Éta mýs ost?Hagamýs lifa villtar í náttúru Íslands og éta það sem þær finna og ætilegt er í nágrenni við bústaði sína (holur í jarðvegi eða glufum). Hagamýs safna forða í holur sínar og ganga í hann yfir vetrarmánuðina þegar lítið er um annað æti. Þetta eru gjarnan ber sortulyngs sem einnig kallast lúsamulningur eða jafnvel músamulningur. Mýsnar éta líka ýmiskonar fræ, meira að segja grasfræ og eru til dæmis sólgnar í hvannafræ. Þær éta líka orma, pöddur og lirfur, sérstaklega á vorin og sumrin þegar meira er af pöddum og minna af fræjum. Hagamýs eru líka hræætur og fara gjarnan í hræ sjórekinna fugla eða önnur hræ sem þær finna. Í náttúrulegu umhverfi hagamúsa er lítið um osta en ef þær komast í manngerðan mat, éta þær hann gjarnan og safna því sem hægt er að geyma í einhvers konar forðabúri, glufum eða holum.

Ostur er ekki helsta fæða músa eins og gjarnan virðist vera í sögum og myndum en þær éta hann, eins og margt annað, ef hann býðst.
- Unnsteinsdottir, E. R., & Hersteinsson, P. (2011). Effects of contrasting habitats on population parameters and diet of Apodemus sylvaticus (Rodentia) in south-western Iceland. Mammalia, 75(1), 13-21.
- Bengtson, S. A., Nilsson, A., & Rundgren, S. (1989). Unforeseen disruption of wood mouse population dynamics after food reduction: a field experiment. Oikos, 379-385.
- Karl Skírnisson (1993): Nagdýr. Í: Páll Hersteinsson og Guttormur Sigbjarnarson (ritstj.): Villt íslensk spendýr. Hið íslenska náttúrufræðifélag og Landvernd, Reykjavík. 327-346.
- Mynd: Apodemus sylvaticus (Sardinia) - Wood mouse - Wikipedia, the free encyclopedia. Höfundur myndar: Hans Hillewaert. Birt undir Creative Commons Attribution-Share Alike 3.0 Unported leyfi. (Sótt 25. 11. 2014).