Strumpanafnið íslenska er fengið beint úr upphaflega heiti þeirra á móðurmáli Peyos, Schtroumpfs. Strumpaævintýrin segja frá lífsbaráttu Strumpanna, Æðstastrumps, Fýlustrumps, Fótboltastrumps og um hundrað annarra Strumpa auk hinnar ósnertanlegu Strympu, einu kvenverunnar sem kemur við sögu Strumpanna. Aðrar kunnar aukapersónur eru Kjartan galdrakarl, erkióvinur strumpanna, og kattarófétið Brandur. Víkur þá sögunni að íslenskum örnefnum. Þar eiga Strumpar og þó einkum Strympur allnokkra fulltrúa. Á bænum Krossum á Árskógsströnd í Eyjafirði kemur örnefnið Strumphóll fyrir: „Suður og upp frá [Krossaleiti] er uppmjór melkollur, sem Strumphóll heitir.“ (Örnefnaskrá Krossa, Árskógsstrandarhr. Eyf.) Strympa hefur verið heiti nokkurra smábýla á Íslandi. Merkingin orðsins í þessum tilfellum vísar að líkindum til útlits enda getur orðið merkt ʻhús með keilulaga þakiʼ eða ʻuppmjó húfa, stromphúfaʼ. Á Bakkakoti í Meðallandi eru rústir eyðibýlis: „Sunnan [Bolabláa] var hús, sem hét Strympa, var í suð-vesturhorni landsins. Þar var húsmennskubýli, síðar kindakofi.“ (Bakkakot, Leiðvallahr., V-Skaft.) Sömu sögu er að segja um hverfið kringum Odda á Rangárvöllum: „Norðaustan við útsuðshorn [svo] kirkjugarðsins stóð bærinn Strympa.“ (Oddi, Rangárvallahr. Rang.) Vísa er til um nöfn smábýlanna á þessum slóðum:
Öll eru kotin Odda hjá, Ekra, For og Strympa, Vindás, Kragi, Kumli þá, Kemur Hóll þar skammt í frá. (Oddhóll, Rangárvhr. Rang.)Á Loftsstöðum í Gaulverjabæ var önnur Strympa: „Tvær hjáleigur frá Loftsstöðum voru þá, þar sem nú eru Loftsstaðabæir. Grilla þar sem nú eru Eystri-Loftsstaðir en Strympa skammt norðaustar en Vestri-Loftsstaðir eru nú. Þessar hjáleigur voru báðar í byggð fram yfir 1800.“ (Vestri- og Eystri-Loftsstaðir, Gaulverjabæjarhr. Árn.) Mörg örnefni þar í grennd eru kennd við Strympu: Strymputún, Strympuhóll, Strympuengjar og Strympuflóð. Á Eystri-Sólheimum er enn önnur Strympa. „Upp af bæ er Strympuhóll, kenndur við hlöðu, sem stóð efst á honum og hét Strympa. Hún var hlaðin í hring, upphaflega með strympulögun.“ (Eystri-Sólheimar, Dyrhólahr. V-Skaft.) Dæmin sem hafa verið nefnd um Strympur hér að framan eru öll um heiti á býlum. Nafnið getur líka verið haft um annað. „Fyrir utan gamla túngarðinn voru grýttir móar ... og yst þar sem skurður skilur er fötulaga blettur sem heitir Strympa.“ (Hallsstaðir, Nauteyrarhr. N-Ís.) „Upp úr [Nesi] gengur allbrött mýrardokk, heitir Strympa.“ (Rauðhólar, Vopnafjarðarhr. N-Múl.) Í fyrra dæminu er beinlínis sagt að Strympan sé ʻfötulagaʼ. Ein merking orðsins strympa er einmitt ʻniðurmjó fataʼ. Strympuskák í landi Drangshlíðar (A-Eyjafjallahr. Rang.) er af sama toga og ef til vill Strympumelur á Hraunsholti (Garðahr. Gull.). Svipuð merking er á ferðinni þegar klettar eða hólar eru kallaðir Strympur. Þá vísar nafnið til lögunar. „Sunnan við Hestaklett stendur strýtumyndaður hóll sem heitir Strympa.