Þegar við eldumst hætta litfrumurnar í hársekkjunum smám saman að mynda melanín. Í raun verða hárin gegnsæ og gefur það þeim þennan gráa eða hvíta lit Á meðan eitthvað smávegis af litarefni er enn myndað virðist hárið grátt, en án alls litarefnis verður það hvítt. Þar sem hvert hár hefur sína eigin uppsprettu melaníns, grána einstök hár óháð hinum. Það getur því tekið nokkuð langan tíma fyrir einstakling að verða alveg gráhærður. Ekki er vitað hvers vegna litfrumurnar hætta smám saman að mynda melanín, en vitað er að litfrumur og sortukorn (e. melanosomes) finnast enn í hársekkjum grárra hára þótt ekkert melanín myndist lengur. Svo virðist sem litfrumurnar og sortukornin leggist í dvala. Hver veit nema að í framtíðinni verði hægt að snúa gránunarferlinu við ef hægt væri að fá lifrumurnar til að mynda melanín á nýjan leik. Eins og málum er háttað nú er því miður ekki hægt að gera nokkuð til að hægja á gránunarferlinu. Venjulega tekur gránunarferlið mörg ár en þó er þekktur mjög sjaldgæfur sjúkdómur (e. alopecia areata) þar sem fólk virðist grána á einni nóttu. Þetta er sjálfsofnæmissjúkdómur þar sem okkar eigin mótefni ráðast á litfrumurnar. Lituðu hárin skipta þó ekki um lit á einni nóttu, heldur veldur sjúkdómurinn því að lituðu hárin hrynja af höfðinu og aðeins þau gráu verða eftir. Þegar ný hár vaxa eru þau einnig grá. Talið er að Marie Antoinette Frakklandsdrottning hafi verið með þennan sjúkdóm.
Það er mjög misjafnt hvenær fólk byrjar að grána; sumir finna grá hár á höfðinu strax á þrítugsaldri en aðrir ekki fyrr en á sjötugsaldri. Karlar grána yfirleitt aðeins fyrr en konur, en meðalaldur karla þegar þeir byrja að grána er 30 ára en kvenna 35 ára. Ýmsir sjúkdómar og kvillar geta valdið því að hár gránar hjá ungu fólki, jafnvel allt niður í 8 ára aldur. Skortur á B12 vítamíni, ójafnvægi í starfsemi skjaldkirtils og blóðleysi geta valdið gráu hári fyrir aldur fram. Nýjar rannsóknarniðurstöður gefa til kynna að reykingamenn séu í fjórfalt meiri hættu á að grána snemma en þeir sem ekki reykja. Engu að síður eru það fyrst og fremst erfðir sem ráða því hversu snemma gráu hárin láta á sér kræla. Önnur svör á Vísindavefnum um háralit:
- Hvers vegna grána mannshár? eftir Bergþór Björnsson
- Af hverju fæðast sumir rauðhærðir og aðrir ljóshærðir, skolhærðir eða dökkhærðir? eftir JGÞ
- Eru litningar í rauðhærðum eitthvað gallaðir? eftir Þuríði Þorbjarnardóttur
- Popular Science
- MayoClinic.com
- Ask Yahoo
- Mynd af dökku og hvítu hári unnin upp úr myndum á: Henna For Hair
- Mynd af Taylor Hicks: Yahoo! Noticias