Náttúruréttur er lögmál; nokkurs konar forskrift fyrir hegðun. Hann boðar að hverjum og einum (og hópum og samfélögum) beri að gera eitthvað vegna þess að það er gott. Flest mál eiga sér niðurstöðu sem er eftirsóknarverð og siðferðilega nauðsynleg. Niðurstaðan getur því skapað rétt eða réttindi fyrir einstaklinga eða hópa þeirra. Heimspekilegar forsendur þess að Grotius sækir í þessa kenningu eru tvær. Annars vegar átti þessi siðferðilega hluthyggja að standa traustum fótum gagnvart þeirri heimspekilegu efahyggju sem átti ákveðnum vinsældum að fagna undir lok sextándu aldar. Hins vegar var hún andstæð þeirri siðfræðilegu guðfræði sem kom fram við siðaskipti sem lagði áherslu á orð ritningarinnar framar verufræðilegum rannsóknum. Grotius varð alræmdur fyrir að gefa í skyn að kenning hans væri jafn rétt þótt það væri leitt í ljós að Guð væri annaðhvort ekki til eða að hann hefði hvort sem er engan áhuga á mannlífinu. Kenning Grotiusar er í stuttu máli sú að þær aðstæður geti komið upp að valdbeiting sé réttlætanleg. Hann bætir við að ástæðurnar sem menn gefa fyrir því að beita ofbeldi séu ekki allar jafn gildar og ítrekar að þrátt fyrir að valdbeiting geti verið réttlætanleg þá megi enn spyrja hvort framkvæmd hennar sé réttlátt. Rétturinn eða réttlætið í náttúruréttarhugtakinu getur haft þrenns konar merkingu. Í fyrsta lagi er þetta spurning um hvort ákveðin athöfn er réttlát eða ekki. Þar sker einungis skynsemin - hið náttúrulega leiðarljós - úr um hvort athöfnin sé góð eða ekki. Í öðru lagi vísar rétturinn til réttinda sem einhver hefur til að bera. Að lokum er hugtakið tengdara skyldu en rétti í þeim skilningi að náttúrurétturinn er eins og lögmál eða lög sem segja okkur hvað hverjum og einum ber að gera. Sá verufræðilegi grundvöllur sem skynsemin beinist að er ákveðin eðlishyggja um manninn. Tveir þættir sem stundum virðast ósamrýmanlegir ráða þar öllu að sögn Grotiusar. Annars vegar er maðurinn gæddur óbilandi sjálfsbjargarviðleitni og hins vegar er hver og einn félagsvera í eðli sínu. Þessir tveir þættir skapa þann siðferðilega veruleika sem náttúrurétturinn byggir á. Í um það bil eina öld eftir dauða Grotiusar deildu heimspekingar grimmt um hversu mikið af náttúrurétti hans stæðist tímans tönn. Enginn gat rætt siðfræði og stjórnspeki án þess að taka tillit til kenningar hans. Í grófum dráttum má greina þessar hræringar í tvo flokka. Í annan flokkinn falla þeir sem deildu heimspekilegu sjónarhorni Grotiusar og lögðu meiri áherslu á frumspeki á kostnað guðfræði til þess að útskýra hinn siðferðilega veruleika. Sameiginlegt sjónarmið þessa hóps var að þar sem náttúruréttinum væri ætlað að útskýra siðferðileg boð hvers mannsbarns þá gæti ágreiningur milli kirkjudeilda ekki haft úrslitaáhrif á kenninguna. Hinn flokkurinn lagði aftur á móti meiri áherslu á takmarkanir heimspekinnar og þar af leiðandi siðferðiboðaskap ritningarinnar og mismunandi túlkanir kirkjudeilda. Á tímum upplýsingarinnar sættu báðar leiðirnar gagnrýni á mismunandi forsendum, sem svo gerði náttúrurétt að fræðilegum forngrip um tíma. Í dag fást fjölmargir heimspekingar þó við þessar hugmyndir og er Hugo Grotius einn þeirra hugsuða sem hvað helst er leitað til úr sögu náttúruréttarkenninga. Á íslensku má fræðast um Hugo Grotius og náttúruréttarkenningar í eftirtöldum fræðigreinum:
- Garðar Gíslason, „Náttúruréttur í nýju ljósi,“ Frelsið 5(2) (1984).
- Hjördís Hákonardóttir, „Um náttúrurétt,“ Tímarit lögfræðinga 45(4) (1995).
- Henry Alexander Henrysson, „Manndómur. Hugleiðingar um Jón Eiríksson og bakgrunn náttúruréttarkennslu hans,“ Hugur (2009).
- Mynd af Grotius: Hugo Grotius á Wikipedia. Olíumálverk eftir Michiel Jansz. van Mierevelt (1567-1641) frá árinu 1631. Sótt 11. 8. 2011.
- Mynd af Um lög stríðs og friðar: Thomas Jefferson’s Library. Sótt 11. 8. 2011.