Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Það þarf ekki að koma á óvart að þau lönd, þar sem flestar dýrategundir finnast, eru víðlend og liggja á regnskógasvæðum. Ríkið sem hefur flestar tegundir lífvera (bæði úr dýra- og plönturíkinu) innan sinna landamæra er Brasilía. Til að mynda vex ein af hverjum fjórum tegundum plantna sem fundist hafa á jörðinni í Brasilíu. Vísindamenn telja að um 9,5% allra tegunda á jörðinni finnist í Brasilíu.
Áður en lengra er haldið er rétt að taka fram að heimildum ber ekki saman um fjölda tegunda. Ástæðurnar geta verið ýmsar, til dæmis er misjafnt hvernig vísindamenn flokka tegundir, gögnin eru misgömul, og forsendurnar geta einnig verið misjafnar, því í rauninni er um mat að ræða, enda hefur enginn talið allar tegundir lífvera á jörðinni!
Helmingur þeirra 10 ríkja sem hafa flestar tegundir lífvera innan sinna landamæra eru í Suður-Ameríku. Gula línan á myndinni sýnir mörk Amason-svæðisins sem er eitt tegundaauðugasta svæði heims. Gráu línurnar tákna landamæri ríkja.
Í Brasilíu hafa fundist yfir 500 tegundir spendýra eða 9,3% þekktra tegunda, aðeins í Indónesíu finnast fleiri spendýrategundir. Froskdýrategundir í Brasilíu eru einnig yfir 500 (7,6% þekktra tegunda), þar eru rúmlega 1.600 tegundir fugla (yfir 16% þekktra tegunda) og tæplega 500 tegundir skriðdýra (5,7% þekktra tegunda). Brasilía er „aðeins“ í þriðja sæti yfir fjölda fuglategunda, í Kólumbíu og Perú sem eru mun minni lönd finnast fleiri tegundir. Í Perú lifa tæplega 1.900 tegundir og rúmlega 1.800 í Kólumbíu.
Í Brasilíu finnast einnig yfir 3.000 tegundir ferskvatnsfiska og fjöldi hryggleysingjategunda skiptir tugum ef ekki hundruðum þúsunda. Þetta mikla tegundaríki Brasilíu má þakka gríðarlega stórum regnskógi (Amason), miklum ám og votlendissvæðum. Einnig eru mjög merkilegir strandskógar við ströndina og savannasvæði í austurhluta landsins.
Hér fyrir neðan er listi yfir þau tíu ríki þar sem flestar dýrategundir finnast:
Brasilía
Kólumbía
Indónesía
Perú
Mexíkó
Ekvador
Kína
Indland
Venesúela
Ástralía
Af þessum tíu ríkjum eru sex í Suður- og Mið-Ameríku. Tvö stór Asíuríki eru á listanum, Indland og Kína sem hafa ekki aðeins stærðina með sér heldur einnig fjölbreytileg búsvæði. Ekkert Evrópuríki kemst á listann og þau er í raun býsna fjarri efstu sætunum.
Reyndar kann þessi listi að breytast eitthvað á næstu áratugum. Árlega finnast nýjar dýrategundir, til dæmis fundust nýlega sex nýir froskar í Laos og 20 tegundir froska í Foja-fjöllum í Indónesíu í fyrra á aðeins tveggja vikna tímabili. Á hinn bóginn fækkar tegundum líka, meðal annars vegna þess að búsvæðum hrakar þegar menn taka land undir önnur not eða ganga á náttúruna á annan hátt.
Heimildir, frekari fróðleikur og mynd:
Jón Már Halldórsson. „Í hvaða landi lifa flestar dýrategundir?“ Vísindavefurinn, 7. desember 2011, sótt 24. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=60387.
Jón Már Halldórsson. (2011, 7. desember). Í hvaða landi lifa flestar dýrategundir? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=60387
Jón Már Halldórsson. „Í hvaða landi lifa flestar dýrategundir?“ Vísindavefurinn. 7. des. 2011. Vefsíða. 24. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=60387>.