Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Notar íslenska lögreglan lygamæla og standast slíkar mælingar fyrir dómstólum?

Ragnar Guðmundsson

Eftir því sem höfundur kemst næst eru lygamælar ekki notaðir á Íslandi og alls ekki á neinn almennan og skipulagðan hátt. Það er hins vegar fróðlegt er að velta fyrir sér sönnunargildi slíkra upplýsinga.

Rétt er að árétta í upphafi að ekki er hægt að neyða mann til að gangast undir próf með lygamæli, enda er sakborningi á öllum stigum opinbers máls óskylt að svara spurningum sem varða refsiverða hegðun sem honum er gefin að sök, samkvæmt 3. mgr. 32. gr. laga nr. 19/1991.

Að því sögðu er rétt að fjalla stuttlega um reglur um sönnunarbyrði á Íslandi. Þær eru frekar einfaldar og mun frjálslegri en til dæmis reglur um sönnunarbyrði í Bandaríkjunum. Á Íslandi er einkum stuðst við þrjár grundvallarreglur sem varða sönnun og sönnunargögn.

Í fyrsta lagi er það reglan um sönnunarbyrði ákæruvaldsins sem birtist í 45. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála:
Sönnunarbyrði um sekt sakbornings og atvik, sem telja má honum í óhag, hvílir á ákæruvaldinu.
Þetta felur í sér að ákæruvaldið þarf að sanna sekt ákærða svo hafið sé yfir skynsamlegan vafa, en hinn ákærði þarf ekki að sanna að hann sé saklaus ef svo má að orði komast. Af því leiðir að hlutverk verjanda snýst að mestu um að vefengja þau atriði sem saksóknari leggur fram til sönnunar á sekt ákærða.

Í öðru lagi er reglan um milliliðalausa sönnunarfærslu, en hún kemur einkum fram í 48. gr. fyrrgreindra laga um meðferð opinberra mála, en hefur einnig verið leidd af 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.
  1. Dómur skal reistur á sönnunargögnum sem færð eru fram við meðferð máls fyrir dómi.
  2. Dómara er heimilt að taka til greina sem sönnunargögn skýrslur sem ákærði, brotaþoli eða vitni hafa gefið fyrir dómi áður en mál var höfðað skv. 74. gr. a og 105. gr. Þó skulu skýrslugjafar koma á ný fyrir dóm við málsmeðferð ef þess er kostur og annar hvor málsaðili krefst eða dómari telur annars ástæðu til. Ef um er að ræða brot á XXII. kafla almennra hegningarlaga og brotaþoli hefur ekki náð 18 ára aldri skal hann þó ekki koma fyrir dóm að nýju nema dómari telji sérstaka ástæðu til.
  3. Nú hefur vitni ekki komið fyrir dóm og þess er ekki kostur við meðferð málsins, en skýrsla hefur verið gefin fyrir lögreglu eða öðrum rannsóknaraðila, og metur dómari þá hvort slík skýrsla hafi sönnunargildi og þá hvert gildi hennar sé.
Reglan felur þannig í sér að sakfelling verður ekki byggð á vitnisburði, skýrslu eða öðrum gögnum, nema þau séu færð fyrir dómara málsins milliliðalaust. Þannig hafa til dæmis vitnaskýrslur og yfirheyrslur hjá lögreglu ekkert fortakslaust sönnunargildi! Slíkar skýrslur er einungis hægt að nota til að varpa ljósi á málsatvik. Það er svo hins vegar dómarans að meta trúverðugleika sakbornings.

Þriðja meginreglan um sönnun birtist í 46. og 47. grein laga nr. 19/1991, og hefur verið kölluð reglan um frjálst sönnunarmat dómara.
46. gr. Dómari metur hverju sinni hvort nægileg sönnun, sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum, sé fram komin um hvert það atriði sem varðar sekt og ákvörðun viðurlaga við broti, þar á meðal hvaða sönnunargildi skýrslur ákærða hafi, vitnisburðir, mats- og skoðunargerðir, skjöl og önnur sýnileg sönnunargögn.

