Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hetærur voru forngrískar gleðikonur en orðið sjálft, ἑταίρα, merkir „vinkona“. Oftast voru hetærur af erlendum uppruna, ambáttir eða frelsingjar. Stundum voru þær atvinnudansarar eða hljóðfæraleikarar, sem léku listir sínar í samdrykkjum, eins konar drykkjuveislum eingöngu ætluðum körlum að skemmtikröftunum undanskildum. Hetærur gátu átt eignir og jafnvel orðið auðugar konur og lifðu oft mun frjálsara lífi en innfæddar eiginkonur Grikkjanna.
Ein mikilvægasta heimildin um grískar vændiskonur er ræðan Gegn Neæru sem eignuð var mælskumanninum Demosþenesi en er raunverulega eftir mann að nafni Apollodóros. Þar segir ræðumaður meðal annars:
Við höfum gleðikonur (ἑταιράς) ánægjunnar vegna, mellur (παλλακὰς) fyrir þarfir líkamans og eiginkonur (γυναῖκας) til að ala okkur börn og vera traustir verðir heimilisins. (Gegn Neæru 122)
Það vekur athygli að ræðumaður gerir ekki aðeins greinarmun á eiginkonum (γυναῖκες) og gleðikonum, heldur einnig á tvenns konar gleðikonum: hetærai og pallakai (ἑταίραι og παλλακαί). Kjör grískra vændiskvenna voru afar mismunandi. Ekki urðu allar vændiskonur auðugar ástkonur valdamikilla manna. Sumar voru gerðar út í hóruhúsum, aðrar voru götumellur. Slíkar vændiskonur kölluðust pornai (πόρναι) eða pallakai (παλλακαί). Á þeim og hetærum var enginn munur annar en virðingarstaða.
Neæra sú sem ræðan er nefnd eftir var hetæra og í raun sú sem nú er mest vitað um, þökk sé ræðunni. Hún hóf feril sinn sem vændiskona í hóruhúsi í Kórinþu, sem rekið var af konu að nafni Níkarete. Kórinþa var fræg fyrir vændisiðnað sinn og af nafni borgarinnar er komin sögnin korinþiazomai (κορινθιάζομαι) sem þýðir „hafa mök, ríða“. Tveir menn keyptu Neæru saman af Níkarete en með hjálp Fryníons nokkurs frá Aþenu keypti hún síðar frelsi sitt af þeim og flutti með Fryníoni til Aþenu. Seinna átti hún einnig í sambandi við Stefanos nokkurn. Sá var pólitískur andstæðingur Apollodórosar, höfundar ræðunnar Gegn Neæru, sem reyndi að koma höggi á Stefanos með því að láta kæra Neæru fyrir að vera ólöglega gift Stefanosi. Niðurstaða réttarhaldanna er ekki þekkt.
Frýne fyrir framan kviðdóminn. Málverk eftir Jean-Léon Gérôme frá 1861.
Ýmsum eftirminnilegum sögum fer þó af öðrum gleðikonum, svo sem Laís, Þaís og Dórikku. Sagnaritarinn Heródótos segir að Dórikka frá Þrakíu, sem öðru nafni nefndist Ródópis, hafi verið ambátt Ídamons á Samos en Ídamon átti einnig átti þrælinn Esóp, sem var höfundur frægra dæmisagna. Dórikka var síðar seld til Egyptalands en endaði á eynni Lesbos sem eiginkona Karaxosar, bróður skáldkonunnar Saffóar. Um Laís var sagt að hún rukkaði kúnna sína um þúsund drökkmur en þegar mælskumaðurinn Demosþenes falaðist eftir þjónustu hennar hækkaði hún verðið í tíuþúsund. Á hinn bóginn lækkaði hún verðið niður í núll fyrir heimspekinginn Díógenes frá Sínópu. Og Þaís á að hafa sannfært Alexander mikla um að brenna höllina í Persepólis.
Ein frægasta gleðikonan hét Frýne og var frá Böótíu en starfaði í Aþenu. Hún er sögð hafa verið fyrirmyndin af ýmsum málverkum og höggmyndum af Afródítu eftir myndlistarmennina Apelles og Praxíteles. Um hana var sagt að þegar hún var kærð fyrir að vanvirða launhelgarnar í Elevsis hafi verjandi hennar Hýpereides afklætt hana fyrir framan kviðdóminn og spurt hvernig svo fögur kona gæti hafa framið annan eins glæp. Kviðdómurinn var sagður hafa sýknað hana fyrir vikið.
Aspasía Axiokkosardóttir frá Míletos var önnur fræg hetæra. Hún var ástkona Períklesar í Aþenu um og eftir miðja 5. öld fyrir okkar tímatal. Henni er gjarnan lýst sem margfróðri og greindri konu með gott pólitískt innsæi. Hún er einnig sögð hafa rætt heimspeki við Sókrates og lærisveina hans og kennt mælskulist. Sagnaritarinn Plútarkos bætir því við í Ævisögu Períklesar að hún hafi einnig gert út vændiskonur. Vera má að fleiri gamlar hetærur hafi staðið í slíkum rekstri en vændi var ekki glæpur í Aþenu frekar en Kórinþu. Sérstakan vændisskatt þurfti þó að greiða.
Í grískum og síðar rómverskum gamanleikjum, einkum í nýja gamanleiknum svonefnda frá síðasta fjórðungi 4. aldar fyrir okkar tímatal og síðar, varð til ákveðin staðalmynd af gleðikonunni, eins og reyndar af öðrum persónum gamanleikja (til dæmis heimski húsbóndinn, slóttugi þrællinn, matgráðuga smeðjan og raupgjarni hermaðurinn). Þá var gleðikonan oftast fégráðug og stjórnsöm og erfið viðureignar ástfangna unglingnum, sem var önnur staðalmynd.
Mynd:
Geir Þ. Þórarinsson. „Hvað getið þið sagt mér um hetærur?“ Vísindavefurinn, 1. desember 2011, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=60721.
Geir Þ. Þórarinsson. (2011, 1. desember). Hvað getið þið sagt mér um hetærur? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=60721
Geir Þ. Þórarinsson. „Hvað getið þið sagt mér um hetærur?“ Vísindavefurinn. 1. des. 2011. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=60721>.