Sólin Sólin Rís 10:26 • sest 16:02 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 01:04 • Sest 15:19 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 01:05 • Síðdegis: 13:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 07:12 • Síðdegis: 20:04 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:26 • sest 16:02 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 01:04 • Sest 15:19 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 01:05 • Síðdegis: 13:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 07:12 • Síðdegis: 20:04 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hver er Hélène Cixous og hvert er hennar framlag til fræðanna?

Irma Erlingsdóttir

Franski rithöfundurinn og fræðikonan Hélène Cixous fæddist í Oran í Alsír árið 1937. Hún ólst upp í fjölþjóðlegu og fjöltyngdu umhverfi þar sem þýska og franska voru talaðar á heimilinu, en arabíska og spænska á götum úti. Fjölskylda hennar í báða leggi voru gyðingar. Móðir hennar flúði nasismann með því að flytjast frá Osnabrück í Þýskalandi til Alsírs árið 1933; föðurfjölskyldan, sem hafði búið á Spáni, þurfti að flýja þaðan undan ofsóknum til Marokkó, en settist síðar að í Alsír.

Hélène Cixous fluttist til Frakklands árið 1955, en þar segist hún hafa sóst eftir sjálfsmynd sem ekki væri byggð á þjóðernislegum grunni heldur á bókmenntum og skrifum. Cixous lauk frönsku háskólaprófi (fr. agrégation) í enskum bókmenntum árið 1959. Hún las Shakespeare, James Joyce og þýsku rómantísku höfundana, þar á meðal Heinrich von Kleist. Árið 1968 var henni veitt doktorsgráða í bókmenntum, en ritgerð hennar um James Joyce (L'Exil de James Joyce ou l'art du remplacement) vakti mikla athygli þegar hún var gefin út sama ár (á ensku 1972). Hún er í augum margra enn í dag grundvallarrit um Joyce.


Hélène Cixous.

Skömmu eftir stúdentaóeirðirnar 1968 var Cixous falið að stofna tilraunaháskólann Paris VIII í Vincennes (háskólinn er nú staðsettur í Saint-Denis). Hún fékk ýmsa efnilega eða þekkta fræðimenn í lið með sér, meðal annarra Michel Foucault, Gérard Genette, Tzvetan Todorov, Felix Guattari, Gilles Deleuze og Jacques Derrida. Sá síðastnefndi átti eftir að verða mikill vinur hennar og samstarfsmaður; hann skrifaði tvær bækur um skáldskaparskrif Cixous, H.C. pour la vie (2002) og Genèses, généalogies, genres et le génie. Les secrets de l´archive (2003) og þau skrifuðu bókina Voiles (1998) saman.

Við hinn nýja háskóla hóf Hélène Cixous rannsóknir á tengslum kvenna og bókmennta og á merkingu kynferðis og líkama í texta. Hún skapaði sér fljótt nafn í hinum alþjóðlega fræðaheimi fyrir róttækar femínískar fræðigreinar, meðal annars með greinunum „Útleiðir” („Sorties”) og „Hlátur Médúsunnar” („Le rire de la Méduse”). Rannsóknir hennar urðu til þess að árið 1974 réðst hún í að stofna þverfaglega kvennarannsóknadeild (Centre des études féminines) við Paris VIII-háskólann og var það fyrsta deild sinnar tegundar í Evrópu. Markmiðið var að komast út fyrir einsýna og einræða námstilhögun og til skapa vettvang til að hugsa, lesa og skrifa á annan hátt en innan veggja frönsku akademíunnar þar sem hefð, kredda og karlremba réðu ríkjum, eins og hún hefur sjálf orðað það.

Hélène Cixous er einstaklega afkastamikill höfundur, en hún hefur birt um sextíu skáldsögur og leikrit auk fjölda styttri ritverka, fyrirlestra og fræðigreina þar sem hún samtvinnar heimspeki og bókmenntarýni. Hún hefur oft slegið gagnrýnendur út af laginu með umfangi og fjölbreytni verka sinna sem er illgerlegt að flokka eða skilgreina innan hefðbundinnar „kanónu“. Í þeirri gerjun sem átti sér stað á árunum upp úr 1968 gaf Cixous út fyrstu skáldlegu texta sína sem strax vöktu hrifningu. Hún hlaut frönsku bókmenntaverðlaunin Prix Médicis fyrir aðra skáldsögu sína, Dedans, árið 1969. Með skáldævisögunni Or. Les lettres de mon père sem kom út árið 1997 breikkaði Cixous lesendahóp sinn til muna án þess að hún gæfi eftir í djarfri ofur-virkjun tungumálsins. Fleiri sjálfsævisögulegar bækur sigldu í kjölfarið.

