Gagnrýnin kenning er fyrst og fremst ákveðin heimspekileg nálgun þar sem forskriftarvídd heimspekilegrar yfirvegunar er fléttuð saman við skýringarmódel félagsvísinda. Æðsta takmark hennar er að tengja saman kenningu og framkvæmd, veita innsýn, og gera fólki kleift að varpa af sér oki kúgunar og öðlast raunverulegt frelsi, skapa skynsamlegt þjóðfélag sem fullnægir mannlegum þörfum og kröftum ...4Innsýn Habermas í gagnrýna kenningu leggur honum til efnivið í eitt meginstefið í lífsverki hans: útfærslu og beitingu gagnrýninnar mælistiku sem hægt er að bregða á nútímasamfélag ásamt tilheyrandi rökstuðningi fyrir henni. Sjónarhorn gagnrýninnar kenningar hefur einnig verið vegvísir í heimspekilegri verkum hans sem miða að skynsamlegri endurgerð þeirra forsendna sem mannleg samskipti og athafnir byggjast á þar sem skynsemishugtakið er í brennidepli. Rannsóknarritgerðin sem Habermas lagði fram í Marburg var gefin út árið 1962 undir heitinu The Structural Transformation of the Public Sphere. Þetta fyrsta verk hans hafði gríðarleg áhrif í Þýskalandi og víðar. Í greiningu sinni sýnir Habermas hvernig sérstakur umræðuvettvangur (e. public sphere) spratt upp í kaffihúsaflóru Parísar og Lundúna á 18. öld. Þó að hugsjónin um óþvingaðan umræðuvettvang hafi aldrei fyllilega orðið að veruleika var hún samt sem áður til staðar. Mesta athygli vakti þó sú niðurstaða Habermas að umræðuvettvangur samtímans lúti í síauknum mæli forræði voldugra sérhagsmunaafla sem umbreyti stjórnmálum í fjöldalýðræði þar sem borgararnir eru óvirkir áhorfendur fremur en virkir þátttakendur.
Hér beitir Habermas „innri gagnrýni“ undir merkjum Frankfurtarskólans og stillir borgaralegum hugsjónum um lýðræði og réttarríki upp andspænis ófullkomnum veruleika. Til grundvallar þessari nálgun liggja ákveðnar forsendur þar sem hin vitandi hugvera er útgangspunktur heimspekilegrar yfirvegunar og rekja má aftur til Descartes. Seint á sjöunda áratugnum og í byrjun þess áttunda hvarf Habermas frá forsendum „vitundarheimspeki“ og sneri sér að greiningu tungumálsins. Þessi umskipti mörkuðu tímamót í sögu félagsvísinda. Nýtt kenningarviðmið varð til sem hvílir á hugmyndinni um samhuglæg málsamskipti. Fyrst í stað hafði þetta í för með sér að hin forskriftarlega mælistika var alhæfð og slitin úr samhengi við formgerðir nútímasamfélags. Hugmyndina um kjörræðustöðu (e. ideal speech situation) sem gengið er út frá í öllum málsamskiptum að mati Habermas og á rætur í samskiptahæfni mannsins sem tegundar mátti hæglega túlka sem algilt viðmið fyrir þjóðfélagsgagnrýni og einnig samfélagslíkan sem hvílir á frelsi og jöfnuði – og réttlætingu á því. En Habermas hafnaði fljótlega þeim skilningi á kjörræðustöðunni að hún fæli í sér endanlegt takmark samfélagslegs frelsis. Hann hafði lært það af skoðanaskiptum sínum við félagsfræðinginn Niklas Luhmann að þróun samfélagsins leiðir til þess að félagsleg kerfi verða sífellt flóknari. Gagnsæið sem kjörræðustaðan útheimtir, sé hún túlkuð sem altækt skipulagslögmál samfélagsins, gerir það að verkum að fræðilega séð verður hún ótæk sem gagnrýnin mælistika. Í The Theory of Communicative Action sem kom út við upphaf níunda áratugarins skipti Habermas þjóðfélaginu í tvö meginsvið: lífheim og kerfi. Þessi skipting byggist á aðgreiningu félagslegra athafna í samskiptaathafnir og kænskuathafnir og samsvarandi greinarmun á félagslegri og kerfisbundinni samþættingu samfélagsins. Habermas rekur þau vandamál sem þjaka nútímasamfélag síðan til þess sem hann kallar „nýlenduvæðingu“ lífheimsins. Hættan felst í því að kerfisbundin gangvirki peninga og valds herja á lífheiminn og ryðja úr vegi félagslegri samþættingu sem hvílir á gagnkvæmum málskilningi og samstöðu. Þetta verk sem er Opus Magnum Habermas bauð ekki upp á fullnægjandi svar við þeirri mikilvægu spurningu hvernig lífheimurinn gæti varist heimsvaldastefnu kerfisins, hvernig hægt væri að bægja frá hættunni á nýlenduvæðingu lífheimsins. Habermas var bjartsýnn á að formgerðir lífheimsins sem væru sleitulaust samþættar félagslega veittu kerfinu viðnám; til marks um það benti hann á reynsluna