspirín og viss sýklalyf, og ákveðnir sjúkdómar geta litað þvag rautt. Mikil áreynsla getur valdið því að blóð fer í þvag, en rautt þvag vegna áreynslu, mataræðis og lyfja lagast oftast á fáeinum dögum. Strimilpróf getur auk þess verið falskt jákvætt fyrir rauðum blóðkornum vegna myoglóbíns sem getur losnað í þvag vegna niðurbrots rákóttra vöðva.
Blóðmiga er í sjálfu sér ekki hættuleg og veldur ekki miklum blóðmissi, en hún getur verið merki um undirliggjandi sjúkdóma sem sumir hverjir eru alvarlegir og því ætti alltaf að leita til læknis og láta rannsaka hvað um ræðir ef blóð er í þvagi. Tilgangur rannsókna er þá annars vegar að staðfesta að blóð sé í þvagi og hins vegar að greina uppruna og orsök þess svo veita megi rétta meðferð, sé hennar þörf.
Orsakir blóðmigu eru fjölmargar og mjög misalvarlegar. Við greiningu er gagnlegt að komast að hvar blóð kemst í þvagið til þess að finna eiginlega orsök. Blóðmiga er því gjarnan flokkuð eftir upprunastað, en hann getur verið hvar sem er í þvagvegakerfinu, það er í nýrum, þvagleiðurum, þvagblöðru eða þvagrás.
Við gauklablóðmigu er einhvers konar sjúkleiki í grunnhimnu gaukla (e. glomeruli) sem veldur því að rauð blóðkorn komast í gegnum hana og í þvag. Gauklur eru þúsundir smáar starfseininga nýrna sem sía það blóð sem kemur til nýrna og stuðla að myndun svokallaðs frumþvags. Dæmi um orsakir gauklablóðmigu er bólga í gauklum eftir streptókokkasýkingu eða ónæmiskvilla á við IgA-nýrnamein, en fjölmargir fleiri sjúkdómar geta legið að baki. Blóðmiga getur einnig stafað af sjúkdómum í nýrum utan gaukla svo sem arfgengum blöðrunýrnasjúkdómi, bráðri millivefsnýrnabólgu, sem getur verið vegna ofnæmisviðbragða við lyfjum, nýrnatotudrepi (e. papillary necorisis) eða drepi vegna sykursýkis-nýrnasjúkdóms.
Blóðmiga er í sjálfu sér ekki hættuleg og veldur ekki miklum blóðmissi. Hún getur hins vegar verið merki um undirliggjandi sjúkdóma og þess vegna ætti alltaf að leita til læknis ef blóð finnst í þvagi.
Þvagfærasýking getur valdið blóðmigu en önnur einkenni eru þá gjarnan tíð þvaglát, sterklyktandi þvag og sársauki við þvaglát. Ef sýking berst til nýrna með blóði eða upp eftir þvagleiðurum frá þvagblöðru og þvagrás, bætast oft við hiti og verkir í síðu. Nýrnasteinar og blöðrusteinar eru einnig nokkuð algeng orsök blóðmigu. Oftast eru þessir steinar einkennalausir en ef þeir fara á flakk og stífla þvagvegi valda þeir mjög miklum verk, ofast í síðu sem gjarnan leiðir aftur í bak og fólk getur orðið viðþolslaust af sársauka.
Stækkaður blöðruhálskirtill getur heft flæði þvags og valdið þvagtregðu, tíðum þvaglátum og oft einnig stórsærri blóðmigu. Blöðruhálskirtillinn liggur utan um ofanverða þvagrás rétt neðan við þvagblöðru í körlum og stækkar oft í kringum fimmtugt. Krabbamein í þvagvegum eða nýrum eru mögulegar ástæður blóðmigu, bæði stór- og smásærrar, sem nauðsynlegt er að útiloka við greiningu á undirliggjandi orsök eða sjúkdómi. Loks geta beinir áverkar á nýru valdið blóðmigu. Þessi upptalning er ekki tæmandi, en gefur hugmynd um þá fjölmörgu þætti sem geta legið að baki blóðmigu.
Við greiningu á orsök blóðmigu skal huga að aldri einstaklings, hvort hann hafi verið með sýkingu síðustu 1-3 vikur, hvort hann sé með verki, hvort breytingar hafi verið á þvaglátum hvað varðar tíðni, lykt og sársauka, hvort saga sé um áverka, hvort náinn fjölskyldumeðlimur sé með einhvers konar nýrnasjúkdóm, hvaða lyf einstaklingur tekur, hvort hann reyki, sé í blóðþynningarmeðferð, auk þess að huga að ýmsum fjölkerfasjúkdómum svo sem sykursýki og rauðum úlfum. Gera skal almenna líkamsskoðun og leita sérstaklega að háum blóðþrýstingi, bjúg, eymslum eða fyrirferðum í kvið, baki eða síðu og hvort útbrot eða liðbólgur séu til staðar, auk annarra hluta sem gætu skipt máli varðandi sögu og einkenni einstaklings.
Þvag má rannsaka með einföldu strimilprófi er greinir rauð blóðkorn, hvít blóðkorn, prótín, glúkósa, nítrít og sýrustig þvags. Að auki má gera smásjárskoðun á þvagi sem er nákvæmari rannsókn til staðfestingar á niðurstöðum strimilsprófs auk þess sem sjá má fleiri vísbendingar um uppruna blóðs í þvagi. Ef grunur er um þvagfærasýkingu skal gera þvagræktun til að finna bakteríuna sem veldur. Aðrar rannsóknir sem má gera eftir þörfum eru frumurannsókn á þvagi, sérstaklega ef grunur er um krabbamein, og myndgreiningar svo sem tölvusneiðmynd með eða án skuggaefnis, ómun, röntgenmynd með skuggaefni og segulómun. Blöðruspeglun er góð til að meta þvagrás og þvagblöðru, en þá er lítil myndavél þrædd upp þvagrás í þvagblöðru. Í erfiðum tilfellum getur þurft að taka sýni úr nýrum með grófri nál undir ómstýringu, en slík ástunga er ekki gerð ef sjúklingur er með einangraða blóðmigu án annarra einkenna. Ef engin skýring finnst skal einstaklingur vera í eftirliti hjá lækni, sérstaklega ef hann hefur áhættuþætti fyrir því að fá krabbamein í þvagvegi.
Mynd:
Þórdís Kristinsdóttir. „Af hverju pissar maður blóði?“ Vísindavefurinn, 17. mars 2014, sótt 3. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=61917.
Þórdís Kristinsdóttir. (2014, 17. mars). Af hverju pissar maður blóði? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=61917
Þórdís Kristinsdóttir. „Af hverju pissar maður blóði?“ Vísindavefurinn. 17. mar. 2014. Vefsíða. 3. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=61917>.