47. gr. Dómari metur það eftir atvikum hvert sönnunargildi þær staðreyndir hafi sem varða ekki beinlínis það atriði sem sanna skal, en ályktanir má leiða af um það.

Það er þannig lagt alfarið í hendur dómara málsins hverju sinni að meta sönnunargildi og þar með trúverðugleika vitna og sakborninga. Rétt er að taka fram að í sakamálum þar sem sakborningur neitar sök og sýnt þykir að dómurinn muni að miklu leyti byggjast á munnlegum framburði fyrir dómi, eru skipaðir þrír héraðsdómarar í stað eins. Í hæstarétti eru yfirleitt fimm dómarar í refsimálum.

Þannig væri það líklega undir hverjum og einum dómara komið hvaða tillit hann tæki til upplýsinga sem aflað væri með hjálp lygamælis. Það er þó nokkuð víst að sakfelling verður ekki byggð á slíkum upplýsingum eða framburði einum og sér nema framburðurinn yrði staðfestur í dómssal fyrir dómaranum sjálfum, ef tekið er tillit til reglunnar um milliliðalausa sönnunarfærslu.

Það er því ekkert sem beint bannar notkun lygamælis hér á landi eða að gögn úr slíku prófi séu lögð fram í dómsmáli, en telja verður afskaplega ólíklegt að íslenskir dómarar leggi nokkuð upp úr slíkum upplýsingum með vísan til þess hversu ónákvæmt tæki lygamælir er.

Nánar má lesa um lygamæla í svari Jóns Gunnars Þorsteinssonar við spurningunni: Eru lygamælar til og ef svo er hvernig verka þeir?.

Hægt er að lesa meira um sakamál í svari Arndísar Önnu Gunnarsdóttur við spurningunni: Hvað eru sakamál?

Höfundur

nemi í lögfræði við HÍ

Útgáfudagur

11.9.2006

Spyrjandi

Magnús Jón

Tilvísun

Ragnar Guðmundsson. „Notar íslenska lögreglan lygamæla og standast slíkar mælingar fyrir dómstólum?“ Vísindavefurinn, 11. september 2006, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=6182.

Ragnar Guðmundsson. (2006, 11. september). Notar íslenska lögreglan lygamæla og standast slíkar mælingar fyrir dómstólum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=6182

Ragnar Guðmundsson. „Notar íslenska lögreglan lygamæla og standast slíkar mælingar fyrir dómstólum?“ Vísindavefurinn. 11. sep. 2006. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=6182>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Notar íslenska lögreglan lygamæla og standast slíkar mælingar fyrir dómstólum?
Eftir því sem höfundur kemst næst eru lygamælar ekki notaðir á Íslandi og alls ekki á neinn almennan og skipulagðan hátt. Það er hins vegar fróðlegt er að velta fyrir sér sönnunargildi slíkra upplýsinga.

Rétt er að árétta í upphafi að ekki er hægt að neyða mann til að gangast undir próf með lygamæli, enda er sakborningi á öllum stigum opinbers máls óskylt að svara spurningum sem varða refsiverða hegðun sem honum er gefin að sök, samkvæmt 3. mgr. 32. gr. laga nr. 19/1991.

Að því sögðu er rétt að fjalla stuttlega um reglur um sönnunarbyrði á Íslandi. Þær eru frekar einfaldar og mun frjálslegri en til dæmis reglur um sönnunarbyrði í Bandaríkjunum. Á Íslandi er einkum stuðst við þrjár grundvallarreglur sem varða sönnun og sönnunargögn.

Í fyrsta lagi er það reglan um sönnunarbyrði ákæruvaldsins sem birtist í 45. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála:
Sönnunarbyrði um sekt sakbornings og atvik, sem telja má honum í óhag, hvílir á ákæruvaldinu.
Þetta felur í sér að ákæruvaldið þarf að sanna sekt ákærða svo hafið sé yfir skynsamlegan vafa, en hinn ákærði þarf ekki að sanna að hann sé saklaus ef svo má að orði komast. Af því leiðir að hlutverk verjanda snýst að mestu um að vefengja þau atriði sem saksóknari leggur fram til sönnunar á sekt ákærða.

