
Í stað beinna áhrifa af notkun og notkunarleysi útskýrði Darwin í bók sinni Uppruni tegundanna (1859) slíka eiginleika með náttúrlegu vali. Darwin átti reyndar í erfiðleikum með þessi áhrif og útilokaði ekki hugmyndir Lamarcks. Það var ekki fyrr en síðar að áhrif náttúrlegs vals voru nánar útskýrð og þá með erfðafræðilögmálum Mendels. Áhrif náttúrlegs vals má að stórum hluta skipta í jákvætt og neikvætt val. Vegna jákvæðs vals eykst tíðni gagnlegra eiginleika og það getur leitt til aðlagana lífvera að umhverfi sínu. Neikvætt eða hreinsandi val velur hins vegar gegn breytingum sem eru skaðlegar og getur því viðhaldið aðlögun sem byggst hefur upp á löngum tíma. Val getur einnig verið fyrir niðurbroti eiginleika ef það er gagnlegt. Darwin tók dæmi í bók sinni Uppruna tegundanna um bjöllur á Madeira sem höfðu glatað vængjum sínum þar sem þær hefðu meiri hæfni (lífslíkur og frjósemi) en vængjaðar bjöllur sem ættu á hættu að fjúka á haf út frá búsvæðum sínum. Ef eiginleiki skiptir ekki máli lengur geta stökkbreytingar safnast þar fyrir án þess að hafa áhrif á lífslíkur eða frjósemi einstaklinganna og brotið niður eiginleikann. Þannig hafa augu og sjón hjá lífverum sem lifa neðanjarðar horfið hjá fjölmörgum tegundum, slík þróun er dæmi um að hreinsandi áhrif af neikvæðu náttúrlegu vali hafa minnkað eða horfið, frekar en að lífshlaup einstaklinganna kalli fram þessar þróunarbreytingar, eins og Lamarck mundi hafa sagt. Nýlega hefur áhugi aftur vaknað á erfðum eiginleika sem mótast af reynslu foreldra. Dæmi um slíkt er vegna utangenaerfða (e. epigenetics) og móðuráhrifa en afkvæmi erfa ekki eingöngu erfðaefni frá foreldrum sínum heldur einnig umfrymi og orkuforða eggfrumu, og hjá fóstrum, þeirri orku sem þau fá frá móður sinni. Slíkur orkuforði og upptaka orku getur haft áhrif á afkvæmi í þroska þeirra. Móðuráhrifin eru einnig talin geta haft áhrif á bindingu svonefndra metylhópa við einstök gen sem geta haft áhrif á hversu mikið þau eru tjáð. Hversu miklu máli slíkt getur skipt fyrir afdrif einstaklinga getur verið breytilegt milli tegunda en nefna má áhrif af hrognastærð hjá bleikjum sem getur verið mjög breytileg, bæði milli hrygna og hjá sömu hrygnu. Það getur haft áhrif á stærð afkvæma. Þekkt er að afkvæmi blaðlúsa og vatnaflóa eru mismunandi eftir ástandi mæðra. Báðir tegundahóparnir fjölga sér kynlaust með meyfæðingum þegar aðstæður eru hagstæðar en þegar harðnar í ári, þéttleiki eykst eða ástand umhverfisins versnar, fæðast karldýr hjá mörgum þessara tegunda og afkvæmi blaðlúsanna fá vængi. Slík dæmi eru þó ekki dæmi um áunnar erfðir þótt um utangenaerfðir sé að ræða, þar sem afkvæmin eru ólík foreldrum, heldur eru frekar dæmi um sveigjanlegar aðlaganir (e. plasticity). Ekki hefur verið staðfest hvort utangenaerfðir sem tilkomnar eru vegna umhverfisáhrifa erfist áfram milli kynslóða og því er óljóst hvort slíkar erfðir skipti einhverju til langframa eða fyrir þróun tegunda. Þá hefur einnig komið í ljós að metylering á ákveðnum svæðum erfðamengisins hafi þróast vegna náttúrlegs vals frekar en vegna umhverfisáhrifa, þannig að slíkir eiginleikar eru ekki endilega frábrugðnir öðrum eiginleikum erfðamengisins. Mynd:
- As Many Exceptions As Rules: When Evolution Goes Sideways – Sea slug hybrids, part 3. (Sótt 27. 1. 2014).