Getur þú sagt mér allt um gíraffa? Meðal annars hvar hann lifir, stærð, lögun, útlit og fleira? Hvað er merkilegast við gíraffa? Eru til dæmis blettirnir eins á öllum? Er gíraffi jurtaæta? Hvert er fæðuval hans? Er hann nokkuð í útrýmingarhættu? Hvernig fer mökun fram?Rómverjar nefndu gíraffa (Giraffa camelopardalis) „blettótta kameldýrið“ enda fannst Rómverjum þeir minna mjög á kameldýr, þó hálslengri væru. Gíraffinn er mjög áberandi dýr á sínu búsvæði, enda einstaklega hávaxinn og raunar hæstur núlifandi spendýra. Hann gnæfir yfir önnur dýr á gresjum Afríku. Talsverður stærðarmunur er á kven- og karldýrum. Karldýrin eru frá 4,6-5,5 metrar á hæð og vega 800-1930 kg, en kvendýrin eru frá 4-4,8 m á hæð og vega 550-1180 kg. Hæðin liggur fyrst og fremst í afar löngum hálsi en skrokkurinn er hlutfallslega stuttur miðað við hálslengdina. Gíraffinn er einnig ákaflega leggjalangur og virðist ganga á stultum. Líkamsstelling hans er sérstök þegar hann drekkur vatn. Þá leggur hann framfæturna til hliðar og beygir sig niður að vatninu.

Flokkunarfræðilega tilheyrir gíraffinn ættbálki klaufdýra (Artiodactyla) og ættinni Giraffidae, en aðeins ein önnur dýrategund er í þeirri ætt, ókapinn (Okapia Johnston) sem finnst í þéttum skógum í Mið-Afríku. Gíröffum hefur verið skipt niður í níu deilitegundir og lifa þær allar sunnan Sahara í Afríku. Skipting tegundarinnar í deilitegundir byggist fyrst og fremst á mynstri deplanna á feldi dýranna og formum hornanna. Sumar deilitegundir gíraffa hafa tvö stutt horn á kollinum en aðrar eru með fjögur stutt horn. Hjá nyrstu deilitegundinni er að finna útvöxt á beini milli augntóftanna sem er ámóta langur og hornin. Mynstrið á feldi gíraffa er einstaklingsbundið líkt og fingraför okkar mannfólksins, og hægt er að þekkja einstaklinga hvern frá öðrum á sérkennum í mynstri deplanna á feldinum. Fax vex niður eftir miðlægum hnakka gíraffans.


Gíraffar verða kynþroska við 3-4 ára aldur. Mökunaratferli gíraffa líkist því sem þekkist meðal annarra klaufdýra og hófdýra, til dæmis hrossa. Karldýrið tekur sér stöðu aftan við kvendýrið, fer þaðan uppá það og kemur getnaðarlimnum inn í leggöng kvendýrsins í þeirri stellingu. Sérstakt er hinsvegar þegar karldýrin keppa um hylli kvendýranna. Þá berjast þau hvort við annað með því að sveifla hálsunum til hliðar og nota háls og haus sem einhvers konar kylfur og kylfuhausa. Gíraffar eru enn mjög algengir í austanverðri Afríku og þeir eru friðaðir þar. Annars staðar er friðun ekki eins ströng og þar eru þeir vinsæl veiðibráð. Á sumum svæðum hefur stofnstærðin minnkað mjög, mest vegna ólöglegra veiða. Taka má Angóla sem dæmi, en áratuga borgarastyrjöld þar olli því að veiði á villtum dýrum varð stjórnlaus, með þeim afleiðingum að margir stofnar hurfu alveg. Ekki hef ég fundið neinar upplýsingar um heildarstofnstærð gíraffans en hún hleypur eflaust á nokkrum tugum þúsunda dýra. Helsti óvinur gíraffans er maðurinn sem veiðir þúsundir dýra árlega. Ljón veiða einnig gíraffa og stórir blettahýenuhópar geta verið þeim hættulegir.
Myndir: