Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Til þess að svara því hvort meiðsli séu algeng í knattspyrnu þurfum við að setja okkur einhver viðmið. Hvað teljum við að sé algengt og við hvað á að miða? Hvernig eigum við til dæmis að geta borið saman ólíkar íþróttagreinar með tilliti til tíðni meiðsla? Það er ekki nóg að telja meiðslin og bera saman milli greina né nota hlutföll. Taka verður tillit til fjölda einstaklinga og þess tíma sem íþróttamenn stunda íþrótt sína, bæði á æfingum og í keppni.
Sú aðferð sem mest hefur verið notuð á síðari árum til að bera saman tíðni meiðsla er að bera saman meiðsli á hverjar 1000 klukkustundir á æfingu og í leik. Dæmi:
Hver knattspyrnuleikur er 90 mínútur (ef ekki er framlengt) og í hvoru liði eru 11 leikmenn. Gefum okkur að 4 meiðsli hafi orðið hjá einu liði í 8 leikjum. Samanlagður tími leikmanna liðsins í þessum 8 leikjum er þá: 8 leikir x 90 mín x 11 leikmenn = 7920 mínútur eða 132 klukkustundir. Það urðu því 4 meiðsli á 132 klukkustundum hjá leikmönnum þessa liðs sem gerir 4/132x1000 = 30,3 meiðsli á hverjar 1000 klukkustundir í leik.
Tíðni meiðsla í knattspyrnu karla í efstu deildum í Evrópu er á bilinu 23,9 - 35,3 meiðsli á hverjar 1000 klukkustundir í leikjum og 2,1 - 4,1 á hverjar 1000 klukkustundir á æfingum (Arnason o.fl., 2004; Fuller o.fl., 2007a, b; Hagglund o.fl., 2009). Í kvennaknattspyrnu er tíðni meiðsla hins vegar 16,1 – 24,0 meiðsli/1000 klukkustundir í leik og 2,8 - 3,8 meiðsli/1000 klukkustundir á æfingum (Fuller o.fl., 2007a, b; Hagglund o.fl., 2009). Meiðsli í knattspyrnuleikjum eru töluvert algengari en sjá má til dæmis í handknattleik og körfuknattleik, en færri en til dæmis í amerískum fótbolta. Aftur á móti er minni munur á tíðni meiðsla á æfingum í þessum íþróttagreinum (Hootman o.fl., 2007).
Meiðsli í fótbolta eru töluvert algengari en í handknattleik og í körfuknattleik. Hættan á meiðslum meðal atvinnumanna í knattspyrnu er langt yfir þeim mörkum sem talin væru ásættanleg við verksmiðjuvinnu og vinnu við smíðar.
Tíðni meiðsla í knattspyrnu eykst með hærri aldri. Rannsóknir sýna að tíðni meiðsla meðal barna og unglinga eykst eftir því sem þau verða eldri. Hjá 17-19 ára unglingum í háum gæðaflokki er tíðni meiðsla sambærileg og hjá einstaklingum í meistaraflokki (Hawkins and Fuller, 1999; Inklaar o.fl., 1996). Eldri leikmenn meistaraflokka hafa svo venjulega hærri meiðslatíðni en þeir sem yngri eru (Arnason o.fl., 2004), en stundum má skrifa það á þjálfunaraðferðir sem henta þeim ef til vill síður en þeim sem yngri eru.
Ef hins vegar áhætta á meiðslum í atvinnumanna knattspyrnu er borin saman við áhættu á meiðslum í annarri vinnu kemur fram að hætta á því að meiðast við knattspyrnuiðkun er langt yfir þeim mörkum sem talinn væru ásættanleg til dæmis við vinnu í verksmiðjum, smíðavinnu og fleiru (Drawer og Fuller, 2002). Af þessu má sjá að flest viðmið, hvort sem um er að ræða algengar íþróttir eða vinnu, benda á að meiðsli í knattspyrnu séu algeng.
Þrír algengustu flokkar meiðsla í knattspyrnu eru liðbandatognanir, vöðvatognanir og maráverkar. Ef við horfum á einstakar tegundir meiðsla eru algengustu meiðslin í knattspyrnu karla vöðvatognanir í aftanlærisvöðvum og fast á eftir fylgja vöðvatognanir í nárum, en þar á eftir koma liðbandatognanir í ökklum og hnjám. Í knattspyrnu kvenna eru vöðvatognanir aftanvert í lærum og liðbandatognanir í ökklum algengust, en fast á eftir fylgja liðbandameiðsli í hnjám (Arnason et al., 2004; Hagglund o.fl., 2009). Þess ber þó að geta að alvarleg meiðsli í hnjám eins og slit á fremra krossbandi eru að minnsta kosti 4-6 sinnum algengari meðal kvenna en karla (Hewetto.fl., 2006).
Heimildir og mynd:
Arnason A, Sigurdsson SB, Gudmundsson A, Holme I, Engebretsen L, Bahr R: Risk factors for injuries in football. Am J Sports Med 2004;32:5S-16S.
Drawer S, Fuller CW: Evaluating the level of injury in English professional football using a risk based assessment process. Br J Sports Med 2002;36:446-451.
Fuller CW, Dick RW, Corlette J, Schmalz R: Comparison of the incidence, nature and cause of injuries sustained on grass and new generation artificial turf by male and female football players. Part 2: training injuries. Br J Sports Med 2007a;41 Suppl 1:i27-32.
Fuller CW, Dick RW, Corlette J, Schmalz R: Comparison of the incidence, nature and cause of injuries sustained on grass and new generation artificial turf by male and female football players. Part 1: match injuries. Br J Sports Med 2007b;41 Suppl 1:i20-26.
Hagglund M, Walden M, Ekstrand J: Injuries among male and female elite football players. Scand J Med Sci Sports 2009;19:819-827.
Hawkins RD, Fuller CW: A prospective epidemiological study of injuries in four English professional football clubs. Br J Sports Med 1999;33:196-203.
Hewett TE, Myer GD, Ford KR: Anterior cruciate ligament injuries in female athletes: Part 1, mechanisms and risk factors. Am J Sports Med 2006;34:299-311.
Hootman JM, Dick R, Agel J: Epidemiology of collegiate injuries for 15 sports: summary and recommendations for injury prevention initiatives. J Athl Train 2007;42:311-319.
Inklaar H, Bol E, Schmikli SL, Mosterd WL: Injuries in male soccer players: team risk analysis. Int J Sports Med 1996;17:229-234.
Árni Árnason. „Eru fótboltameiðsli mjög algeng og hver eru algengustu meiðslin hjá knattspyrnumönnum?“ Vísindavefurinn, 19. nóvember 2013, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=61210.
Árni Árnason. (2013, 19. nóvember). Eru fótboltameiðsli mjög algeng og hver eru algengustu meiðslin hjá knattspyrnumönnum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=61210
Árni Árnason. „Eru fótboltameiðsli mjög algeng og hver eru algengustu meiðslin hjá knattspyrnumönnum?“ Vísindavefurinn. 19. nóv. 2013. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=61210>.