Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Af hverju eldumst við?

Pálmi V. Jónsson

Við fæðingu er fólk tiltölulega líkt í allri líkamsstarfsemi, en eftir því sem árin færast yfir verður það hvert öðru ólíkara. Þetta á einnig við um einstaklinginn sjálfan. Líffæri eldast mishratt og kemur þar til samspil umhverfis- og erfðaþátta. Þannig geta nýrun verið gömul en hjartað ungt! Við fæðingu er maðurinn ríkulega búinn líkamsvefjum en gengið er á þá eftir því sem á ævina líður. Þannig þola aldraðir æ minna álag með árunum og er það eitt af höfuðeinkennum ellinnar. Talið er að ellin eins og hún birtist skýrist að hálfu til tveimur þriðju hlutum af umhverfisáhrifum, til dæmis mataræði, mengun, - og að einum þriðja til helmingi af erfðaþáttum.

Ellibreytingar lýsa sér gjarnan sem færniskerðing, það er í minnkaðri hæfni einstaklingsins til þess að annast athafnir daglegs lífs, svo sem að ganga, klæða sig, baða sig og skylda hluti. Talað er um aldurstengdar breytingar í líffærum, en þeim til viðbótar koma síðan sjúkdómar, og áhrif af lyfjanotkun. Dæmi um aldurstengdar breytingar er beinþynning og minni hámarkshjartsláttartíðni við áreynslu. Heimsmet í maraþoni sem nú er innan við 2 klst. og 10 mínútur eru gjarnan sett af þeim sem eru á aldrinum 25-30 ára. Heimsmet í maraþoni aldraðra er um 4 klst. Þessi munur skýrist af aldurstengdum breytingum, þar sem aðeins þeir sem frískir eru ná því að setja heimsmet í íþróttum. Hins vegar má ekki rugla saman kyrrsetubreytingum og ellibreytingum, en þeim líkir mjög saman. Þannig er margt af því sem við sjáum og virðist við fyrstu sýn vera elli ekki svo, heldur fyrst og fremst vegna þess að viðkomandi hreyfir sig ekki. Regluleg líkamsrækt er því besta yngingarmeðalið og hefur jákvæð áhrif á alla líkamsstarfssemi.

Einstaklingar hefðu miklar líkur á því að deyja, jafnvel þó að þeir myndu ekki eldast. Slíkir einstaklingar létu lífið vegna sjúkdóma, hungurs eða slysa og það væri ekki þrýstingur á að varðveita breytingar í genum sem hefðu skaðleg áhrif seint á ævinni. Án elli væri dánartíðnin óháð lífaldri. Segja má að hönnun mannslíkamans gangi út á það að tryggja að maðurinn geti átt afkvæmi og komið því á legg, jafnvel þó að sú hönnun leiði til óhagstæðra áhrifa síðar á ævinni.

Þróunarkenningar spá því að nærri allar tegundir sýni ellibreytingar, þar sem dánaráhætta vex með tímanum. Þannig muni sum gen varðveitast umfram önnur með tímanum af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi væri þrýstingur á að varðveita gen sem hefðu hagstæð áhrif snemma á ævinni og þau gerðu þá meira en bæta upp hugsanleg skaðleg áhrif síðar á ævinni. Í öðru lagi væri enginn þrýstingur á að eyða genum sem hefðu áhrif, jafnvel skaðleg, mjög seint á ævinni. Sem dæmi mætti nefna að gen sem veldur kalkútfellingum getur stuðlað að hraðri beinabyggingu til þess að tryggja hreyfanleika snemma á ævinni, sem er jákvætt, en leitt síðar á ævinni til æðakölkunar, sem er óhagstætt.

Hjá manninum fara ellibreytingar fyrst að gera vart við sig um 30 ára aldurinn, setja mark sitt á manninn eftir 50 ára aldur og verða áberandi um eða eftir 70 ára aldur. Þá eru börnin löngu flogin að heiman og hafa eignast sín eigin börn. Og maðurinn sem tegund þróast áfram.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Höfundur

dósent í læknisfræði við HÍ

Útgáfudagur

11.2.2000

Spyrjandi

Birgir Smári Ársælsson, 14 ára

Tilvísun

Pálmi V. Jónsson. „Af hverju eldumst við?“ Vísindavefurinn, 11. febrúar 2000, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=86.