af hinum nýju félagslegu hreyfingum (svo sem kvennahreyfingunni og umhverfisverndarhreyfingunni) sem hafa rutt sér til rúms. Það var hins vegar óljóst hvernig finna mætti þessum möguleika sem býr í formgerðum lífheimsins viðunandi farveg sem skapaði öfluga viðspyrnu gagnvart kerfinu. Í kjölfarið á The Theory of Communicative Action sneri Habermas sér að siðfræði og laga- og stjórnmálaheimspeki. Fyrst lagði hann grunninn að svokallaðri samræðusiðfræði ásamt Karl-Otto Apel og fleirum en varð þess fljótlega áskynja að umfjöllun um siðferðilegar formgerðir nútímasamfélags kallaði einnig á lagalegt sjónarhorn og kenningu um stjórnmál. Þetta varð til þess að hann réðist í að skrifa Between Facts and Norms sem var ætlað að ráða bót á því. Þar er einnig sett fram lausn á vandamálinu sem skilið var eftir óleyst í The Theory of Communicative Action. Lögin – lýðræðisleg ferli lagasetningar og það samskiptavald sem þau geta af sér – hafa fengið það hlutverk að koma böndum á kerfið. Í Between Facts and Norms er á vissan hátt komið aftur að viðfangsefnum sem Habermas var að kljást við í Structural Transformation. Hið lýðræðislega réttarríki hefur hemil á beitingu stjórnsýsluvalds og grundvallarreglur þess ásamt grundvallarreglum mannréttinda leggja gagnrýninni þjóðfélagskenningu auk þess til gagnrýninn mælikvarða. Loks er hugmyndin um rökræðulýðræði útfærð nánar þar sem umræðuvettvangurinn gegnir lykilhlutverki. Sumir gagnrýnendur, til dæmis belgíska fræðikonan Chantal Mouffe, halda því fram að frá og með Between Facts and Norms hafi Habermas í raun snúið baki við gagnrýninni kenningu og lagt árar í bát gagnvart nýfrjálshyggjunni. Hófsamari lesendur túlka verkið aftur á móti á þann veg að um sé að ræða vissa stefnubreytingu hjá Habermas í áttina að frjálslyndisstefnu með áherslu á lög og rétt. Enn aðrir hafna öllum slíkum túlkunum og líta svo á að verkið sé einfaldlega liður í þroskasögu Habermas sem fræðimanns og rökrétt framhald á fyrri verkum hans. Síðastliðna tvo áratugi hefur Habermas meðal annars beint sjónum að vettvangi alþjóðasamskipta. Hann hefur sett fram athyglisverðar hugmyndir um möguleika og fyrirkomulag alþjóðlegrar stjórnlagahyggju, lýðræðislegt réttarríki og rökræðulýðræði jafnframt því sem hann hefur sinnt heimspekilegri viðfangsefnum.
- Lasse Thomassen: Habermas: A Guide for the Perplexed (London: Continuum, 2010).
- David Ingram: Habermas: Introduction and Analysis (Ithaca and London: Cornell University Press, 2010).
- Barbara Fultner, ritstj.: Jürgen Habermas. Key Concepts (Durham: Acumen, 2011).
- The Structural Transformation of the Public Sphere. An Inquiry into a Category of Bourgeois Society, trans. Thomas Burger with the assistance of Frederick Lawrence (Cambridge, Mass.: MIT Press, 1989 [1962]).
- Knowledge and Human Interests, trans. Jeremy J. Shapiro (London: Heinemann, 1971 [1968]).
- Legitimation Crisis, trans. Thomas McCarthy (Boston: Beacon Press, 1975 [1973]).
- The Theory of Communicative Action. Volume One: Reason and the Rationalization of Society, trans. Thomas McCarthy (Boston: Beacon Press, 1984 [1981]) and The Theory of Communicative Action. Volume Two: Lifeworld and System: A Critique of Functionalist Reason, trans. Thomas McCarthy (Boston: Beacon Press, 1987 [1981]).
- Moral Consciousness and Communicative Action, trans. Christian Lenhardt and Shierry Weber Nicholsen (Cambridge, Mass.: MIT Press, 1990 [1983]).
- Between Facts and Norms: Contributions to a Discourse Theory of Law and Democracy, trans. William Rehg (Cambridge, Mass.: MIT Press, 1996 [1992]).
- en.wikipedia.org - Jürgen Habermas. Sótt 26.9.2011.
- Brian's Culture Blog. Sótt 28.9.2011.
1 „Political Experience and the Renewal of Marxist Theory,“ í Peter Dews, ritstj., Autonomy and Solidarity: Interviews with Jürgen Habermas (London: Verso, 1986), s. 78.
2 Hér er vísað í enskar þýðingar á verkum Habermas.
3 William Outwaite, Habermas: A Critical Introduction (Cambridge: Polity Press: 1994), s. 44.
4 The Cambridge Dictionary of Philosophy, ritstj. Robert Audi (Cambridge: Cambridge University Press, 1999), s. 324.