Í öðru lagi er reglan um milliliðalausa sönnunarfærslu, en hún kemur einkum fram í 48. gr. fyrrgreindra laga um meðferð opinberra mála, en hefur einnig verið leidd af 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.
  1. Dómur skal reistur á sönnunargögnum sem færð eru fram við meðferð máls fyrir dómi.
  2. Dómara er heimilt að taka til greina sem sönnunargögn skýrslur sem ákærði, brotaþoli eða vitni hafa gefið fyrir dómi áður en mál var höfðað skv. 74. gr. a og 105. gr. Þó skulu skýrslugjafar koma á ný fyrir dóm við málsmeðferð ef þess er kostur og annar hvor málsaðili krefst eða dómari telur annars ástæðu til. Ef um er að ræða brot á XXII. kafla almennra hegningarlaga og brotaþoli hefur ekki náð 18 ára aldri skal hann þó ekki koma fyrir dóm að nýju nema dómari telji sérstaka ástæðu til.
  3. Nú hefur vitni ekki komið fyrir dóm og þess er ekki kostur við meðferð málsins, en skýrsla hefur verið gefin fyrir lögreglu eða öðrum rannsóknaraðila, og metur dómari þá hvort slík skýrsla hafi sönnunargildi og þá hvert gildi hennar sé.
Reglan felur þannig í sér að sakfelling verður ekki byggð á vitnisburði, skýrslu eða öðrum gögnum, nema þau séu færð fyrir dómara málsins milliliðalaust. Þannig hafa til dæmis vitnaskýrslur og yfirheyrslur hjá lögreglu ekkert fortakslaust sönnunargildi! Slíkar skýrslur er einungis hægt að nota til að varpa ljósi á málsatvik. Það er svo hins vegar dómarans að meta trúverðugleika sakbornings.

Þriðja meginreglan um sönnun birtist í 46. og 47. grein laga nr. 19/1991, og hefur verið kölluð reglan um frjálst sönnunarmat dómara.
46. gr. Dómari metur hverju sinni hvort nægileg sönnun, sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum, sé fram komin um hvert það atriði sem varðar sekt og ákvörðun viðurlaga við broti, þar á meðal hvaða sönnunargildi skýrslur ákærða hafi, vitnisburðir, mats- og skoðunargerðir, skjöl og önnur sýnileg sönnunargögn.

47. gr. Dómari metur það eftir atvikum hvert sönnunargildi þær staðreyndir hafi sem varða ekki beinlínis það atriði sem sanna skal, en ályktanir má leiða af um það.

Það er þannig lagt alfarið í hendur dómara málsins hverju sinni að meta sönnunargildi og þar með trúverðugleika vitna og sakborninga. Rétt er að taka fram að í sakamálum þar sem sakborningur neitar sök og sýnt þykir að dómurinn muni að miklu leyti byggjast á munnlegum framburði fyrir dómi, eru skipaðir þrír héraðsdómarar í stað eins. Í hæstarétti eru yfirleitt fimm dómarar í refsimálum.

Þannig væri það líklega undir hverjum og einum dómara komið hvaða tillit hann tæki til upplýsinga sem aflað væri með hjálp lygamælis. Það er þó nokkuð víst að sakfelling verður ekki byggð á slíkum upplýsingum eða framburði einum og sér nema framburðurinn yrði staðfestur í dómssal fyrir dómaranum sjálfum, ef tekið er tillit til reglunnar um milliliðalausa sönnunarfærslu.

Það er því ekkert sem beint bannar notkun lygamælis hér á landi eða að gögn úr slíku prófi séu lögð fram í dómsmáli, en telja verður afskaplega ólíklegt að íslenskir dómarar leggi nokkuð upp úr slíkum upplýsingum með vísan til þess hversu ónákvæmt tæki lygamælir er.

Nánar má lesa um lygamæla í svari Jóns Gunnars Þorsteinssonar við spurningunni: Eru lygamælar til og ef svo er hvernig verka þeir?.

Hægt er að lesa meira um sakamál í svari Arndísar Önnu Gunnarsdóttur við spurningunni: Hvað eru sakamál?

...