Pálmi V. Jónsson. (2000, 11. febrúar). Af hverju eldumst við? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=86

Pálmi V. Jónsson. „Af hverju eldumst við?“ Vísindavefurinn. 11. feb. 2000. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=86>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Af hverju eldumst við?
Við fæðingu er fólk tiltölulega líkt í allri líkamsstarfsemi, en eftir því sem árin færast yfir verður það hvert öðru ólíkara. Þetta á einnig við um einstaklinginn sjálfan. Líffæri eldast mishratt og kemur þar til samspil umhverfis- og erfðaþátta. Þannig geta nýrun verið gömul en hjartað ungt! Við fæðingu er maðurinn ríkulega búinn líkamsvefjum en gengið er á þá eftir því sem á ævina líður. Þannig þola aldraðir æ minna álag með árunum og er það eitt af höfuðeinkennum ellinnar. Talið er að ellin eins og hún birtist skýrist að hálfu til tveimur þriðju hlutum af umhverfisáhrifum, til dæmis mataræði, mengun, - og að einum þriðja til helmingi af erfðaþáttum.

Ellibreytingar lýsa sér gjarnan sem færniskerðing, það er í minnkaðri hæfni einstaklingsins til þess að annast athafnir daglegs lífs, svo sem að ganga, klæða sig, baða sig og skylda hluti. Talað er um aldurstengdar breytingar í líffærum, en þeim til viðbótar koma síðan sjúkdómar, og áhrif af lyfjanotkun. Dæmi um aldurstengdar breytingar er beinþynning og minni hámarkshjartsláttartíðni við áreynslu. Heimsmet í maraþoni sem nú er innan við 2 klst. og 10 mínútur eru gjarnan sett af þeim sem eru á aldrinum 25-30 ára. Heimsmet í maraþoni aldraðra er um 4 klst. Þessi munur skýrist af aldurstengdum breytingum, þar sem aðeins þeir sem frískir eru ná því að setja heimsmet í íþróttum. Hins vegar má ekki rugla saman kyrrsetubreytingum og ellibreytingum, en þeim líkir mjög saman. Þannig er margt af því sem við sjáum og virðist við fyrstu sýn vera elli ekki svo, heldur fyrst og fremst vegna þess að viðkomandi hreyfir sig ekki. Regluleg líkamsrækt er því besta yngingarmeðalið og hefur jákvæð áhrif á alla líkamsstarfssemi.

Einstaklingar hefðu miklar líkur á því að deyja, jafnvel þó að þeir myndu ekki eldast. Slíkir einstaklingar létu lífið vegna sjúkdóma, hungurs eða slysa og það væri ekki þrýstingur á að varðveita breytingar í genum sem hefðu skaðleg áhrif seint á ævinni. Án elli væri dánartíðnin óháð lífaldri. Segja má að hönnun mannslíkamans gangi út á það að tryggja að maðurinn geti átt afkvæmi og komið því á legg, jafnvel þó að sú hönnun leiði til óhagstæðra áhrifa síðar á ævinni.

Þróunarkenningar spá því að nærri allar tegundir sýni ellibreytingar, þar sem dánaráhætta vex með tímanum. Þannig muni sum gen varðveitast umfram önnur með tímanum af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi væri þrýstingur á að varðveita gen sem hefðu hagstæð áhrif snemma á ævinni og þau gerðu þá meira en bæta upp hugsanleg skaðleg áhrif síðar á ævinni. Í öðru lagi væri enginn þrýstingur á að eyða genum sem hefðu áhrif, jafnvel skaðleg, mjög seint á ævinni. Sem dæmi mætti nefna að gen sem veldur kalkútfellingum getur stuðlað að hraðri beinabyggingu til þess að tryggja hreyfanleika snemma á ævinni, sem er jákvætt, en leitt síðar á ævinni til æðakölkunar, sem er óhagstætt.

Hjá manninum fara ellibreytingar fyrst að gera vart við sig um 30 ára aldurinn, setja mark sitt á manninn eftir 50 ára aldur og verða áberandi um eða eftir 70 ára aldur. Þá eru börnin löngu flogin að heiman og hafa eignast sín eigin börn. Og maðurinn sem tegund þróast áfram.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:...