Kenning Harveys Harvey rannsakaði eðli hjartsláttar. Hann athugaði hjartslátt í mörgum dýrum, sérstaklega dýrum með kalt blóð og í deyjandi dýrum, vegna þess að hjartsláttur þeirra var hægur. Tilgáta hans fólst í því að blóðið flæddi til allra hluta líkamans með hjartslætti í gegnum slagæðar. Hann skilgreindi samdrátt (systole - tæming hjartans) sem virkan þátt hjartsláttarins í andstöðu við flesta forna lækna sem trúðu því að þan (diastole - fylling hjartans) væri virki þátturinn. Harvey fullyrti að við þan væri hjartað í slökun, púlsinn orsakaðist af útvíkkun slagæðanna þegar að samdráttur hjartans fyllti þær að blóði.2 Rannsóknir Harveys á hjartslætti sýndu honum að hjartað væri að dæla miklu magni af blóði. Blóðinu var dælt út þegar hjartað dróst saman, sem gerðist á sama tíma og púlsinn sem hægt var að finna á hálsi og úlnlið. Hann reyndi síðan að reikna út hversu miklu blóði hjartað dældi út. Hann áttaði sig á því að svo miklu blóð væri pumpað út, að það gæti ekki verið, eins og áður hafði verið haldið fram, að líkaminn neytti þess og framleiddi stöðugt nýtt blóð í staðinn. Þetta gaf til kynna að það hlyti að vera ákveðið magn af blóði í líkamanum – og blóðið færi hringrás. Með fjölda tilrauna á dýrum og dýrakrufningum og magngreiningu blóðsins, komst hann að þeirri niðurstöðu að sama blóðið hlyti að fara hringrás um líkamann og snúa síðan aftur til hjartans. Hann líkti aðgerðum hjartans við vökvapumpu sem þá hafði verið tekin í notkun í Englandi. Ein aðaltilraun Harveys sneri að magni blóðsins sem flæddi í gegnum hjartað. Hann áætlaði stærð hjartahvolfanna, hversu skilvirk þau væru í að dæla blóðinu og fjölda hjartslátta á mínútu. Hann gat sýnt fram á, jafnvel með hóflegu mati, að meira blóð fór í gegnum hjartað en mögulegt væri að gera grein fyrir, byggt á samtímaskilningi á blóðflæði. Mat Harveys gaf til kynna að hjartað dældi 0,5 - 1 lítra af blóði á mínútu (við vitum í dag að hjartað dælir 5 lítrum á mínútu). Í líkama fullorðins einstaklings eru um 5 lítrar af blóði. Líkaminn gat ekki framleitt eða gleypt í sig slíkt magn af blóði svona fljótt og því hlaut blóðið að fara hringrás. Hægt er að leiða líkum að því að það hafi tekið næstum tvö þúsund ár að ná núverandi raunvísindalegri þekkingu um hringrás blóðsins.3 Harvey átti enn eftir að útskýra hvernig þetta virkaði til að kenningin gengi upp. Hann sneri sér þá að því að rannsaka blöðkur eða lokur í æðunum sem Fabricius gamli kennari hans hafði uppgötvað. Harvey gerði tilraun sem sýndi að æðalokurnar leyfðu blóðinu aðeins að flæða í aðra átt, frá hjartanu í gegnum slagæðarnar og til baka í gegnum bláæðarnar en öftruðu blóðflæði í gagnstæða átt. Það passaði mjög vel við kenninguna. Eitt af því sem Harvey gat ekki útskýrt var hvernig blóðið fluttist frá slagæðum í bláæðar, en þó setti hann fram kenningu um tilvist háræða. Vegna þess að hann hafði ekki aðgang að smásjá gat hann þó aldrei fullkomlega skilið hvernig hringrás blóðsins raunverulega virkaði, að slag- og bláæðar eru tengdar með háræðum. Kenning Harveys kom í stað kenningar rómverska læknisins Galenosar, sem í sjálfu sér var útfærsla á fornum grískum kenningum. Harvey sýndi fram á að blóðið var ekki í stöðugri framleiðslu og notkun, að það væri ákveðið magn af blóði í líkamanum. Það þýddi að sá háttur að blæða sjúklingum gengi því ekki upp. Það var mjög ólíklegt að það myndaðist of mikið blóð, þar sem það fór í hringrás en var ekki í stöðugri framleiðslu. Harvey kynnti kenningu sína fyrst árið 1616, en birti hana síðar í áðurnefndri bók sinni Um hreyfingu hjartans. Eins og svo oft áður í sögunni áttu menn erfitt með að meðtaka nýja kenningu. Galenos hafði verið leiðandi í læknisfræðilegri þekkingu í aldir og uppgötvanir Harveys voru í andstöðu við kenningar hans og olli því útgáfa bókarinnar talsverðum deilum meðal lækna. En hann lifði þó að sjá kenningar sínar meðteknar af læknasamfélaginu. Harvey lifði á tímum galdraofsóknanna (tímabilið frá 15.-17. öld) og var viðriðinn eitt slíkt mál. Árið 1634 var hann fenginn til að skoða fjórar konur sem ákærðar höfðu verið fyrir galdra. Þetta var tími þar sem trú á nornir var algeng og að neita tilveru þeirra var álitin villutrú. Harvey til hróss þá meðhöndlaði hann málið með opnum huga og var tilbúinn að taka til greina vísindalegar skýringar á þeim „sönnunum“ sem notaðar voru til að sýna fram á að nornahátt. Hinar meintu nornir voru fundnar saklausar. Síðar á ferli sínum vann Harvey við rannsóknir á æxlun dýra og notaði tilraunir og athuganir til að afhjúpa leyndardóma getnaðar, hlutverk karl- og kvendýra, frjóvgun og þroska fósturs. Hann var fyrstur að koma með þá tilgátu að hjá mönnum og öðrum spendýrum yrði getnaður með frjóvgun sáðfrumu og eggs. Það var ekki fyrr en með uppgötvun smásjárinnar að menn sáu svo sáðfrumu í fyrsta skipti. Á tímum ensku borgarastyrjaldarinnar (1642-1651) flutti Harvey, sem var mikill konungssinni til Oxford til að annast Karl I Englandskonung.4 En um 1645 er Harvey var 68 ára gamall dró hann sig í hlé frá störfum og opinberu lífi. Hann hafði missti eiginkonu sína, var barnlaus og sneri til London til að búa með bræðrum sínum. Hann var heilsuveill, þjáðist meðal annars af nýrnasteinum, þvagsýrugigt og átti erfitt með svefn. William Harvey lést 3. júní 1657 af völdum heilablóðfalls. Tilvísanir
- 1 Enski titill bókarinnar er Anatomical Exercise on the Motion of the Heart and Blood in Animals. Með því að smella hér má lesa enska þýðingu á vefnum.
- 2 Anita Guerrini, Experimenting with Humans and Animals: From Galen to Animal Rights, John Hopkins University Press, 2003, bls. 26.
- 3 Rúna Hjaltested Guðmundsdóttir, Saga læknisfræðinnar frá steinöld til nútímans, Tilraunaútgáfa, 2011, bls. 89-92.
- 4 Britannica academic edition.
- William Harvey á Wikipedia. Verk eftir Daniel Mytens (1590-1647/48) frá um 1627. Sótt 11. 10. 2011.
- On the Motion of the Heart and Blood in Animals á eBooks @ Adelaide. Sótt 11. 10. 2011.