“ (Marteinstunga, Holtahr. Rang.) „Ofanvert við Klettakotstún er há strýta, sem heitir Strympa.“ (Búðir, Staðarsveit, Snæf.) „Á dalnum ... utan við Miðá eru Fláar; út af þeim eru Strympur, þrjár vörður og klettar í röð.“ (Geitdalur, Skriðdalshr. S-Múl.) Strymp- eða Strympuhólar eru líka allalgengir. Þá má meðal annars finna á Læk (Holtahr. Rang.), Álfatröðum (Hörðudalshr. Dal.), Hoftúni (Staðarsveit. Snæf.), Skarði (Gnúpvhr. Árn.). Á Gunnarsstöðum í Hörðudal dregur hóllinn „nafn af klapparstrýtu, sem stendur upp úr honum.“ Strympuklettur er í landi Bíldsfells í Grafningi (Árn.). Náskylt örnefnum með Strump- eða Strymp- eru Stromp-örnefni. Strompar heita á nokkrum stöðum hólar sem líklega eru strýtumyndaðir eða uppmjóir. „Nyrst í [Stekkjabala] er strýtumyndaður hóll, sem kallast Strompur.“ (Glæsistaðir, Vestur-Landeyjahr., Rang.) „Þar austur af í miðju landi er hóll, sem heitir Strompur eftir lögun sinni.“ (Dilksnes, Nesjahr. A-Skaft.) „Á [Gerpi] eru þessi örnefni á egginni: Maður, Slakki, Strompur og Gerpiskollur yzt.“ (Sandvík, Norðfjarðarhr. S-Múl.) Sama gildir um Strompkletta: „Við Fossá fremst undan Mjósundi er stakur klettur við ána. Kallast hann Strompklettur. Upp úr honum er drangur líkt og strompur tilsýndar.“ (Fossar, Bólsthlíðarhr. A-Hún.) „Í Háatúni er stór steinn sem Strompklettur heitir.“ (Bær, Bæjarhr. A-Skaft.) Franska heiti Strumpanna, Les Schtroumpfs, virðist vera skopleg útgáfa af þýska orðinu Strumpf sem merkir ʻsokkurʼ og er mörgum kunnugt í danska orðinu strømper. Upphaflega virðist orðið hafa merkt ʻeitthvað upphátt eða uppmjóttʼ og er þá ekki ýkja langt milli merkingar ʻsokkaʼ eða ʻstrompaʼ eða ʻupphárrar húfuʼ eða ʻniðurmjórrar fötuʼ. Ein merking enn er þó til í þessu orði sem virðist fjarlæg þeim sem áður eru nefndar. Það er að orðið Strympa er eitt heiti Grýlu og strympa merkir einnig ʻskassʼ eða ʻgrófa konuʼ.
Í tímaritinu Þjóðólfi 1903 (9.1.1903, bls. 7) er sagt frá Strympu gömlu.
svo var hún venjulegast kölluð kerlingarræfillinn, sem mér er í barnsminni, er eg var að alast upp hjá foreldrum mínum. Eg veit ekki, hvað hún hét réttu nafni, hef aldrei grennslazt eptir því, en hún var ávallt kölluð „Strympa gamla“ eða „gamla Strympa“. Og eg man svo vel eptir, að hún var höfð fyrir grýlu á krakkana í sveitinni, enda var hún vel til þess fallin fyrir margra hluta sakir, bæði vegna útlits og lundemis, er hvorttveggja var í lakara lagi. Hún var svo orðvond og illmálg, einkum á bak, að enginn vildi hafa hana á heimili sínu og flæktist hún því venjulegast manna á milli og var öllum hvimleið. Varð hver þeirri stundu fegnastur, er hann gat losnað við hana. Bar hún róg og hviksögur út um helztu menn sveitarinnar, svo að allt komst í bál og brand.Mikil andstæða Strympu Strumpabókmenntanna er Strympan íslenska. Sú fyrri er ástarhnoss allra Strumpa, hin barnafæla og allra ami. Myndir:
- Strumpar: Guest of a Guest. Sótt 6 10. 2011.
- Grýla og hyski hennar: Jólamjólk.is. Sótt 6. 10. 2011.