Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað getið þið sagt mér um haustfeta?

Erling Ólafsson

Haustfeti (Operophtera brumata) er fiðrildategund af ætt feta (Geometridae). Í Evrópu er útbreiðsla hans frá Miðjarðarhafi til nyrstu slóða Skandinavíu, austur um Asíu norðan fjallgarðanna miklu til Japans. Auk þess er hann innfluttur til Nova Scotia í Kanada. Á Íslandi finnst hann um sunnanvert landið frá Borgarfirði og austur í Lón en stakir og einangraðir fundarstaðir í öðrum landshlutum eru Bíldudalur, Akureyri og Egilsstaðir.

Haustfeti finnst í birkiskógum og kjarri á útbreiðslusvæðinu á sunnanverðu landinu auk þess að vera algengur í húsagörðum í byggð. Á norðanverðu landinu finnst hann einungis í húsagörðum í þéttbýli. Lirfur éta laufblöð á ýmsum trjátegundum, meðal annars birki (Betula pubescens), reyniviði (Sorbus acuparia), víði (Salix) og kirsuberjatrjám (Prunus). Einnig er fjöldi runna á matseðlinum. Fiðrildin eru á ferli á haustin, frá miðjum september og langt fram eftir nóvember. Kvendýrin verpa á trjágreinar og eggin geymast þar yfir veturinn. Þau klekjast á vorin þegar brum taka að springa og lirfurnar vaxa upp fyrrihluta sumarsins. Fullvaxnar síga þær á silkiþræði til jarðar og púpa sig í jarðveginum. Þar liggja púpurnar til haustsins.

Haustfeti, lengst til vinstri er kvendýr 8 mm, í miðjunni er karldýr 15 mm og lengst til hægri er lirfa 16 mm löng.

Haustfeti hefur án efa borist til landsins af mannavöldum, því kvendýrin hafa aðeins litla vængstúfa og eru ófleyg. Hann hefur sennilega flust með innfluttum trjám eða runnum. Skráð hefur verið að tegundin hafi fundist hér fyrst í birkiskógi árið 1928 í Þórsmörk. Um var að ræða hálfvaxnar lirfur í samanspunnum birkilaufum. Ástæða er til að efast um réttmæti þessa, því lirfur haustfeta spinna ekki saman laufblöð eins og vefararnir gera hins vegar. Því er með öllu óstaðfest hvenær haustfeti settist hér að en það hefur þó með vissu gerst fyrir 1944.

Þó langmest sé af haustfeta í húsagörðum vegnar honum einnig ágætlega í birkiskógum á Suðurlandi. Fáir fundarstaðir hafa verið skráðir á norðanverðu landinu en þó má fastlega gera ráð fyrir að tegundin finnist þar í görðum í flestum bæjarfélögum. Grænar lirfurnar eru mikil átvögl og oft er fjöldi þeirra slíkur að umtalsverðar skemmdir geta orðið á laufskrúði trjáa snemma sumars. Að öllu jöfnu jafna trén sig fljótlega eftir að fullþroska lirfurnar hafa yfirgefið þau. Atlögur haustfeta við trjágróður er ein meginástæða þess að margir garðeigendur grípa til garðaúðunar.

Kvendýrin skríða upp eftir trjástofnum þegar þau koma úr púpum á haustin og út á greinar trjánna. Þar laða kerlurnar fleyg karldýrin til sín með efnaboðum til að makast. Þær framleiða mikinn fjölda eggja. Líkami þeirra getur verið úttroðinn af eggjum fram undir haus en rýrir og óvirkir flugvöðvarnir taka þar upp lítið rými. Drapplit karldýrin eru oft áberandi á húsveggjum í október þegar mest er af þeim, ekki síst að morgni umhverfis útiljós sem hafa logað yfir nótt.

Heimildir

  • Erling Ólafsson & Hálfdán Björnsson 1997. Fiðrildi á Íslandi 1995. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 32. 136 bls.
  • Geir Gígja 1944. Meindýr í húsum og gróðri og varnir gegn þeim. Prentsmiðjan Hólar hf, Reykjavík. 235 bls.
  • Lindroth, C.H. 1931. Die Insektenfauna Islands und ihre Probleme. Zool. Bidr. 13: 105-589.
  • Skou, P. 1984. Nordens Målere. Håndbog over de danske og fennoskandiske arter af Drepanidae og Geometridae (Lepidoptera). Danmarks Dyreliv 2. Fauna Bøger & Apollo Bøger, Kaupmannahöfn & Svendborg. 332 bls.
  • Wolff, N.L. 1971. Lepidoptera. Zoology of Iceland III, Part 45. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 193 bls.
  • Myndir: Erling Ólafsson, af vef Náttúrufræðistofnunar Íslands. Hægt er að skoða myndirnar stærri inn á þeim vef.


Þetta svar er fengið með góðfúslegu leyfi af vef Náttúrufræðistofnunar Íslands: Haustfeti (Operophtera brumata) | Náttúrufræðistofnun Íslands.

Höfundur

Erling Ólafsson

skordýrafræðingur á Náttúrufræðistofnun

Útgáfudagur

24.10.2011

Síðast uppfært

11.11.2020

Spyrjandi

Þórunn Dís Þórunnardóttir

Tilvísun

Erling Ólafsson. „Hvað getið þið sagt mér um haustfeta?“ Vísindavefurinn, 24. október 2011, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=60956.

