Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Carambolatréð (Averrhoa carambola) er upprunnið í Austur-Indónesíu (Sri Lanka og Mólúkkaeyjum). Þetta er þétt, sumargrænt tré sem nær um það bil 6-9 metra hæð og gefur af sér ávöxt sem einnig er nefndur Carambola. Tréð vex á heitum og rökum slóðum þar sem rigning er nokkuð jöfn allt árið. Stálpuð tré þola vægt frost en ungplöntur eru hins vegar mjög viðkvæmar fyrir kulda. Tréð þolir einnig ýmsar jarðvegsgerðir svo lengi sem jarðvegurinn er ekki vatnssósa, það er að frárennsli vatns sé stöðugt. Tréð dafnar því vel í hitabeltinu og í heittempruðu loftslagi og er í dag ræktað mjög víða á þessum svæðum, meðal annars í Kína, á Indlandi og syðst í Bandaríkjunum, auk Indónesíu.
Tréð blómgast hvítum blómum sem vaxa ýmist á berum greinunum eða við stilk laufblaða. Trén bera svo ávöxt yfirleitt tvisvar á ári og er Carambola-ávöxturinn oft nefndur stjörnuávöxtur vegna einkennandi lögunar sinnar. Hann er um það bil 15 cm langur og 9 cm breiður og nokkurn veginn ávalur í laginu með fimm áberandi kamba sem teygja sig eftir honum endilöngum. Þegar skorið er þvert á stefnu kambanna myndast stjörnulaga skífa sem er mjög vinsæl sem skraut í matargerð.
Þegar skorið er þvert á Carambola ávöxtinn myndast stjörnulaga skífa. Carambola er því einnig kallaður stjörnuávöxtur.
Ávöxturinn er þakinn þunnri vaxkenndri húð sem er ýmist græn, gul-græn eða gul á litinn. Stjörnuávöxturinn er grænn þegar hann myndast en verður gulari eftir því sem hann þroskast. Hann er þó vel ætur á hvoru stiginu sem er, en er hins vegar ólíkur á bragðið eftir þroskastigi og er einkum borðaður gulur. Ávöxturinn gefur af sér besta bragðið ef hann fær að þroskast fyllilega á sjálfu trénu. Eftir það þroskast hann áfram en gerir það hægar. Best er að ganga úr skugga um sætumagnið með því að bragða ávöxtinn. Ræktuð hafa verið fjöldamörg afbrigði stjörnuávaxtarins víða um heim. Þau bera öll sömu megineinkennin en eru nokkuð breytileg innbyrðis hvað varðar einstaka þætti. Þeim er einkum skipt í sæt og súr afbrigði.
Stjörnuávöxturinn er býsna vatnsríkur og frískandi ávöxtur. Hann er sætur á bragðið (ekkert ósvipað peru eða epli) en á það þó til að vera örlítið súr og fer það nokkuð eftir litbrigðum og þroskastigi. Aldinkjötið er stökkt, örlítið mjölkennt viðkomu og heldur safanum vel þegar ávöxturinn er skorinn. Aldinkjötið er vel ætt hvort sem það er borðað ferskt eða meðhöndlað. Vegna sérstakrar lögunar sinnar er hann afar vinsæll sem skraut með mat en það gleymist oft hversu bragðgóður hann er einn og sér. Hann má hæglega borða í heilu lagi og eru fræin mjúk undir tönn. Ávöxturinn er einna mest notaður í eftirrétti eins og tertur og búðinga. Þekkt dæmi eru um notkun hans í kássur, karrísósur, meðlæti með fiski og sem efni í sultu. Safinn úr ávextinum er einnig frískandi sem svaladrykkur.
Ávöxturinn geymist ágætlega í kæli í 1-3 vikur. Það þarf að gæta þess sérstaklega að hlífa honum við hnjaski í flutningi þar sem brúnin á kömbunum merst mjög auðveldlega. Reyndar má líta svo á að hlutverk kambanna sé einmitt að hlífa innri hluta ávaxtarins. Neysla stjörnuávaxtar ekki á neina forvinnu, hann þarf hvorki að flysja né kjarnhreinsa.
Stjörnuávöxturinn er nokkuð auðugur af C-vítamíni. Í honum er einnig oxalsýra sem varasöm þeim sem eiga við þvagsýrugigt eða liðagigt að etja. Oxalsýra á einnig ríkan þátt í myndun nýrnasteina. Almennt er neysla ávaxta með oxalsýru ekki talin skaðleg þeim sem lausir eru við ofangreinda kvilla, en þó er þörf á frekari rannsóknum á þessu sviði. Safann úr stjörnuávexti má einnig nota til að hreinsa leður, pússa málma og ná burt ryði. Þar er oxalsýran fyrst og fremst að verki, en hún nýtist einnig til litarefnagerðar.
Ávöxturinn hefur einnig verið nýttur í margs konar náttúrulækningar víða um heim. Á Indlandi er mönnum ráðlagt að borða stjörnuávöxt til að halda aftur af blæðingu, þá einkum gegn gyllinæð. Úr ávextinum er einnig búið til krem sem notað er gegn augnsýkingum. Í Brasilíu er mælt með neyslu ávaxtarins til að örva þvagmyndun en þar í landi er hann einnig talinn hafa góð áhrif á exem. Ávöxturinn er einnig af mörgum talinn vinna gegn timburmönnum og slá á hitasótt.
Frekara lesefni á Vísindavefnum:
Þorsteinn G. Berghreinsson. „Hvað getið þið sagt mér um stjörnuávöxt?“ Vísindavefurinn, 14. ágúst 2006, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=6123.
Þorsteinn G. Berghreinsson. (2006, 14. ágúst). Hvað getið þið sagt mér um stjörnuávöxt? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=6123
Þorsteinn G. Berghreinsson. „Hvað getið þið sagt mér um stjörnuávöxt?“ Vísindavefurinn. 14. ágú. 2006. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=6123>.