Brjóskkyrkingur er ein algengasta orsök dvergvaxtar. Útlimir eru þá óeðlilega stuttir miðað við búk.
Dvergvöxtur getur stafað af um 200 mismunandi læknisfræðilegum orsökum og þess vegna eru einkenni og eiginleikar dverga mjög mismunandi. Það að vera lítill er í sjálfu sér ekki sjúkdómur. Það fer eftir undirliggjandi orsök dvergvaxtarins hvort hlutföll mismunandi líkamshluta eru eins og hjá fólki af venjulegri hæð. Hjá sumum dvergum er eðlilegt samræmi milli líkamshluta en hjá öðrum eru óeðlileg hlutföll milli líkamshluta. Áður fyrr voru dvergar sem höfðu eðlileg hlutföll hinna ýmsu líkamshluta kallaðir "midgets" á ensku en þetta hugtak er nú talið frekar niðrandi. Pygmýar eru hópar fólks þar sem fullorðnir karlmenn ná ekki 150 cm hæð. Pygmýar finnast víða í Mið-Afríku og Ástralíu.