Erling Ólafsson. (2011, 24. október). Hvað getið þið sagt mér um haustfeta? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=60956

Erling Ólafsson. „Hvað getið þið sagt mér um haustfeta?“ Vísindavefurinn. 24. okt. 2011. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=60956>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað getið þið sagt mér um haustfeta?
Haustfeti (Operophtera brumata) er fiðrildategund af ætt feta (Geometridae). Í Evrópu er útbreiðsla hans frá Miðjarðarhafi til nyrstu slóða Skandinavíu, austur um Asíu norðan fjallgarðanna miklu til Japans. Auk þess er hann innfluttur til Nova Scotia í Kanada. Á Íslandi finnst hann um sunnanvert landið frá Borgarfirði og austur í Lón en stakir og einangraðir fundarstaðir í öðrum landshlutum eru Bíldudalur, Akureyri og Egilsstaðir.

Haustfeti finnst í birkiskógum og kjarri á útbreiðslusvæðinu á sunnanverðu landinu auk þess að vera algengur í húsagörðum í byggð. Á norðanverðu landinu finnst hann einungis í húsagörðum í þéttbýli. Lirfur éta laufblöð á ýmsum trjátegundum, meðal annars birki (Betula pubescens), reyniviði (Sorbus acuparia), víði (Salix) og kirsuberjatrjám (Prunus). Einnig er fjöldi runna á matseðlinum. Fiðrildin eru á ferli á haustin, frá miðjum september og langt fram eftir nóvember. Kvendýrin verpa á trjágreinar og eggin geymast þar yfir veturinn. Þau klekjast á vorin þegar brum taka að springa og lirfurnar vaxa upp fyrrihluta sumarsins. Fullvaxnar síga þær á silkiþræði til jarðar og púpa sig í jarðveginum. Þar liggja púpurnar til haustsins.

Haustfeti, lengst til vinstri er kvendýr 8 mm, í miðjunni er karldýr 15 mm og lengst til hægri er lirfa 16 mm löng.

Haustfeti hefur án efa borist til landsins af mannavöldum, því kvendýrin hafa aðeins litla vængstúfa og eru ófleyg. Hann hefur sennilega flust með innfluttum trjám eða runnum. Skráð hefur verið að tegundin hafi fundist hér fyrst í birkiskógi árið 1928 í Þórsmörk. Um var að ræða hálfvaxnar lirfur í samanspunnum birkilaufum. Ástæða er til að efast um réttmæti þessa, því lirfur haustfeta spinna ekki saman laufblöð eins og vefararnir gera hins vegar. Því er með öllu óstaðfest hvenær haustfeti settist hér að en það hefur þó með vissu gerst fyrir 1944.

Þó langmest sé af haustfeta í húsagörðum vegnar honum einnig ágætlega í birkiskógum á Suðurlandi. Fáir fundarstaðir hafa verið skráðir á norðanverðu landinu en þó má fastlega gera ráð fyrir að tegundin finnist þar í görðum í flestum bæjarfélögum. Grænar lirfurnar eru mikil átvögl og oft er fjöldi þeirra slíkur að umtalsverðar skemmdir geta orðið á laufskrúði trjáa snemma sumars. Að öllu jöfnu jafna trén sig fljótlega eftir að fullþroska lirfurnar hafa yfirgefið þau. Atlögur haustfeta við trjágróður er ein meginástæða þess að margir garðeigendur grípa til garðaúðunar.

Kvendýrin skríða upp eftir trjástofnum þegar þau koma úr púpum á haustin og út á greinar trjánna. Þar laða kerlurnar fleyg karldýrin til sín með efnaboðum til að makast. Þær framleiða mikinn fjölda eggja. Líkami þeirra getur verið úttroðinn af eggjum fram undir haus en rýrir og óvirkir flugvöðvarnir taka þar upp lítið rými. Drapplit karldýrin eru oft áberandi á húsveggjum í október þegar mest er af þeim, ekki síst að morgni umhverfis útiljós sem hafa logað yfir nótt.

Heimildir

  • Erling Ólafsson & Hálfdán Björnsson 1997. Fiðrildi á Íslandi 1995. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 32. 136 bls.
  • Geir Gígja 1944. Meindýr í húsum og gróðri og varnir gegn þeim. Prentsmiðjan Hólar hf, Reykjavík. 235 bls.
  • Lindroth, C.H. 1931. Die Insektenfauna Islands und ihre Probleme. Zool. Bidr. 13: 105-589.
  • Skou, P. 1984. Nordens Målere. Håndbog over de danske og fennoskandiske arter af Drepanidae og Geometridae (Lepidoptera). Danmarks Dyreliv 2. Fauna Bøger & Apollo Bøger, Kaupmannahöfn & Svendborg. 332 bls.
  • Wolff, N.L. 1971. Lepidoptera. Zoology of Iceland III, Part 45. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 193 bls.
  • Myndir: Erling Ólafsson, af vef Náttúrufræðistofnunar Íslands. Hægt er að skoða myndirnar stærri inn á þeim vef.


Þetta svar er fengið með góðfúslegu leyfi af vef Náttúrufræðistofnunar Íslands: Haustfeti (Operophtera brumata) | Náttúrufræðistofnun Íslands....