Skáldlegir textar Cixous sameina prósa, ljóð og heimspeki. Hún kallar þá „fiction“ en ekki „roman“. Orðið „fiction“ hefur tvær meginmerkingar: annars vegar þýðir það „skáldsaga“ og hins vegar „tilbúningur, ímyndun, uppspuni, heilaspuni“. Segja má að „fiksjónir“ Cixous falli undir síðarnefndu merkingu orðsins; textinn er svið ímyndunar og mótunar. Myndmálið – myndhverfingar, hljóðmyndir, líkingar og fleira — kemur í stað sögufléttu í textum hennar og textaorkan er á vissan hátt líkömnuð.


Úr uppfærslu Ariane Mnouchine á leikritinu Tambours sur la digue eftir Hélène Cixous.

Í Frakklandi er Hélène Cixous einkum kunn meðal almennings sem leikritaskáld, en hún hefur skrifað flest leikrit sín fyrir leikhússtjórann Ariane Mnouchine sem rekur Sólarleikhúsið (Le Théâtre du Soleil). Annar þekktur og umdeildur leikstjóri, Daniel Mesguich, er einnig í miklum metum hjá Cixous. Hún hefur skrifað þrjú leikrit fyrir hann, meðal annars L´Histoire (que l´on ne connaîtra jamais) (Söguna (sem við munum aldrei þekkja)) sem byggir á sérstæðan hátt á bókmenntaarfi Íslendinga, en þar eru Snorri Sturluson og Edda í aðalhlutverkum: skáldið og verkið.

Leikrit Cixous eru söguleg; þau skírskota einatt til samtímaviðburða en einkennast jafnframt af epískri og goðsagnalegri vídd. Þau blanda saman á nýstárlegan hátt skáldskap og samtímasögu. Leikhúsið er „helgidómur minnisins“, segir Cixous. Þar kemur upp á yfirborðið það sem annars er í gleymsku. Ólíkt því sem gerist í skáldsögunni á sér stað í leikritinu athöfn eða viðburður í nútíð (hér og nú) sem ekki verður umflúinn. Áhorfandi verður vitni að atburðum og er að ákveðnu leyti kallaður til þátttöku og ábyrgðar. Leikhús sem gerir þetta form áþreifanlegt vinnur að sögn Cixous gegn því sinnuleysi sem óhætt er að nefna harmleik nútímans.

Myndir:

Höfundur

lektor í frönskum bókmenntum við HÍ og forstöðumaður RIKK

Útgáfudagur

29.9.2011

Síðast uppfært

22.5.2019

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Irma Erlingsdóttir. „Hver er Hélène Cixous og hvert er hennar framlag til fræðanna?“ Vísindavefurinn, 29. september 2011, sótt 24. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=60757.

Irma Erlingsdóttir. (2011, 29. september). Hver er Hélène Cixous og hvert er hennar framlag til fræðanna? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=60757

Irma Erlingsdóttir. „Hver er Hélène Cixous og hvert er hennar framlag til fræðanna?“ Vísindavefurinn. 29. sep. 2011. Vefsíða. 24. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=60757>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hver er Hélène Cixous og hvert er hennar framlag til fræðanna?
Franski rithöfundurinn og fræðikonan Hélène Cixous fæddist í Oran í Alsír árið 1937. Hún ólst upp í fjölþjóðlegu og fjöltyngdu umhverfi þar sem þýska og franska voru talaðar á heimilinu, en arabíska og spænska á götum úti. Fjölskylda hennar í báða leggi voru gyðingar. Móðir hennar flúði nasismann með því að flytjast frá Osnabrück í Þýskalandi til Alsírs árið 1933; föðurfjölskyldan, sem hafði búið á Spáni, þurfti að flýja þaðan undan ofsóknum til Marokkó, en settist síðar að í Alsír.

Hélène Cixous fluttist til Frakklands árið 1955, en þar segist hún hafa sóst eftir sjálfsmynd sem ekki væri byggð á þjóðernislegum grunni heldur á bókmenntum og skrifum. Cixous lauk frönsku háskólaprófi (fr. agrégation) í enskum bókmenntum árið 1959. Hún las Shakespeare, James Joyce og þýsku rómantísku höfundana, þar á meðal Heinrich von Kleist. Árið 1968 var henni veitt doktorsgráða í bókmenntum, en ritgerð hennar um James Joyce (L'Exil de James Joyce ou l'art du remplacement) vakti mikla athygli þegar hún var gefin út sama ár (á ensku 1972). Hún er í augum margra enn í dag grundvallarrit um Joyce.


Hélène Cixous.

Skömmu eftir stúdentaóeirðirnar 1968 var Cixous falið að stofna tilraunaháskólann Paris VIII í Vincennes (háskólinn er nú staðsettur í Saint-Denis). Hún fékk ýmsa efnilega eða þekkta fræðimenn í lið með sér, meðal annarra Michel Foucault, Gérard Genette, Tzvetan Todorov, Felix Guattari, Gilles Deleuze og Jacques Derrida. Sá síðastnefndi átti eftir að verða mikill vinur hennar og samstarfsmaður; hann skrifaði tvær bækur um skáldskaparskrif Cixous, H.C. pour la vie (2002) og Genèses, généalogies, genres et le génie. Les secrets de l´archive (2003) og þau skrifuðu bókina Voiles (1998) saman.

Við hinn nýja háskóla hóf Hélène Cixous rannsóknir á tengslum kvenna og bókmennta og á merkingu kynferðis og líkama í texta. Hún skapaði sér fljótt nafn í hinum alþjóðlega fræðaheimi fyrir róttækar femínískar fræðigreinar, meðal annars með greinunum „Útleiðir” („Sorties”) og „Hlátur Médúsunnar” („Le rire de la Méduse”). Rannsóknir hennar urðu til þess að árið 1974 réðst hún í að stofna þverfaglega kvennarannsóknadeild (Centre des études féminines) við Paris VIII-háskólann og var það fyrsta deild sinnar tegundar í Evrópu. Markmiðið var að komast út fyrir einsýna og einræða námstilhögun og til skapa vettvang til að hugsa, lesa og skrifa á annan hátt en innan veggja frönsku akademíunnar þar sem hefð, kredda og karlremba réðu ríkjum, eins og hún hefur sjálf orðað það.

Hélène Cixous er einstaklega afkastamikill höfundur, en hún hefur birt um sextíu skáldsögur og leikrit auk fjölda styttri ritverka, fyrirlestra og fræðigreina þar sem hún samtvinnar heimspeki og bókmenntarýni. Hún hefur oft slegið gagnrýnendur út af laginu með umfangi og fjölbreytni verka sinna sem er illgerlegt að flokka eða skilgreina innan hefðbundinnar „kanónu“. Í þeirri gerjun sem átti sér stað á árunum upp úr 1968 gaf Cixous út fyrstu skáldlegu texta sína sem strax vöktu hrifningu. Hún hlaut frönsku bókmenntaverðlaunin Prix Médicis fyrir aðra skáldsögu sína, Dedans, árið 1969. Með skáldævisögunni Or. Les lettres de mon père sem kom út árið 1997 breikkaði Cixous lesendahóp sinn til muna án þess að hún gæfi eftir í djarfri ofur-virkjun tungumálsins. Fleiri sjálfsævisögulegar bækur sigldu í kjölfarið.

Skáldlegir textar Cixous sameina prósa, ljóð og heimspeki. Hún kallar þá „fiction“ en ekki „roman“. Orðið „fiction“ hefur tvær meginmerkingar: annars vegar þýðir það „skáldsaga“ og hins vegar „tilbúningur, ímyndun, uppspuni, heilaspuni“. Segja má að „fiksjónir“ Cixous falli undir síðarnefndu merkingu orðsins; textinn er svið ímyndunar og mótunar. Myndmálið – myndhverfingar, hljóðmyndir, líkingar og fleira — kemur í stað sögufléttu í textum hennar og textaorkan er á vissan hátt líkömnuð.


Úr uppfærslu Ariane Mnouchine á leikritinu Tambours sur la digue eftir Hélène Cixous.

Í Frakklandi er Hélène Cixous einkum kunn meðal almennings sem leikritaskáld, en hún hefur skrifað flest leikrit sín fyrir leikhússtjórann Ariane Mnouchine sem rekur Sólarleikhúsið (Le Théâtre du Soleil). Annar þekktur og umdeildur leikstjóri, Daniel Mesguich, er einnig í miklum metum hjá Cixous. Hún hefur skrifað þrjú leikrit fyrir hann, meðal annars L´Histoire (que l´on ne connaîtra jamais) (Söguna (sem við munum aldrei þekkja)) sem byggir á sérstæðan hátt á bókmenntaarfi Íslendinga, en þar eru Snorri Sturluson og Edda í aðalhlutverkum: skáldið og verkið.

Leikrit Cixous eru söguleg; þau skírskota einatt til samtímaviðburða en einkennast jafnframt af epískri og goðsagnalegri vídd. Þau blanda saman á nýstárlegan hátt skáldskap og samtímasögu. Leikhúsið er „helgidómur minnisins“, segir Cixous. Þar kemur upp á yfirborðið það sem annars er í gleymsku. Ólíkt því sem gerist í skáldsögunni á sér stað í leikritinu athöfn eða viðburður í nútíð (hér og nú) sem ekki verður umflúinn. Áhorfandi verður vitni að atburðum og er að ákveðnu leyti kallaður til þátttöku og ábyrgðar. Leikhús sem gerir þetta form áþreifanlegt vinnur að sögn Cixous gegn því sinnuleysi sem óhætt er að nefna harmleik nútímans.

Myndir:...